19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4813 í B-deild Alþingistíðinda. (4039)

64. mál, hvalveiðar

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Hv. flm. þessa frv. á þskj. 80, um hvalveiðar, gerði ráð fyrir því við 1. umr., að það mundi mæta vinsældum og ganga greiðlega í gegnum þingið. Hugði jeg hann mundi sannspár verða, en svo hefir þó farið, að sjútvn. hefir klofnað um málið, og liggja nú fyrir álit tveggja nefndarhluta, sem ber talsvert á milli. Meiri hl. álítur rjett að leyfa hvalveiðar eins og gert er ráð fyrir í frv., með þeim áskilnaði, sem þar greinir, og telur það eigi aðeins forsvaranlega, heldur og nauðsynlega ráðstöfun.

Minni hl. vill láta fella frv. og færir til þess tvær ástæður. Í fyrsta lagi, að hvalveiðar hjer við land muni verða útlendingum einum að liði og reknar af leppum, útlendingum einum til hagsmuna, en ekki innlendum mönnum. Í öðru lagi telur minni hl. það geta komið til mála og enda vera líklegt, að hvalir verði friðaðir með alþjóðasamþykt og gegn því hlýði ekki að vinna. Á þetta hefir meiri hl. ekki getað fallist.

Eins og kunnugt er, eru hvalveiðar með flotstöðvum mjög stundaðar í suðurhöfum á síðari árum, aðallega af Bretum og Norðmönnum, jafnvel að nokkru af Þjóðverjum. Norðmenn standa samt víðast fyrir veiðunum og vinna að þeim, þótt aðrir leggi til fjármagnið, enda eru Norðmenn allra manna vanastir veiðunum og best til þeirra fallnir.

Við meirihlutamenn litum svo á, að vel geti farið á því, að vjer Íslendingar stunduðum þessar veiðar í fjelagi við Norðmenn, eins og Bretar gera, enda er hjer fátt manna, sem verulega æfingu hefir við þær veiðar. Og við erum þess fullvissir, að til þess að reka hvalveiðar frá landi þarf ekki stærri höfuðstól en innlendum mönnum er fært að leggja fram og fúslega yrði lagður fram.

Jeg býst við, að nýtískustöð með 2 skotbátum kosti rösklega eina miljón króna, en það mun vera sem næst helmingur á við hlutafje stærsta togarafjelagsins hjer í Reykjavík. Augljóst er því, að hjer er ekki um þau stórfyrirtæki að ræða, að innlendum mönnum sjeu þau um megn og að þau þurfi endilega að lenda í höndum útlendinga. Nú er það kunnugt, að í ráði er að senda flotstöðvar frá Noregi til veiðisvæðanna hjer við land, en þau eru einkum vestanlands og austan. Mun þá öllum skiljast, að hagurinn af hvalvinslubanni hjer á landi lendir hjá útlendingum, en að engu leyti hjá innlendum mönnum.

Til skamms tíma hefir sú trú ríkt hjerlendis, að flotstöðvaveiði væri hjer óviðráðanleg vegna ókyrðar sjávar og storma. En þetta er helber misskilningur. Hvalveiðar þær, sem nú eru stundaðar í suðurhöfum, eru nær eingöngu reknar frá flotstöðvum, og er öll aðstaðan þar erfiðari en hjer norður frá. En flotstöðvar hafa þann verulega ókost, að nýting hvals getur aldrei orðið þar jafngóð sem á landi. Því valda þrengslin á skipunum. Af því leiðir, að hagnaðurinn af veiðunum verður mun minni en ella, því að sökum illrar aðstöðu verður að fleygja miklu af því, sem á landi má hagnýta og breyta í verðmæta vöru.

Það segir sig sjálft, að Íslendingar mundu ekki hafa neitt gott af því, þó að flotstöðvaveiðar væru reknar hjer utan landhelgi, og því síður mundi það verða oss til álitsauka. Til þess því, að vjer getum haft gott af þessum veiðum, er eina leiðin, að settar verði upp eða leyfðar hvalveiðastöðvar í landi af innlendum mönnum eða lögmætum hlutafjelögum.

Jeg hefi ekki gert mjer far um að athuga, hvað miklar tekjur hvalveiðarnar gáfu ríkissjóði meðan Norðmenn veiddu hjer, en jeg man, að af einni hvalveiðastöð, sem jeg þekti vel, voru greiddar í útflutningsgjald af lýsi og kjötmjöli 35 þús. kr. á einu ári. Af því má nokkuð marka þann þjóðfjelagslega hagnað, sem þessar veiðar geta veitt, ef hyggilega er með farið.

