13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4805 í B-deild Alþingistíðinda. (4023)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Sigurður Eggerz:

Það þýðir ekki að vera að taka upp það sama aftur og aftur í þessu máli. En samt er það nú svo vaxið, að freistandi væri að tala um ýms atriði þess. Jeg skal þó ekki gera það að sinni, en láta mjer nægja að grípa á aðalatriðunum.

Að því er snertir það, sem hv. þm. Ísaf. sagði, nægir að vísa til þess, sem jeg sagði áður. Bankinn hefir nýlega verið rannsakaður af bankaeftirlitsmanninum, og voru þá vitanlega um leið rannsökuð viðskifti hans viðLandsbankann. Og það get jeg sagt hv. þm. Ísaf., að þó hann hringdi nú á stundinni til Landsbankans og spyrðist fyrir um viðskifti Íslandsbanka við hann, þá er jeg sannfærður um, að hann fengi þau svör, að þau væru öll í besta lagi og tryggingar góðar. Hann þyrfti ekki annað en tala við bankaeftirlitsmanninn til þess að fá vissu um þetta. Jeg verð því að halda fast við það, sem jeg hefi áður sagt í þessu máli, að ekki er ástæða til þess að heimta rannsókn á ný, því hún er þegar fyrir hendi.

Hvað reikningslánunum viðvíkur er það að segja, að bankinn hefir á engan hátt gert viðskiftamönnum sínum óþægindi, þó þessu hafi verið breytt í víxillán, og vísa jeg til þess, er jeg hefi áður sagt um það. Það eru aðallega þau reikningslán, sem ekki eru notuð samkv. eðli sínu, sem breytt hefir verið. Það eru hin dauðu reikningslán, eða sá hluti þeirra, er ekki er notaður, sem breytt hefir verið í víxla.

Út af því, sem sagt hefir verið um arð hluthafa, skal jeg geta þess, að árið 1922 var hann 5%, 1923 5%, 1924 5%, 1925 4% og 1926 var hann enginn. Af þessu sjest, að hjer er ekki um háa vexti að ræða, og mættu því allir verða fegnir, ef hægt væri að fá starfsfje með ekki hærri vöxtum. Sannlega eru það ekki hluthafar Íslandsbanka, sem þurfa að gleðjast yfir gróðanum, sem þeir hafa fengið. Óánægjan í þessu máli hefir verið blásin upp gegn erlendu hluthöfunum, en ekki má gleyma því, að töluvert af fjenu er í íslenskum höndum.

Það fer svo fjarri því, að Danir hafi nokkur áhrif á stjórn bankans, því hún er öll í íslenskum höndum. Og hvað það atriði snertir, er hv. sessunautur minn (HjV) drap á, að jeg væri skipaður af erlendum hluthöfum, þá er það ekki rjett. Jeg er stjórnskipaður, og stundum man hv. sessunautur minn eftir því. Að vísu geri jeg ráð fyrir, að hann hafi sagt þetta í glettni, en málið er svo alvarlegt, að það liggur í eðli sínu allmikið fyrir ofan glettnina.

Þegar jeg lít á þær aths., sem hjer hafa komið fram um þetta mál, þá er það, sem mjer leiðist mest, hve ýmsar þeirra bera vott um mikið skilningsleysi á málinu, of mikið skilningsleysi til þess að vera bornar fram á löggjafarþingi þjóðarinnar. Jeg er sannfærður um, að nauðsyn ber til, að skilningur vakni sem mest á bankamálum þjóðarinnar, þessum málum, sem enn eru svo ung hjer á landi. Við höfum ekki eins mikla reynslu í þessum efnum og aðrar þjóðir. Af reynslunni ættu þær að hafa meiri skilning. Því meiri þörf er okkur á að vera jafnan vakandi og á verði um þessi mál, að ekki verði stigin víxlspor.

Viðskifti Íslandsbanka eru svo stór og mikil og hafa svo djúpa þýðingu fyrir alt líf þjóðarinnar, að það má ekki horfa framhjá því. Og þeir menn, er sýna bankanum tilræði í orði eða verki, særa þjóðina sjálfa dýpra sári en þeir vita af. Hver stjórn hlýtur að finna, er hún fær ábyrgðina á sínar herðar, að banka- og peningamálin eru þýðingarmestu mál þjóðarinnar.