19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4817 í B-deild Alþingistíðinda. (4040)

64. mál, hvalveiðar

Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Við minni hl. höfum skilað áliti okkar í sjerstöku nál., en með því, að þar er ekki alt sagt, sem jeg vildi taka fram, ætla jeg að bæta nokkrum orðum við. Við lítum talsvert öðrum augum á þetta mál en hv. meiri hl.; en það er svo sem ekki ný saga, þó skoðanir hv. þm. sjeu sundurleitar um þetta mál, því það hefir nú komið fyrir á 3 þingum, en þó ekki ennþá sjeð dagsins ljós sem lög úr þessu hv. húsi. Hver forlög þess verða nú, skal jeg ekki segja. Og þó fáment sje nú hjer í þessari hv. deild, þá ætla jeg mjer nú samt að tala ítarlega um þetta mál.

Jeg hefi nú haft mína skoðun á því, áður en jeg kom á þing, og er hún óbreytt ennþá. En af umræðum fyrri þinga má sjá, að menn hafa haft ýmsar skoðanir á þessu. Og jeg verð að segja það, að þar sem undanförnum þingum hefir þótt ástæða til þess að setja lög, er bönnuðu þessa veiði, þá finst mjer ekki óeðlilegt, þó hv. þm. fyndist nokkuð fljótt að afnema þau að einhverju leyti, með því líka, að þessi lög voru endurnýjuð 1925.

Við minnihlutamenn lítum fyrst og fremst á það, hvort hjer sje um atvinnugrein að ræða, er mögulegt sje fyrir landsmenn að hagnýta sjer, og við erum meiri hl. ósammála um það, að slík fyrirtæki kosti jafnlítið og þeir gera ráð fyrir. Jeg hefi fengið umsögn áreiðanlegs manns, sem stundað hefir hvalveiðar, að stöðvar, sem voru reistar hjer um síðustu aldamót, hafi kostað 1½ milj. kr. Þessar stöðvar höfðu 3–6 veiðibáta, og eftir því, sem hv. 1. þm. S.-M. segir, munu þær hafa komist upp í 9 veiðiskip. Og ef það er rjett, að þessar stöðvar hafi kostað 1½ milj. kr. þá, þá er jeg viss um, að þær mundu ekki kosta minna en 3 milj. kr. nú, og býst jeg við, að það sje síst of hátt áætlað. Eru nú miklar líkur til þess, að innlendir menn hafi það fjármagn í höndum, að þeir geti komið af stað slíkum fyrirtækjum? Jeg skal í þessu sambandi geta þess, að þeim, er við sjávarútveg fást, er það um megn að koma hjer upp síldarverksmiðjum, sökum fjeleysis, svo arðvænlegt sem það þó er álitið að vera. Mjer finst því harla ósennilegt, að hægt sje að fá hjer nóg fjármagn hjá einstökum mönnum til þess að koma upp hvalveiðastöðvum. Reynslan hefir líka sýnt, að nauðsynlegt er að hafa mörg skip, svo reksturinn geti borið sig, því með því eru meiri líkur til, að verksmiðjan hafi nægilegt að starfa.

Jeg veit nú ekki, hvað forgöngumenn þessa máls vilja, að stöðvar þessar verði stórar, en því hefir lauslega verið skotið fram, að nægilegt væri, að þær hefðu aðeins 2 veiðiskip. En jeg býst nú við, að ef þetta sjerleyfi yrði veitt, þá yrðu veiðibátarnir fleiri. 500 kr. sjerleyfisgjald af skipi er hlægilega lágt, því ef veiðin gengur vel, getur hún verið mjög arðsöm. Og ef þetta leyfi lenti nú t. d. í höndum útlendinga, þá er þetta beinlínis gjöf, en ekki gjald. Jeg veit ekki til, að krafa um sjerleyfi hafi komið nema úr einni átt ennþá, sem sje frá Vestfjörðum. Og hvað meira kann að liggja á bak við þetta, er ekki upplýst. Þá veit jeg ekki til, að hjer sjeu til þeir menn, að þeir geti lagt fram fje til þessa án þess að fara til erlendra manna um fjárframlögin. Á svo Alþingi að fara að leyfa útlendingum að koma hingað aðeins undir því yfirskini, að innlendir menn eigi alt saman eða að mestu leyti, til þess að græða hjer fje? Og þar sem hjer er ekki að ræða um neina atvinnu fyrir verkalýðinn alment, sem heitið geti, þá hygg jeg, að rjett væri að athuga, hvort ástæða sje til að stuðla að slíkri leppmensku, sem af þessu hlýtur að leiða, ofan á þá, sem nú á sjer stað með síldveiðarnar, sem Alþingi er nú að leitast við að útrýma. Jeg held því fram, að ekki sjeu líkur fyrir því, að þetta veiti mikla atvinnu, því mjer er kunnugt um það, að á Önundarfirði, þegar hvalveiðar voru reknar þar, störfuðu þar um 30 ísl. menn, og voru þar þó 5 bátar. Þar að auki voru norskir menn, sem áttu að hafa sjerþekkingu á hinum ýmsu störfum, og voru þeir allmargir. Hjer mundi það verða svo, að hinir sjerfróðu yrðu erlendir og eitthvað af verkamönnum líka, þangað til innlendir menn hefðu fengið þá reynslu og kunnáttu, sem álitið er, að þurfi til slíkra starfa.

