11.02.1928
Neðri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

6. mál, laun embættismanna

Ólafur Thors:

Jeg hefi skrifað undir nál. fjhn. með fyrirvara. En fyrirvarinn er í því fólginn, hvort ekki mundi vera tiltækilegt að framlengja gildi ákvæðanna um dýrtíðaruppbót embættismanna til ársloka 1929, í stað ársloka 1930, eins og segir í stjfrv. Jeg geri ráð fyrir, að við 3. umr. muni jeg bera fram brtt. um þetta efni. Jeg skal fyllilega játa, að þetta er mjög umfangsmikið mál, en hinsvegar er töluvert langur tími til stefnu, þó að ákvæðin gildi ekki nema til ársloka 1929.

Um milliþinganefnd, sem nál. fjhn. gerir ráð fyrir, hefi jeg líka sjerstöðu. Jeg hefði helst óskað, að stj. undirbyggi launamálin fyrir næsta þing án milliþinganefndar og tæki sjer til aðstoðar kunnugustu menn á þessu sviði. Jeg get tekið undir það með hv. þm. Dal. (SE), að æskilegt væri, að starfsmenn ríkisins hefðu tækifæri til að vinna með að undirbúningi málsins. Hinsvegar legg jeg ekki mikið upp úr milliþinganefnd, meðal annars af því, að það er stjórnin og þingið, sem ræður hinu endanlega skipulagi, en ekki tillögur einhverrar og einhverrar milliþinganefndar. Mjer er sagt, að till. slíkra nefnda hafi verið mjög að vettugi virtar, þegar þær hafa verið lagðar fyrir Alþingi áður.