13.04.1928
Efri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4846 í B-deild Alþingistíðinda. (4056)

64. mál, hvalveiðar

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

* Þetta frv. er ekki nýtt hjer í Ed. Það hefir að minsta kosti tvisvar sinnum legið fyrir þinginu, en ekki fundið náð fyrir augum þess. Jeg get hugsað, að nú, eftir að breyting er orðin á skipun hv. deildar, sje einnig orðin breyting á fylgi hennar við þetta frv. Jeg vil þó taka það fram um mig og hv. þm. Snæf., að við lítum á þetta mál eins og áður. Við leggjum því til, að frv. verði felt. Ástæður fyrir skoðun okkar á þessu frv. eru færðar fram allítarlega á fyrri þingum. Jeg vil þó geta þess, að við lítum svo á, að þetta mál sje dálítið sjerstakt. Jeg get lýst yfir því, að mjer er það hreint og beint „princip“-mál. Það er rjett að benda á nokkrar aðrar ástæður á móti frumvarpinu.

Jeg skal fyrst geta þess, að rekstur hvalveiða er mjög fjárfrekur. Jeg fæ því ekki sjeð, að hann verði tekinn hjer upp aftur, nema leitað sje til útlanda um fjármagn. Í sjálfu sjer er ekkert við það að athuga, þó að erlent fje sje notað í þessu skyni, ef það er gert af landsmönnum sjálfum. En mig uggir, að það verði tæplega notað á annan hátt en þann, að það verði að meiru leyti til góðs hinum útlendu fjáreigendum en landsmönnum sjálfum. Í annan máta vil jeg benda á, að svo stendur á um hvalveiðar, að sagan er búin að sanna, að hinn þrotlausi eltingarleikur hefir borið þann árangur, að tilfinnanleg fækkun hefir átt sjer stað, og endirinn orðið sá, að veiðarnar hafa ekki borgað sig. Nú kann einhver að halda því fram, að hvalveiðar verði hvort sem er reknar hjer við land. En jeg er ekki viss um, að það verði í svo stórum stíl, að friðunarlögin, sem nú hafa gilt í 14 ár, geti ekki náð tilgangi sínum, að fjölga hvölunum.

Þegar auðsjeð er, að hjer getur ekki verið um framtíðaratvinnurekstur að ræða, tel jeg mjög óhyggilegt að byrja á þessu nú, þó að menn geri sjer vonir um einhvern stundarhagnað. Þessi atvinnurekstur hlyti altaf að draga að sjer talsverðan hluta hins vinnandi lýðs í landinu, en þegar hann legst niður, leiðir þar af mikla örðugleika. fyrir fólkið, sem missir atvinnuna og þarf að leita sjer að nýrri atvinnu.

Jeg skal lýsa yfir því, að þó að jeg sje andvígur því, að frv. nái fram að ganga, mun jeg samt greiða atkvæði með brtt. á þskj. 734, því að ef þetta frv. verður að lögum, tel jeg sjálfsagt, að þær komi til greina.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.