16.04.1928
Efri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4851 í B-deild Alþingistíðinda. (4061)

64. mál, hvalveiðar

Páll Hermannsson:

Jeg hefi verið mótfallinn þessu frv. Þótt jeg gerði það svona með hangandi hendi að greiða því atkvæði til 3. umr., þá var það gert með það fyrir augum, að þær brtt. kæmu við það til 3. umr., sem bættu úr göllum þeim, er jeg tel vera á frv. — Nú hefir ein slík breyting komið fram, sem jeg mun greiða atkv., en er þó ekki viss um, að jeg greiði frv. atkv., þrátt fyrir það, þótt hún verði samþ. Jeg bjóst við, að hæstv. atvmrh. yrði viðstaddur, en fyrst svo er ekki, sje jeg ekki, að jeg geti rætt við hann það atriði, er jeg tel varhugaverðast við frv., en það er, hvort hjer yrði ekki einungis um leppmensku að ræða, þannig að þetta fyrirtæki muni verða rekið fyrir útlent fje undir nöfnum íslenskra manna, og hagnaðurinn — ef einhver yrði — rynni því í vasa útlendinga. Þetta vildi jeg ræða við hæstv. atvmrh., ef hann hefði verið við. En fyrst svo er ekki, mun jeg ekki þreyta hv. deild á lengri umr. um þetta.