27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (4081)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Haraldur Guðmundsson:

Mjer þykir leitt, að hv. 1. þm. Skagf. (MG) skuli ekki vera á fundi, því að jeg hefði kosið að víkja nokkrum orðum að honum út af ræðu hans áðan. Jeg mun því geyma það, sem jeg vildi sagt hafa til hans, þangað til síðar. Eitt atriði get jeg þó ekki látið hjá líða að taka fram nú þegar. Jeg hygg, að hann hafi komist svo að orði út af ummælum hv. 2. þm. Reykv. um kosninguna á Ísafirði árið 1923: „Hvað kemur sú kosning þessu máli við?“ Því er fljótsvarað, enda býst jeg við, að hann hafi vitað svarið. Sú kosning kemur við þeirri kosningu, sem hjer er til umræðu, á sama hátt og afleiðing kemur við orsök. Það, sem gerst hefir í Norður-Ísafjarðarsýslu í vor og sumar í sambandi við kosningu J. A. J., er bein afleiðing þeirra atburða, er gerðust á Ísafirði í sambandi við alþingiskosningar þar árin 1919 og 1923, og þess, hvernig hið háa Alþingi snerist þá við þeim málum og landsstjórn sú, er þá var við völd og farið hefir með þau nær því fram að þessu.

Um það, sem háttv. þm. sagði um störf kjörbrjefanefndar, að þau hefðu verið lítil og löðurmannleg, skal jeg ekki deila. En mín vegna var óþarft að fresta þessu máli.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að nokkurt tillit bæri að taka til og fara eftir þeim „praksis“, er Alþingi hefði skapað og ávalt hefði verið fylgt í slíkum málum. En það er nú svo, að það er engin „praksis“, engin venja til í slíkum málum sem þessum. Þetta er í fyrsta skifti, sem það er vitað þegar Alþingi kemur saman, að glæpir hafa verið framdir í sambandi við kosningu, sem kemur til Alþingis að úrskurða um, hvort tekin skuli gild.

Jeg vona, að slíkt mál sem þetta þurfi aldrei framar að koma fyrir A1þingi, en jeg veit, að það er að mjög miklu leyti undir því komið, hvern úrskurð Alþingi leggur á þetta mál, hvort svo verður eða ekki.

Jeg verð að segja það, að mjer fanst það algerður óþarfi hjá hv. þm. Dal. (SE) að tala lengi um þann atkvæðamun, sem fram hefði komið í kosningunni. Jeg hefi engan heyrt segja annað en að hann hafi verið svo mikill, að engin ástæða sje til að ætla, að ólögleg atkvæði ein hafi skapað hann. En það, sem hjer er um að ræða, er alls ekki það, heldur hitt, hvort atkvæðafals, fjemútur og yfirleitt öll sú ósvinna, sem sannað er, að framin hefir verið í sambandi við kosninguna í N.-Ísafjarðarsýslu, á engu að ráða um það, hvort slík kosning skuli tekin gild, nema því aðeins, að þingmannsefnið sjálft sje valdur að glæpunum, eða hafi sannanlega átt beinan þátt í því að afla sjer meiri hluta með slíkum ráðum. Jeg greiði því hiklaust atkvæði með því, að kosningin sje gerð ógild, því að hitt er sama sem að gefa fölsurum og svikurum undir fótinn.

Hv. 1. þm. Skagf. nefndi fulltrúafundinn í Ögri, sem haldinn var í gær eða fyrradag. Fór hann þar ekki alveg rjett með. Hann sagði, að fundinn hefðu sótt 24 fulltrúar úr 8 hreppum, kosnir á opinberum fundum. Mjer er ekki kunnugt um, að þeir fundir hafi verið opnir fyrir almenning, heldur aðeins fyrir menn innan viss flokks. Jeg skal geta þess, háttv. þd. til fróðleiks, hverjir fulltrúar voru á fundinum fyrir hönd Bolungarvíkur. Þar var fyrst og fremst hreppstjórinn, Kristján Ólafsson, sem stendur talsvert höllum fæti í þessu máli, þar sem hann hefir sjálfur játað, að hann hafi gefið falskt vottorð. Hinn fulltrúinn var Jón Fannberg, aðallautenant fálkariddarans Pjeturs Oddssonar, er upphlaupið varð í Bolungarvík.