Við skulum athuga, á hvaða tíma þessi atvinnurekstur fer fram. Hann fer fram á tímabilinu frá miðjum maí til miðs september. Þá þykir veðrátta hagstæðust, einmitt á þeim tíma, sem við þurfum á öllum okkar vinnukrafti að halda við landbúnað og sjávarútveg. Á þeim tíma er því minst þörfin á þessari atvinnubót, ef atvinnubót skyldi kalla. Í frv. segir ekki annað en að hjer sje aðeins um að ræða innlenda menn, en jeg þykist nú hafa leitt rök að því, að um innlent fjármagn er ekki að tala. Ef við ættum að leyfa hvaladráp og tryggja það, að ekki komi hver á fætur öðrum og biðji um sjerleyfi, ætti ríkið eitt að hafa slíkt sjerleyfi handa sjálfu sjer og starfrækja slíkan stórrekstur. Mjer segir svo hugur um, að verði veitt eitt sjerleyfi, muni fleiri koma á eftir. En mjer finst það vera mikið vafamál, hvort hvalveiðar eru arðvænlegur atvinnurekstur. Reynslan hjer um það leyti, sem hvalveiðar hættu, var sú, að ekki þótti borga sig að halda þeim áfram vegna hvalafæðar. Það eru engar sannanir fengnar fyrir því, að hvalnum hafi fjölgað svo í norðurhöfum síðan. Vísindamenn eru ófróðir um, hvernig hann hagar sjer, en hitt eru þeir vissir um, að ekki er lengi verið að eyða honum, því að viðkoman er mjög lítil. Norðmenn, sem flestum þjóðum fremur hafa lagt stund á hvalveiðar, hafa horfið úr norðurhöfum og leitað í suðurhöf. Sú rányrkja, sem þeir hafa rekið í suðurhöfum, hefir gefið mikið af sjer, og talið er, að sá atvinnurekstur sje rekinn fyrir breskt fjármagn. En meðal vísindamanna, sem ekki stendur á sama um, hvort þessum dýrum sje útrýmt eða ekki, er risin upp sterk stefna í þá átt að friða hvalinn. En þar sem er arðs von, komast vísindin ekki að. Breskir vísindamenn hafa gert ítarlegar tilraunir til þess að grafast fyrir göngu hvalsins. Þeir hafa merkt hann og beðið veiðimenn að athuga merkin. En það hefir lítinn árangur borið, og er sagt, að norskir veiðimenn svíkist jafnvel um það. Af tilviljun barst mjer blað í dag, þar sem Norðmaður nokkur bendir á, að nauðsyn beri til þess að friða unghval og þann, sem minsta arðsvon gefi, eins og bláhvalinn, sem talið er, að sje mjög magur, þegar hann hefir haldið sig í heitum sjó. Alt ber að sama brunni: Það má ekki tortíma hvalnum. Við bendum á í okkar nál., að það sje illa til málanna lagt hjá okkur Íslendingum, ef við förum að taka upp hvaladráp, þegar aðrar þjóðir stefna að friðun. Enda er engin sönnun fengin fyrir því, að til sje gnægð hvala í norðurhöfum. Fiskimenn hafa ekki látið þá skoðun í ljós. Það er kunnugt, að Norðmenn stunda hvalveiðar frá Færeyjum, en við vitum ekki, hversu mikið það er, sem veiðist. Það er óhægt um vik að leita hingað, því að það er mjög dýrt að draga hvalina svo langa leið eins og norðan úr Grænlandshafi, ef þeir leituðu þangað. Þess vegna vantar þá stöð á Vestfjörðum.

