19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4824 í B-deild Alþingistíðinda. (4041)

64. mál, hvalveiðar

Ásgeir Ásgeirsson:

Háttv. 4. þm. Reykv. þarf ekki að kalla það veðrabrigði, þó að þetta frv. verði samþykt. Hingað til hefir það farið úr Nd. með miklum mun atkvæða. Jeg hygg, að hv. deild skifti ekki svo um svip, þó að hv. 4. þm. Reykv. komi hingað, að ástæða sje til að ætla, að á annan veg fari nú. Hv. þm. þarf ekki að tala um skoðanaskifti hv. 1. þm. S.-M. Hann hefir ekki haft skoðanaskifti, enda er það vitanlegt, að enginn er jafnþektur að ákveðinni hvalveiðapólitík og hann. Hv. 4. þm. Reykv. ferst ekki að vera að tala um skoðanaskifti hjá öðrum frá ári til árs, þegar hann hefir sjálfur skoðanaskifti í sömu ræðunni. Ef hv. þm. ætlar að styðjast við rök, dugir ekki að heimta þau sitt úr hverri áttinni og láta þau stangast eins og mannýga hrúta. Það var engin heil brú í ræðu hv. þm., því að hún hrakti sig sjálf.

Fyrst er mikil áhersla lögð á það, hve veiðistöðvarnar sjeu dýrar; þær kosti ekki minna en 3 miljónir. Gert var ráð fyrir, að veiðibátarnir sjeu tvisvar eða þrisvar sinnum fleiri en hjer er til ætlast, og ekkert tillit tekið til þess, að hægt er að nokkru leyti að sameina þennan atvinnurekstur öðrum rekstri. Síldveiðaverksmiðjur má nota með litlum tilkostnaði. Það eina, sem dýrt er að reka, er lýsisbræðslan. Sjerfræðingar mundu segja til um hana, og mjer er sagt, að kostnaður þann þyrfti ekki að verða ókleifur.

Það, að hv. þm. nefnir svo háar tölur, er ekki bygt á reynslu nje þekkingu, heldur aðeins til að geta brugðið þessum leppmenskuskildi fyrir sig. Jeg veit ekki, hvað annars liggur á bak við ummæli hv. þm. Kannske hann vilji ríkisrekstur. Fyrst talar hv. þm. um stórgróða útlendinga af þessu fyrirtæki, en rjett á eftir segir hann, að það muni tæplega borga sig? Hví vill hv. þm. þá ríkisrekstur? Jeg hygg, að hvalveiðar sjeu síðasta fyrirtækið, sem koma ætti ríkisrekstri á.

Í frv. stendur skýrum stöfum, að íslenskir ríkisborgarar einir fái þennan rjett. Fjelagið mundi lúta íslenskum lögum. Jeg kann illa við það, að lög, sem Alþingi setur, sjeu skýrð á alt annan veg en í þeim stendur. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. vantreystir svo núverandi stjórn, að ætla, að hún haldi ekki ákvæði þessa frv., ef að lögum verður. Jeg geri það ekki. Íslensk lög leyfa nokkurt erlent fjármagn í hlutafjelögum, eins og kunnugt er, og þó að um ríkisrekstur væri að ræða, yrði ekki hjá því komist að nota með einhverjum hætti erlent fjármagn, og að mestu leyti erlenda sjerþekkingu.

Þjóðirnar leggja ekki út á nýjar brautir í iðnaði og ýmsum verklegum framkvæmdum án þess að styðjast við reynslu og þekkingu útlendinga. Hinir vitrustu þjóðhöfðingjar hafa kallað til sín erlenda menn í þjónustu sína. Jeg get til dæmis nefnt Kristján 4. Danakonung, en annars finnast dæmi þessa um alla Evrópu. Um íslenska stjórnendur vil jeg segja það, að þeir eru því vitrastir, að þeir heimti hingað erlenda þekkingu, þegar um nýung og nauðsyn er að ræða. Það er svo um þessa atvinnugrein eins og margar aðrar, að við þurfum á erlendri sjerþekkingu að halda. Í því efni á hv. þm. ekki að slá á þjóðernisstrengina, sem annars eru lítt notaðir af honum og flokksmönnum hans. Hvað veldur því, að nú er slegið á þá strengi hjá jafnaðarmönnum? Hv. þm. talar eins og sá flokkur sje þjóðernisrembingsflokkur og hv. 3. landsk. (JÞ) sje þar helsti maðurinn. Hann talar eins og engin þörf sje á nýjum atvinnurekstri frá vori til hausts. Jeg verð að segja, að það þýtur stundum öðruvísi í skjánum á þessum bæ. Þessar viðbárur eru leppmenska, leppmenska í hugsun og röksemdaleiðslu.