Fundurinn í Ögri gerði, þrátt fyrir þetta, eina mjög skynsamlega ályktun. Hann lýsti yfir megnri andstygð sinni á athæfinu í Hnífsdal, sem Íhaldsflokkurinn hefir hingað til verið mjög svo ánægður með. Að minsta kosti hefir hann reynt að færa alt til betri vegar fyrir þeim mönnum, sem grunaðir eru um svikin, en afflytja málstað hinna.

Jeg verð að játa, að jeg fylgdist ekki nákvæmlega með hinni snjöllu tölu hv. þm. Dal. (SE) . Hann mun þó hafa sagt eitthvað á þá leið, að armur hegningarlaganna mætti ekki ná lengra en til hinna seku. Jeg held, að það sje óþarfi fyrir háttv. þm. að lýsa þessu svo hátíðlega yfir. Þetta lærðum við í barnalesbókinni, þegar jeg var ungur. Nú vil jeg spyrja hv. þm. Dal.: Heldur hann, að hjer sje verið að kæra Jón Auðun Jónsson fyrir brot á hegningarlögunum, eða því haldið fram, að kjósendur alment í Norður-Ísafjarðarsýslu sjeu sekir um glæpsamlegt athæfi? Háttv. þm. má vita það, að hegningarlögin skifta sjer ekki af öðrum en þeim, sem grunur er á fallinn. En hitt er annað mál, hvort sjálft Alþingi á að slá því föstu, að alt það, er ekki brýtur beinlínis í bága við hegningarlögin, skuli teljast gott og gilt. Eins og háttv. þm. sagði, er Alþingi dómari í þessu máli, ekki um einstaka menn, heldur um athæfið í heild sinni. Það er hin mesta meinloka, að verið sje að hegna þingmannsefni Norður-Ísfirðinga, enda hefir ekkert það komið fram, er sanni, að hann eigi hegningu skilið.

Undir ræðu hv. 1. þm. Skagf. duttu mjer í hug orð úr Helgakveri, sem jeg lærði í bernsku, á þá leið, að ósiður, sem orðinn sje að drottnandi vana, heiti löstur. Jeg álít, að sá ósiður, að skeyta lítið um fyrirmæli kosningalaganna, hafi tíðkast svo fyrir vestan og verið svo undir fótinn gefið, bæði af stjórn og þingi, að nú sje hann orðinn löstur í fari þess flokks, sem um er að ræða.

Til þess að menn hafi ekki ástæðu til að ætla, að þessi skoðun mín sje gripin úr lausu lofti og orð mín töluð út í bláinn, ætla jeg að rökstyðja þau nokkuð meira.

Það er þá fyrst til að taka, áð árið 1919 voru í kjöri í Norður-Ísafjarðarsýslu Magnús Torfason og Jón Auðunn Jónsson. Kosningin var sótt fast og atkvæðamunur var lítill. Á þingi 1920 kemur fram kæra um misfellur á kosningunni, þar á meðal fjeboð og mútur. En Alþingi samþykti óðara að taka gilda kosningu Jóns Auðuns Jónssonar. Þó var sýnd dálítil viðleitni til þess að rannsaka málið. Steindór Gunnlaugsson, fulltrúi í stjórnarráðinu, var sendur vestur, og á rannsókn hans byggir síðan kjörbrjefanefnd Alþingis 1921 skýrslu sína á þskj. 550. Í þeirri skýrslu segir, að nefndin hafi fengið fullar sannanir fyrir því, að Bjarni nokkur Bjarnason hafi boðið mútur og sumpart greitt þær, til framdráttar Jóni A. Jónssyni. Nefndin lýkur skýrslu sinni á þá leið að taka það skýrt fram, að áríðandi sje að rannsaka málið til hlítar.