Það er alveg rjett, að Norðmenn stunda hvalveiðar mest með flotstöðvum, sem ekki liggja úti á reginhafi, heldur inni á fjörðum og flóum. Þetta gengur misjafnlega vel. Í þessu blaði, sem jeg nefndi áðan, sje jeg, að tvær hafa farist með fullan feng við ís í suðurhöfum. Jeg hugsa, að slíkar flotstöðvar mundu einhverntíma komast í kynni við ísinn norður í höfum, enda munu Norðmenn ekki hugsa til slíkra stöðva þar. Þess vegna er um að gera að fá sjerleyfi hjá Íslendingum til þess að hafa stöð á landi.

Jeg þykist hafa svarað því, sem jeg þurfti að svara í ræðu hv. frsm. meiri hl. Hann var mjög hógvær, en var að benda á, hvað hefði orsakað það, að hvalafriðunarlögin frá 1913 gengu í gildi, og sagði hann, að það hefði verið hjátrúin ein. Jeg hefi athugað umræðurnar frá þeim tíma, en get ekki sjeð, að hv. frsm. hafi þar allskostar rjett fyrir sjer. Jeg verð að minna hv. frsm. á, að í fyrra færði hann sjálfur fram röksemd, sem var engin hjátrú. Og hann skrifaði með fyrirvara undir nál. meiri hl. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp kafla úr ræðu hans frá í fyrra. Jeg get ekki betur sjeð en að hv. þm. hafi skift um skoðun frá í fyrra, og má það merkilegt heita, að jafnskýr og reyndur maður skuli á einu ári hafa snúist í svo mikilsverðu máli.

„Jeg gæti að vísu látið mjer lynda það, sem hv. frsm. (SigurjJ) nefndi um sjerstöðu mína í þessu máli. Jeg hefi ekki einu sinni skrifað undir nál. með fyrirvara, heldur aðeins áskilið mjer óbundið atkvæði. En það er ekki vegna þess, að jeg leggi nokkurn trúnað á þá hjátrú, sem hefir bólað á í ýmsum veiðistöðvum landsins, að hvalveiðar verði til þess að spilla fyrir fiskiveiðum og trufli síldargöngur, heldur stafar mín sjerstaða af því, að jeg veit, að þessar veiðar verða því aðeins teknar upp, að útlendir menn komi til sögunnar og leggi fram veiðitæki og kunnáttu. Engir innlendir menn kunna að þessum veiðum, og veiðitæki eru hjer engin til, en þau eru dýrari en svo, að fært sje að leggja fje í þau fyrir skammvinna veiði. Afleiðingarnar af þessari undanþágu frá hvalafriðun mundu því verða þær, að útlendir menn fengju hjer bólfestu og stunduðu veiðarnar. Fyrirtækin yrðu með öðrum orðum rekin með leppum, en á þeim hefi jeg litlar mætur.“

Þetta var skoðun hv. þm. í fyrra. Nú vill hann sjálfur hrekja hana. Lepparnir hafa unnið sjer fylgi. Þó er hjer um sama frv. að ræða, bygt á kröfum hinna sömu manna. Við höfum fengið enn fyllri upplýsingar um leppmenskuna í landinu í sambandi við síldveiðarnar, og því að fara aftan að siðunum að fylla þann mæli. Það vill svo til, að við getum leitað í öðrum flokki, Íhaldsflokknum. Hjá hv. 3. landsk. kom sú skoðun fram, að þetta fyrirtæki yrði ekki rekið nema með erlendu fjármagni. Jeg vil ekki þreyta þá fáu hv. þm., sem hjer eru með því að lesa upp orð hans. En jeg legg mjög mikið upp úr orðum þessara reyndu manna. Fari svo, að hv. dm. þóknist að láta þetta frv. ganga með „pomp og prakt“ út úr deildinni, þá verð jeg að segja, að ekki er lengi að skipast veður í lofti.