Hv. þm. sagði, að nú væru allir vísindamenn að leggjast á friðunarsveifina í þessu efni. (SÁÓ: Breskir). Það er rangt. Bretar hafa enga friðunarstefnu. Yfirleitt hefir engin þjóð þessa friðunarstefnu nema við. Við erum að ala upp hvalinn handa útlendingum. Jeg get, með röksemdaleiðslu hv. 4. þm. Reykv., líka slegið á þjóðernisstrengina og sagt: Hv. 4. þm. Reykv. vill, að útlendingarnir hafi sem mest af hval að drepa. Hvorki Bretar nje Norðmenn aðhyllast neina friðun í þessu efni. Við eigum sjálfir einn ágætan vísindamann, Bjarna Sæmundsson, og hann er eindregið fylgjandi frv. — 1913 var tekin upp friðun meðal annars til þess að gera hv. 1. þm. S.-M. pólitíska og fjárhagslega bölvun. Sú friðun var ekki gerð á grundvelli neinna vísinda. Það hefir Bjarni Sæmundsson sagt mjer, að þetta frv. komi á engan hátt í bága við rjett vísindi og sönn á þessu sviði.

Jeg veit vel, að Bretar og Norðmenn hafa verið að merkja hvali. Eitt skip Norðmanna gaf þær upplýsingar, að mest væri um hval norðvestur af Íslandi. Þar væri hann meiri en við Færeyjar. Þar eru þó margar hvalveiðistöðvar með fjölda báta.

Það er ekkert annað en orðagjálfur að vera að tala um rányrkju í þessu sambandi. Auk þess er það heimskulegt, því að „rán“ og „yrkja“ getur ekki verið samfara hvort öðru. Yrkja er ekki rán, og rán er ekki yrkja. Hv. þm. hefir eflaust átt við takmarkalausa veiði, sem eyðileggur stofninn. Ef svo er, vil jeg benda hv. þm. á, að frv. miðar einmitt að því að varðveita stofninn. Til þess er sjerleyfisleiðin farin, að veiðin verði hæfilega takmörkuð.

Það hefir mjög bagað á Vestfjörðum á síðari árum, að ekki hefir fengist nóg starf fyrir fólkið. Frá því sjónarmiði einu er næg ástæða að samþ. frv. Í öðru lagi fengist inn í landið góður matur; hvalkjöt og rengi hefir jafnan þótt búbót, ekki síst þar, sem það hefir verið selt með góðu verði. Mætti gjarnan setja í frv. einhver skilyrði um verðlag á því.

Hv. þm. var að tala um þá smán að selja önnur eins rjettindi á 500 kr. fyrir veiðiskip; en þessar 500 kr. eru ekki nema lítill hluti af því, sem landið fengi af þessum atvinnurekstri.

Landið og hjeruðin fengju sömu tekjur af þessum atvinnurekstri eins og öllum öðrum; þau fengju skatta og tolla af innfluttu og útfluttu, tekjuskatt, útsvar og hvað eina, — þessar 500 kr. á bát eru þar umfram.

Mjer þótti það miður, að þessi hv. þm. skyldi tala á þennan veg um frv., þar sem ekki er farið fram á neitt annað en það, að íslenskum ríkisborgurum sje veittur sá rjettur, sem nú um tíma hefir verið haldið fyrir þeim. Hjer er um íslenska ríkisborgara að ræða, en ekki neina leppa. Að svo miklu leyti sem útlendinga væri þörf, fengju þeir að verða með, eftir þeim reglum, sem íslensk lög heimila. Jeg vil svo vona, að hv. þm. geri sig ekki sekan um meiri leppmensku en orðið er viðvíkjandi þessu máli.