Jeg skal taka það fram, að þrír af nefndarmönnum skrifuðu undir skýrsluna með fyrirvara. En hann var ekki um efni skýrslunnar, heldur um hitt, að þeim þætti ekki ástæða til þess fyrir Alþingi að skifta sjer frekar af málinu en orðið var. Bjarni frá Vogi og Gunnar Sigurðsson vildu rannsaka málið og láta hina seku sæta ábyrgð gerða sinna, en hinir vildu sem minst skifta sjer af því. Jeg verð að segja, að ekki er unt að gefa þeim skálkum, sem brjóta vilja fyrirmæli kosningalaganna, betri uppörvun í starfi sínu en þáverandi stjórn gerði, með því að verða ekki við áskorunum um að hefja sakamálsrannsókn, þótt fyrir lægi bein sönnun um mútur og fjeboð.

Þá kem jeg að kosningunum 1923, Það mál er mjer mjög skylt og kunnara en öllum hv. þm. Árið 1924 er kært frá 25 kjósendum í Ísafjarðarkaupstað yfir tvennu: Í fyrsta lagi yfir mjög stórvægilegum misfellum á gerðum kjörstjórna, sem allar voru sannaðar. Á þessu var bygð sú krafa, að annaðhvort yrði Haraldur Guðmundsson úrskurðaður þingmaður, eða kosningin gerð ógild að öðrum kosti. Hinn þáttur kærunnar, sem forðast hefir verið að geta nokkuð um á Alþingi, er enn veigameiri. Hann er um það, að beitt hafi verið óleyfilegum og ólöglegum meðulum. Jeg skal nú drepa á þá formgalla, sem vitað er um.

Tveir kjósendur kjósa hjer í Reykjavík, hjá bæjarfógeta, og atkvæði þeirra eru síðan send vestur. Þeir skrifa ekki undir fylgibrjef, sem eiga að fylgja atkvæðaumslögunum, en þó er vottað af fulltrúa bæjarfógeta, Kristni Ólafssyni, að þeir hafi kosið og skrifað undir fylgibrjefin. Undirkjörstjórn tók þetta auðvitað ekki gilt. Síðan senda kjósendur þessir símskeyti vestur þess efnis, að þeir hafi gleymt að skrifa undir fylgibrjefin, en rjett um sama leyti labba þeir upp í barnaskóla og kjósa þar.

Hjón nokkur sendu atkvæði sín vestur, og fylgir þeim vottorð frá fulltrúa bæjarfógetans um, að hjónin hafi kosið þar í skrifstofunni. Nú var vitað fyrir vestan, að þetta var rangt, því að hjónin höfðu aldrei í skrifstofuna komið. Þegar þetta er kært, vottar Páll Jónsson, fulltrúi bæjarfógeta, að hjónin hafi kosið heima. Það sjer hver heilvita maður, að annaðhvort þessara vottorða hlýtur að ljúga. En bæði atkvæðin voru tekin gild. Fyrir kjörstjórn Ísafjarðar lá ekki annað en vottorð frá bæjarfógetanum hjer, en fyrir Alþingi árið eftir lágu bæði vottorðin.

Auk þeirra tveggja kjósenda, sem jeg nefndi áðan, eru enn tveir kjósendur, sem sannað er um, að hafi kosið á tveim stöðum. Jeg hefi því sýnt fram á, að þarna voru 4 atkvæði tvímælalaust ógild. En atkvæðamunur milli Sigurjóns Jónssonar og mín var 1 atkvæði. Ennfremur var atkvæðaseðill, sem á stóð Sigurjónsson Jónsson, tekinn gildur, en annar, sem á stóð Herra Haraldur Guðmundsson, ógildur. Alþingi hafði verið sent að vestan atkvæðaumslag, sem ekki hafði verið tekið gilt af undirkjörstjórninni. Og hvað skeður? 3. kjörbrjefadeild Alþingis opnar umslagið og tekur atkvæðið gilt, Sigurjóni Jónssyni í vil. Þó eru svo ströng ákvæði um leynd atkvæða, að kjósandi er ekki einu sinni skyldugur að segja fyrir rjetti, hvern hann hafi kosið. En umslagið er opnað og frsm. kjörbrjefadeildarinnar, Jón Auðunn Jónsson, lýsir yfir því, að ákveðin kona, Guðrún Halldórsdóttir, hafi kosið Sigurjón Jónsson. Jeg get ekki hugsað mjer öllu hraklegri meðferð á sjálfu sjer en Alþingi framdi með því að láta viðgangast annað eins og þetta.

