11.02.1928
Neðri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

6. mál, laun embættismanna

Halldór Stefánsson:

Jeg hefði gjarnan viljað jafna þann ágreining, sem orðið hefir milli hv. meðnefndarmanna minna, frsm. annarsvegar og 2. þm. G.-K. og þm. Dal. hinsvegar. Jeg kannast við þessa fyrirvara þeirra og að þeir komu fram í nefndinni, en þó ekki fyr en nefndin var einróma búin að bóka álit sitt. Það varð þó að samkomulagi innan nefndarinnar, að þeir mættu átölulaust koma fram með fyrirvarana, og ætti því alt orðaskak um það að vera óþarft hjer í deildinni.

Hvað milliþinganefnd viðvíkur, þá álít jeg gott að komast hjá henni, vegna þess kostnaðar, sem af henni leiðir, og reynslan misjöfn hvað árangurinn snertir. Hinsvegar er ekki loku fyrir það skotið, að setja megi nefnd í málið, ef þurfa þykir. Til þess er nægur tími á næsta þingi.