22.03.1928
Neðri deild: 54. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4842 í B-deild Alþingistíðinda. (4048)

64. mál, hvalveiðar

Magnús Torfason:

Jeg greiddi atkv. með þessu frv. til 3. umr., en lofaði þá ekki að fylgja því lengra. Jeg er dálítið kunnugur árangrinum af þeim hvalveiðum, sem hjer voru stundaðar fyrir löngu síðan, og jeg hygg, að mjer sje óhætt að segja það, að landið hafi haft helsti lítil not af þeim. Víst er um það, að sumstaðar þar, sem hvalveiðastöðvar voru, sjest nú ekki urmull eftir af neinu tægi. Vitanlega er því ekki að leyna, að þetta er ef til vill ekki að öllu að kenna hvalveiðamönnunum sjálfum, heldur að miklu leyti því, hvernig landsmenn hagnýttu sjer þessar veiðar, eða rjettara sagt, arðinn af þessum veiðum. Og er þar frá að segja, að landsmönnum fórst heldur lítilmannlega, er þeir ljetu útlendinga taka hjer miljóna gróða, en höfðu sjálfir hvorki vit nje manndóm til þess að nota þessa veiði, nje jafnvel að skattleggja hana sæmilega. Yfirleitt held jeg, að hvalveiðar hafi verið stundaðar hjer til lítils góðs. Eitt var það þó, sem þjóðin lærði af þeim, og það var leppmenskan.

Eftir þennan formála geta menn skilið, að þeir, sem hafa best tök á því að kynna sjer árangurinn af hvalveiðunum, muni ekki vera mjög ginkeyptir fyrir því, að þær verði teknar upp aftur, því ekki er víst, að betur tækist nú. Að minsta kosti er frá því að segja, að til skamms tíma hefir ekki verið hægt að búast við, að landsmenn notuðu sjer nú betur arðinn af þessum veiðum en áður.

Jeg tók svo eftir við 2. umr. þessa máls, að það mundi hafa mikinn byr hjer í hv. deild og að eigi mundi tjóa að spyrna á móti broddunum. Sjerstaklega tók jeg eftir því, að hæstv. atvmrh. var því fylgjandi. Nú hefir þessi hæstv. ráðh. staðið mjög á móti sjerleyfum undanfarið, og það jafnvel harðara en aðrir, sem þó eru eindregið á móti þeim. Og að jeg geng ekki algerlega á móti frv., er í trausti þess, að hæstv. atvmrh. fari varlega í þessar sakir. Jeg treysti því fyrst og fremst, að hann veiti ekki neinu fjelagi rjett til þess að reka þessar veiðar, ef nokkur líkindi eru til þess, að þar sje um leppmensku að ræða, og að hann sjái um, að fjeð sje íslenskt, er til hvalveiða fer. Ennfremur vil jeg leggja áherslu á, að ekki sje tekin upp sú ránveiði, er áður tíðkaðist. En það hygg jeg hægast að hindra á þann hátt, að veiðistöðvar verði ekki margar, í mesta lagi 2, og að skipin verði fá. Það verður að gjalda varhuga við, að hlunnindi þessi verði strax upprifin, og það verður ekki gert með öðru móti en að hafa skipin fá og veiðistöðvarnar sömuleiðis.

Þá er sagt í frv., að leyfið skuli veitt til 10 ára í senn. Þetta þykir mjer of langt og legg áherslu á, að ekki verði veitt leyfi nema til 5 ára í senn. Jeg lít svo á, að þessi atvinnugrein mundi sjerstaklega vel fallin til þess, að hún yrði þjóðnýtt, og mætti þá út frá því segja, að best væri að láta ekkert sjerleyfi í tje. En vegna þess, að við þurfum að eignast menn, er þekkingu hafa á þessum hlutum, ef til þjóðnýtingar kemur, vil jeg ekki vera á móti því, að sjerleyfi verði veitt.

Hvað snertir þessar brtt. mínar, þá er það um þær að segja, að sú fyrri er sett til þess að gera skýrara, að ekki er ætlast til, að gjaldið sje yfirleitt aðeins 500 kr., því þetta er ekki vel skýrt eins og það er orðað í gr., en 500 kr. er smámunir, og því er þessum orðum bætt við. Um síðari brtt. er það að segja, að hún er hjegómi og gerir ekki annað en færa til rjettara máls.