Það, sem jeg nú hefi talað um, er alt um hinar smærri misfellur á kosningunni í Ísafjarðarkaupstað 1923. Aðrir gallar á þeirri kosningu voru miklu stórkostlegri. Máli mínu til sönnunar ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp nokkurn kafla úr kærunni, sem undirskrifuð var af 25 kjósendum, hinum mestu sómamönnum vestur þar:

„.... Auk alls þess, sem hjer að framan er sagt um misfellur á kosningunum, sem augljóst er, að valdið hafa því, að H. G. eigi fjekk kjörbrjef, er oss kunnugt um, að stór spjöll hafa verið á undirbúningi kosninganna af hálfu fylgismanna S. J. Margháttuð fjeboð og fleiri óleyfileg meðul og ósæmileg háttsemi var notuð honum til framdráttar, og teljum vjer brýna nauðsyn til bera, að það sje fljótt og skörulega rannsakað til hlítar, einkum þegar þess er gætt, að sami flokkur notaði svipuð meðul við þingkosningar hjer 1919, og að kjörbrjefanefnd Alþingis 1921 lætur svo um mælt á þskj. 550 í tilefni af því: „— — Nefndin telur, að hjer sje svo nærri höggvið síðari málsgrein 114. gr. hinna almennu hegningarlaga, að ástæða sje til, að þetta verði rannsakað til hlítar. . . . . “ Svo sem kunnugt er, hefir sú rannsókn aldrei verið gerð. Þurfum vjer eigi að benda yður, háa Alþingi, á það, hver voði það er, ef slíkt athæfi er látið óátalið hvað eftir annað, uns það fær fulla hefð á sig. Þá skulum vjer geta þess, að blaðið „Vesturland“ hefir borið það á oss, fylgismenn H. G., að vjer höfum beitt mútum við kosningarnar. Blaðið hefir ekki fengist til að beina þessum aðdróttunum að nokkrum sjerstökum, svo að oss er þess enginn kostur að fá oss hreinsaða af þeim með dómi. Hinsvegar getum vjer ekki unað því að liggja undir þessum áburði, og er oss þá sá einn til, að leita til yðar, til þess að fá fullkomna rannsókn, er megi hrinda af oss þessu ámæli.

Ennfremur viljum vjer geta þess, að af atkvæðum, greiddum utan kjörstaðar (alls 196), fjekk S. J. ca. 45 atkv. meiri hluta, en hinsvegar því nær sama minni hluta úr atkvæðum greiddum á kjörstað. Þykir oss grunsamlegt og meira en það, hvílíkan meiri hluta S. J. fjekk úr þessum fáu atkvæðum, greiddum utan kjörstaðar. Vjer höfum líka orðið þess áskynja, að atkvæðagreiðs]u utan kjörstaðar hefir á ýmsan hátt verið ábótavant, og einkum varðveislu atkvæða og kosningagagna hjá bæjarfógeta. Hann hefir, að gefnu tilefni, skýrt H. G. frá, að hann teldi sjer ekki skylt, enda gæti hann ekki gert skil á atkvæðaumslögum og kosningagögnum, þannig að sjeð yrði, hvort eftirstöðvar þær, sem hann nú hefir, og það, sem notað hefir verið við kosninguna, er jafnt því, sem stjórnarráðið hefir sent honum. En slík skil teljum vjer jafnnauðsynleg af hans hendi eins og af hendi kjörstjórna á kjördegi, til tryggingar því, að kosningagögnin sjeu ekki ranglega notuð.“

Eins og menn sjá, er þess beiðst, að hið háa Alþingi hlutist til um, að hafin sje rannsókn í málinu. En þingið 1924 virðir ekki kær una svo mikils að vísa henni til kjörbrjefanefndar. Enn síður sá stjórnin ástæðu til þess að verða við tilmælunum um rannsókn. Jeg vil nú leyfa mjer, þar sem þessi gögn eru geymd í skjalasafni Alþingis, að beina því til hæstv. stjórnar, hvort hún sjái sjer ekki fært, þó að langt sje um liðið, að láta rannsaka þau og bera saman við lista um utankjörstaðaratkvæði, sem sennilega eru í fórum undirkjörstjórnarinnar á Ísafirði.

