13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4804 í B-deild Alþingistíðinda. (4022)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. sagðist ekki hafa talað um þetta mál við Landsbankastjórnina, og þykir mjer það ver farið, því það hefði ekki verið lítill stuðningur að því fyrir þingið, ef samkomulag væri milli bankanna um þetta mál. Álít jeg því hyggilegt, ef hægt væri að fá að vita um afstöðu Landsbankastjórnarinnar fyrir næstu umr., en annars geri jeg ráð fyrir, að hún sje þessu meðmælt.

Um aðstöðuna til Íslandsbanka er jeg ósamþykkur hæstv. forsrh., enda tölum við þar um sitthvort atriði. Hann talar um það, hvað við taki 1. jan. 1934, er seðlaútgáfurjettur bankans er útrunninn. En jeg álít, að nær sje að athuga, hvað við tekur nú á næstu árum. Hæstv. forsrh. á heldur alls ekki víst að sitja við völd þá, en líklegt er, að hann sitji næstu ár, og væri honum því nær að hugsa um þau árin. Með lögunum frá 1905 og 1921 er afstaða bankans til hins opinbera ákveðin, þar til leyfið er á enda. En svo, þegar þar að kemur, þarf að athuga, hvort bankinn skuli halda leyfinu áfram og í hvaða formi, ef undið væri að því.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að það mundi heldur ofmælt, að bankinn hefði beðið tjón af því að leita til þingsins, því ekki hefðu verið svo litlar þær ívilnanir, sem hann hefði fengið. Um það má náttúrlega deila. En jeg vil taka það skýrt fram, að jeg var aldrei meðmæltur ívilnunum til Íslandsbanka vegna umhyggju fyrir hluthöfunum, heldur af því, að jeg áleit þær nauðsynlegar fyrir viðskiftalíf landsins í heild sinni. En annars sjest það fljótt, ef litið er á aðstöðu hluthafanna, að þeir hafa ekki spunnið silki úr þessari bankastarfsemi. Hv. þm. Dal. upplýsti það áðan, að þeir hefðu tapað helmingnum af hlutafjenu og að vextir þeir, er þeir hefðu fengið, væru lítið meira en venjulegir sparisjóðsvextir. Þeim hefði því verið miklu betra að hafa fje sitt í sparisjóði en í þessari stofnun. Annars má vel vera, að hægt sje að kenna hluthöfunum sjálfum um það, að þeir hafa ekki grætt; en hvað sem því líður, ætla jeg ekki að fara að gagnrýna stjórn bankans. En hvað reikningslánin snertir er mjer kunnugt um það, og er þar á sama máli og hv. þm. Dal., að það hefir ætíð verið í fullu samkomulagi við þá, er lánin tóku, ef þeim hefir verið breytt í víxillán. En það er svo með mörg reikningslán, sem ekki eru notuð svo árum skiftir, að þau hafa þá tapað sínum upprunalega tilgangi, og er því alveg rjettmætt að gera þau að föstum lánum og láta þau greiðast smátt og smátt.