Sú ástæða, sem minni hl. ber fram móti frv., að friðun hvala muni bráðlega komast á, er harla ósennileg og lítil von til þess, að hún rætist. Það er langt síðan farið var að tala um hana, og mun það hafa verið franskur rit höfundur, er fyrst kom fram með þetta. Friðun hefir verið talin nauðsynleg sökum þess, að hætta væri á því, að hvalnum yrði útrýmt með gegndarlausri veiði: En þrátt fyrir þessar kenningar eykst þó hvalveiðin stöðugt og hefir aldrei verið meiri en síðastl. ár. Og nú eru Þjóðverjar að búa sig undir stórfeldar hvalveiðar í suðurhöfum; en hafa átt lítinn þátt í þeim áður. Og því til sönnunar, að ekki sje útlit fyrir, að hvalirnir sjeu að hverfa, skal jeg geta þess, að í norsku tímariti er þess nýlega getið, að eftirtekjurnar af hvalveiðum í Rosshafinu hafi á 3 mán. í fyrra numið 73 þús. lýsisfata, en í ár á jafnlöngum tíma fengust þar 124 þús. lýsisföt. Það getur verið, að fleiri veiðiskip hafi verið þarna í ár en í fyrra. Þó sýnir þetta, að mikið er um hvali ennþá á þessum slóðum. Eins og hjer mun það aðallega vera ein tegund hvala, sem veiðist í suðurhafinu, sem sje skeljungur. Nokkuð mun þó veiðast af stærri hvölum, svo sem steypireyði og geirreyði, en langalgengastur er þó skeljungurinn.

Það var talið, meðan hvalveiðar voru hjer stundaðar, að 50 lýsisföt fengjust af einum skeljung. Og ef gert er ráð fyrir, að veiðin í Rosshafinu nú síðast hafi eingöngu verið skeljungur, þá ættu að hafa veiðst þar á 3 mánuðum á þessum vetri ca. 2480 hvalir. Sú tala lækkar auðvitað að sama skapi sem veiddir hafa verið fleiri hvalir af stærstu tegundunum, en skýrslan sýnir, að mergð hvala sveimar enn á þessum suðurvegum.

Nú eru hvalir hinar mestu flökkukindur og fara heimskautanna á milli. Eru því miklar líkur til þess, að þeim fjölgi hjer eftir ört í norðurhöfum, en þeir eru svo mjög ásóttir í suðurhöfum, enda er þeim sýnilega farið að fjölga hjer mikið.

Því takmarki að friða kynstofn hvalanna fyrir veiðimönnum verður ekki náð, þótt hjer sje bönnuð hvalvinsla í landi. Rjettur vor nær ekki nema 3/4 úr mílu út fyrir landsteinana, og mega allir sjá, hve þýðingarlítil friðun hvala er á þessu litla sviði landhelginnar, þegar veiðar eru reknar umhverfis í hafinu. Það er því bersýnilegt, að með hvalvinslubanni hjer í landi er það eitt fengið, að auðga útlenda hvalveiðamenn, en svifta landsbúa sjálfa öllum hagnaði af þessum verðmætu veiðidýrum. Bannið frá 1913 var aldrei á öðru bygt en hjákátlegri hjátrú sjómanna á því, að hvalurinn ræki síldina og fiskinn að landi af hafinu. En það er óvenju barnalegt að ímynda sjer, að hvalurinn, sem fer að minsta kosti 70 sinnum hraðar en fiskurinn eða síld, sje að dunda við að smala fiskikrílum saman og reka til lands. En þessi hjátrú er að sumu leyti eðlileg og byggist á því, að hvalurinn eltir sama æti og síldin og lifir af því.

Vjer meirihlutamenn leggjum til, eins og áður er tekið fram, að frv. verði samþ. með þeirri einni breytingu á 3. gr., að skýrari verði ákvæði hennar. Vjer teljum, að þessi viðauki geri 3. gr. ótvíræðari og að betur sjáist, hvað átt er við með hagnýtingu hvalsins. Annars mætti segja, að veiðin væri hagnýtt að fullu, þótt meira eða minna færi forgörðum af verðminsta úrgangsefni. Gæti líka verið hætta á því, ef úrganginum væri hent í sjóinn, eins og sumstaðar var áður gert, að spjöll yrðu að því á netum og öðrum veiðarfærum fiskimanna.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en tek það fram, að jeg legg ekkert sjerstakt kapp á þetta mál. Hinsvegar vil jeg fullyrða, eins og jeg hefi áður tekið fram, að með áframhaldandi hvalafriðun eða hvalvinslubanni fæst enginn annar árangur en að ræna landsmenn rjettmætum hagnaði af hvalveiðum og gefa hann öðrum þjóðum.