Jeg ætla ekki að tala meira um kosninguna á Ísafirði 1923. En jeg fullyrði, að það er ekki ofmælt, að aðgerðir þings og stjórnar í því máli öllu væru ekki vel til þess fallnar að skjóta skálkum skelk í bringu, en betur til þess að gefa mönnum undir fótinn með það, að þeim sje óhætt að syndga upp á náðina. Mjer virðist ávöxturinn af þessum aðgerðum hafa komið vel og greinilega í ljós nú. Skal jeg nú víkja að kosningunni 1927.

Auk sakamálsins, sem hjer hefir verið rætt um, urðu á þeirri kosningu margar og miklar misfellur, sem sýna það og sanna, að Norður-Ísfirðingum, sumum hverjum, er annað betur lagið en að fylgja fyrirmælum kosningalaganna.

Tveim hreppum, Grunnávíkurhreppi og Sljettuhreppi, var skift í 3 kjördeildir hvorum, en hvorugur þeirra hafði samið sjerstakar kjörskrár fyrir deildirnar, sem þó er fyrirskipað í lögum. Eitthvert veður virðast þeir menn, sem í kjörstjórn voru, hafa haft af þessu, því að bókun kjörstjórnar í einni deildinni byrjar svo: „Fyrir tekið að semja kjörskrá fyrir deildina.“

Í Grunnavíkurhreppi er 3 kjósendum, sem ekki stóðu á kjörskrá, leyft að kjósa. Þar var engin aukakjörskrá samin. Einn kjósandi kaus veikur heima hjá sjer og fjekk til þess aðstoð. Eru þó heimakosningalögin fyrir löngu úr gildi gengin. Þá þarf jeg ekki að fjölyrða um hreppstjórann í Bolungarvík, sem sjálfur ber það fyrir rjetti, að hann hafi aðstoðað tvo kjósendur við atkvæðagreiðsluna, þótt hann áður hafi vottað með undirskrift sinni, að þeir hafi kosið í einrúmi.

Jeg ætla að leyfa mjer að segja hjer eina sögu, sem jeg hefi góðar heimildir fyrir, nefnilega rannsóknardómarann sjálfan. Á bæ einum var háöldruð kona. Húsbóndinn bað hreppstjóra koma og láta konuna kjósa. Hreppstjóri segir, að hann megi ekki fara heim til hennar, en það verður þó úr, að hann sendir þangað kjörgögn. Konan er gömul og skjálfhent og ef til vill ekki skrifandi. Húsbóndinn skrifar fyrir hana, útfyllir vottorðið, sem kjósandinn á að gefa, og skrifar undir það. Síðan útfyllir hann vottorðið, sem hreppstjórinn á að gefa, og skrifar undir það og skrifar að lokum nafn sitt sem vitundarvottur.

Eins og menn sjá, hafa því á kosningunni orðið margar og miklar misfellur. Jeg skal að vísu játa, að ekki er þó ástæða til að ætla, að þær hafi ráðið úrslitum kosninganna.

Um sakamálið er það að segja, að þar sem búið er að taka málið upp sem opinbert mál, álíta kjósendur að sjálfsögðu, að þeir þurfi ekki að kæra yfir því til Alþingis.

Þó að talsvert hafi verið rætt um þennan þátt málsins, þá verð jeg að skýra lítið eitt frá gangi málsins, sjerstaklega vegna þess, að eitt af dagblöðunum, „Morgunblaðið“, prentaði með feitu letri nýlega, að Haraldur af Ísafirði væri riðinn við þetta mál.

Jeg ætla það væri hv. 1. þm. Skagf., sem spurði mjög innfjálgur um það, gegnum hvaða hendur þessi fjögur fyrstu atkvæði hefðu gengið, sem kært var yfir á Ísafirði.

