11.02.1928
Neðri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

6. mál, laun embættismanna

Sigurður Eggerz:

Jeg verð að lýsa því yfir, að jeg er líka, eins og hv. 2. þm. G.-K., undrandi yfir ræðu hv. frsm. Það er að vísu satt, að þegar hæstv. fjmrh. kom á fund nefndarinnar, þá var talað um þann mögulegleika, að stj. væri látin undirbúa það fyrir næsta þing. En á síðasta fundi nefndarinnar tók jeg það einmitt fram, í hverju minn fyrirvari lægi. Jeg skal samt ekki úthella úr neinum reiðiskálum yfir hv. fram. fyrir þetta. Jeg verð að gera ráð fyrir, að eftirtökuleysi valdi. En hitt vil jeg segja, að það er álit mitt, að betra sje að skipa milliþinganefnd í launamálið. Og jeg hygg, að það mætti einkum gleðja hæstv. stj., ef það væri gert, því þetta er erfitt verk og vandasamt. Fyrir mjer vakir aðeins það, að sem best niðurstaða fáist í þessu máli, án þess jeg ætli að fara að fylgja því fram af neinu ofurkappi, að milliþinganefnd verði skipuð, sem jeg tel þó bestu og hyggilegustu leiðina. En ef máli þessu er nú vísað til stjórnarinnar, en svo skipuð milliþinganefnd í það 1929, þá er tíminn orðinn of naumur fyrir stjórnina að athuga það fyrir Alþingi 1930.