11.02.1928
Neðri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

6. mál, laun embættismanna

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vil aðeins endurtaka það, sem jeg hefi bent á áður, að fult rjettlæti fæst aldrei meðan dýrtíðaruppbótin af sömu launaupphæð er alstaðar höfð jöfn, vegna þess hvað verðlagið er misjafnt á landinu. T. d. það, að veita sömu uppbót í Reykjavík og uppi í sveit skapar misjafna aðstöðu hjá embættismönnum. Dýrtíðaruppbætur eru til þess greiddar að bæta að nokkru þá verðlagsbreytingu, sem lággengi og þar af leiðandi verðhækkun lífsnauðsynja skapar.

Sje litið á fyrirkomulagið hjá öðrum þjóðum, þá sjest, að þar er mikið gert til að leiðrjetta það misrjetti, sem mismunandi aðstaða skapar. Í Danmörku, Þýskalandi og, að því er jeg ætla, líka í Svíþjóð; er dýrtíðaruppbótin þrenskonar og ávalt hærri í dýrtíðarhjeruðunum. Sumstaðar eru uppbætur að nokkrum hluta miðaðar við stærð fjölskyldna. Til þess að ná nokkurn veginn jafnrjetti til handa starfs- og embættismönnum þurfa dýrtíðarbætur að vera margskonar, t. d. staðarbætur, fjölskyldubætur o. s. frv., auk hinnar ákveðnu verðlagsuppbótar.

Jeg vildi aðeins benda á þetta, hæstv. stj. eða öðrum þeim, sem um málið fjalla, til athugunar.