14.04.1928
Neðri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4808 í B-deild Alþingistíðinda. (4026)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Haraldur Guðmundsson:

Jeg verð að láta undrun mína í ljós yfir því, að hæstv. stj. skuli ekki hafa treyst sjer til að láta í tje þær upplýsingar, sem jeg og hv. 1. þm. N.-M. höfum óskað eftir í þessu máli.

Það getur naumast orðið ámælislaust að flaustra þessu máli áfram með afbrigðum, nefndarlaust og án þess að nokkrar upplýsingar sjeu gefnar um hag bankans. Þetta er bæði ósæmilegt og jafnframt algerður óþarfi. Stjórnin ætti ekki að vera í neinum vandræðum með að gefa fullnægjandi upplýsingar um hag bankans, þar sem hjer er í deildinni einn af framkvæmdarstjórum bankans, og auk þess hefir eftirlitsmaður banka og sparisjóða nýlega kynt sjer hag hans. Jeg vil ekki ætla hæstv. stjórn það, að hún telji heppilegt að dylja þingið hins sanna í málinu, en mig furðar ákaflega á þessu háttalagi hennar og sje mig neyddan til að greiða atkv. gegn frv. eins og það nú liggur fyrir. Hinsvegar er ekki útilokað, ef málið hefði fengið þinglega meðferð og verið nægilega upplýst, að mitt atkv. hefði fallið á annan veg.