13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4786 í B-deild Alþingistíðinda. (4012)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Halldór Stefánsson:

Hæstv. stj. þykist nú ekki við því búin að gefa upplýsingar í þessu máli, en lofar að gera það síðar og óskar eftir að fá að athuga málið í fullum friði. Jeg get lofað því fyrir mitt leyti að stofna ekki til neins styrjar um þetta mál. Mjer þykir hinsvegar óviðfeldið, að stj. skuli leita álits þingsins um þetta án þess að vera við því búin að gefa upplýsingar um það.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Dal. sagði, vil jeg taka það fram, að jeg kannast ekki við, að frá mjer hafi komið nein miður hlýleg orð í garð bankans. Ef hann leggur þann skilning í orð mín, þá hlýtur það að stafa af því, að honum hafi ekki þótt þægilegt að svara þeim spurningum viðvíkjandi rekstri bankans, sem jeg kom fram með. Fyrir þá vitneskju, sem jeg hefi um þetta á Austurlandi, get jeg leiðrjett það, sem háttv. þingm. Dal. (SE) sagði um uppsögn lánanna, sem jeg hafði minst á. Hann sagði, að uppsögninni hefði verið látin fylgja skýring og loforð um, að menn fengju að framlengja víxillánin áfram. Þetta er alls ekki rjett. Uppsögnunum fylgdu engar skýringar. Mönnum var aðeins boðið að gangast undir víxilskylduna. Menn vita, hve ótvíræður og hlífðarlaus rjettur lánveitanda er gagnvart víxilskuldara, og eftir þessa reynslu sína á viðskiftum við þennan banka höfðu viðskiftamenn hans ekki ástæðu til að vænta neinnar hlífðar, þar sem henni ekki var heitið. Jeg held, að óhætt sje að segja, að kosti Íslandsbanka hafi ekki verið þröngvað hingað til.

Háttv. þm. sagði, að menn virtust ekki skilja, að bankastarfsemi væri vegna þjóðarinnar. Það er auðvitað rjett, en það skiftir þó miklu, hvernig skift er við þjóðina. Það, sem jeg átaldi, var aðeins það, að það hefir verið beitt allsendis óþörfu harðræði við borgara þjóðarinnar í þessum efnum.

Út af því, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, vil jeg benda á, að þó að nefnd sje ein miljón, þá eru það ekki raunverulega nema 375 þús., sem bankinn þarf að leysa inn. Landsbankanum er gert að skyldu að endurkaupa víxla Íslandsbanka fyrir hinum hlutanum, og á því á hann að fá 10 ára frest. Hvað veltufjeð snertir, þá verður það alveg það sama; það, sem máli skiftir, er aðeins það, í hvers höndum veltufjeð er.

Jeg get svo látið niður falla frekari umr. af minni hálfu, einkum ef málinu verður vísað til þeirrar nefndar, sem jeg á sæti í, og bíð jeg þá þess að fá þær upplýsingar, sem jeg og hv. þm. Ísaf. höfum óskað eftir.