Byrjun þessa máls er sú, að fjórir kjósendur, sem kjósa hjá Hálfdáni hreppstjóra, sækja atkvæði sín aftur til hans. Þeir fá pata af því, að ekki sje trygt að eiga þau þarna geymd. Tveir opna umslögin strax heima hjá sjer um kvöldið og sjá þegar, að atkvæðunum hefir verið breytt. En það var orðið áliðið dags og ekki hægt að ná til dómara. Strax klukkan 8 morguninn eftir voru þeir komnir á Ísafjörð og vekja upp Finn Jónsson, frambjóðanda, og koma svo til mín. Það var klukkan að ganga 9 og jeg var ekki kominn á fætur. Við hringdum hið snarasta til bæjarfógeta, en hann var nú heldur ekki kominn á fætur, svo að ekki var hægt að ná til hans. Við hreyfðum ekki við þessum tveimur umslögum, sem búið var að opna, en jeg sagði við mennina, að þeir færu strax til bæjarfógeta. Þriðji maðurinn sagði, að úr þessu yrði svo mikil rekistefna og vildi ekki fara með umslagið nema sjeð væri, að þess þyrfti. Ef það sýndi sig, að alt væri með feldu í umslaginu, þá vildi hann ekkert vera við riðinn þetta óþokkamál. Af þessu er það gert að opna þetta umslag hans í viðurvist fimm manna.

Þetta er alt, sem jeg hefi komið nærri þessu máli.

Bæjarfógetinn á Ísafirði hóf svo rannsókn í málinu. Jeg veit ekki, af hverju hann hefir verið látinn hætta, en jeg held, að sú rannsókn hans hafi verið af fullri einlægni framkvæmd og að öllu með góðum vilja gerð. Síðan er sendur vestur Steindór Gunnlaugsson fulltrúi í stjórnarráðinu, til þess að rannsaka málið, — sá sami og rannsókn hafði á hendi í mútumálinu 1919. Jeg skal engan dóm á hana leggja, en óneitanlega var hún með dálítið einkennilegum hætti. Hann fangelsaði þá, sem fyrst höfðu kært yfir kosningunni, og kann að vera, að það sje ekkert að segja um það sjerstaklega. En í öðru lagi fær hann vitneskju um, að fimm að þeim mönnum, sem kusu hjá Hálfdáni, telji, að grunur leiki á, að eitthvað hafi verið athugavert við þeirra seðla. Það, sem nú rannsóknardómarinn gerir, er að kalla þessa fimm menn fyrir rjett og láta þá leita að sínum seðlum í bunka heimagreiddra atkvæða í Norður-Ísafjarðarsýslu. Einn maðurinn tekur þar seðil ekki ólíkan sínum seðli. Annar þykist þekkja þar sinn seðil. Tveir þykjast fyrir víst þekkja sína seðla. Fimta þykir það líkjast sínum seðli.

Þetta telur rannsóknardómarinn nægilegt, telur þá eiga seðlana. En ekki er svo mikil áhersla lögð á að prófa málið, að honum detti í hug að taka sýnishorn af rithönd þessara manna. Þá sleppir hann Hálfdáni og Eggert úr gæsluvarðhaldi og segir á þá leið, að þótt eitthvað yrði kannske haldið áfram rannsókn, þá sje þýðingarlaust að halda þeim lengur í gæsluvarðhaldi. Og þar með lýkur þessari rannsókn.

Þá er þar til máls að taka, er rannsóknardómari sá, sem síðar var skipaður, hóf rannsókn að nýju í málinu. Því hefir verið lýst nokkurn veginn greinilega af hæstv. dómsmrh., hverjum vinsældum hann átti að fagna hjá Íhaldsflokknum, forsprökkum hans og málgögnum svo að segja um land alt. Það er skemst af að segja, að Íhaldsflokkurinn virðist hafa gert þetta að fullkomnu flokksmáli. Öll viðleitni málgagna hans og forkólfa hefir beinst í þá átt að gera rannsóknardómarann tortryggilegan og afflytja hann og rannsókn hans í augum almennings, vekja meðaumkun með sakborningum, með því að flytja ýktar sögur um veikindi og bágar ástæður þeirra og skáldsögur um hrottaskap og fúlmensku rannsóknardómarans. Jeg geri ráð fyrir, að jeg þurfi ekki að vísa um þetta í einstök blöð. Ýmsir hv. þm. hafa lesið kafla í „Morgunblaðinu“ og „Vesturlandi“, sem sanna þetta. Jeg get ekki varist því að finnast þetta ákaflega grunsamlegt framferði. Mjer hefði fundist ekkert eðlilegra en að einmitt Íhaldsflokknum í heild sinni, og þá sjerstaklega frambjóðanda hans, Jóni Auðuni Jónssyni, hefði verið það hið mesta áhugamál að fá sem allra fullkomnasta rannsókn í málinu. Að öllum eðlilegum hætti hefði hann átt að óska þess umfram alt, að málið væri krufið svo til mergjar, að fundinn væri sá sannleikur, sem unt væri að finna. En svo undarlega bregður við, að öll viðleitni flokksins í heild og málgagna hans gengur — eins og jeg áðan sagði — í þá átt að gera rannsókn tortryggilega og miklum mun erfiðari en annars hefði verið. — Og út yfir tekur, þegar þingmannsefnið í rjettarhaldinu 11. nóv., í stað þess að svara þeim spurningum, sem settar eru fram blátt áfram, kastar skætingi og aðdróttunum að rannsóknardómara. Jeg veit ekki, hvort jeg á að segja þá sögu, og gæti hún reyndar orðið til fróðleiks í þessu efni. Eftir að búið er að bóka það, sem var upplesið hjer í þinginu, lætur þingmaðurinn þess getið, að í þeim hreppi, sem hann hafi verið staddur í á kjördegi, hafi í öllu verið fylgt bókstaf og fyrirmælum laganna. Þá spyr rannsóknardómari, í hvaða hreppi það hafi verið. Hinn segir: Í Eyrarhreppi, nefnilega þar, sem hinn margnefndi Hálfdán er hreppstjóri. Þá mun rannsóknardómara hafa þótt djarft svarað, því að hann lætur bóka, að þetta sje það ósvífnasta svar, sem hann hafi fengið í allri sinni rjettarrannsókn. Þá mun Jóni Auðuni hafa þótt, sem hann tæki fullmikið upp í sig, því að hann lýsti yfir því, að ummæli hans eigi bara við þann tíma, sem hann var viðstaddur þarna, nefnilega þegar hann hjelt þar þingmálafund og svo á kjördegi meðan kosning fór fram. Þá bókar rannsóknardómari, að framburður þessi sje einskis virði, og get jeg verið honum sammála í því.

Það er í skemstu máli að segja, að telja má niðurstöðuna af rannsókn málsins þá, að auk þeirra fjögurra atkvæða, sem fram komu strax og kært var yfir, hafa fundist fimm seðlar, sem ekki finnast eigendur að og ætla verður, að hafi verið falsaðir. Nú er það einkennilegt, að tveir af þessum seðlum eru með nafni Jóns Auðuns Jónssonar, en þrír með nafni Finns Jónssonar. Jafnframt er það upplýst, að þrír af seðlunum lágu í skrifstofu Hálfdáns og voru teknir þar af bæjarfógeta, en tvo, jafnmarga og nafn Jóns Auðuns stóð á, var búið að senda áður til viðkomandi hreppstjóra. Rithönd þeirra fimm manna, sem um er að ræða og ekki hafa fundið seðla sína, er öll önnur en á seðlum þessum, en eigendur að öllum hinum seðlunum eru fundnir.

Auk alls þessa virðist það þýðingarmikið atriði í þessu máli, hve mikil áhersla var lögð á að fá ísfirska kjósendur til að fara út í Hnífsdal og greiða atkvæði þar. Ekkert liggur eðlilegar við en að þeir færu í skrifstofu bæjarfógeta til að kjósa; en það er sannað með framburði í rjetti, að lögð var áhersla á að fá kjósendur til að kjósa í Hnífsdal; en ekki var reynt að hafa áhrif á það, hvern þeir kysu.

Það virðist svo, sem þessir kosningaóknyttir sjeu farnir að ganga frá kyni til kyns, að þessi löstur, er jeg áðan nefndi, sje kominn í annan lið. Sonur Bjarna, sem varð frægastur 1919, er sannur að því, eftir því sem bókað er hjá rannsóknardómara, að háfa boðið og greitt 25 krónur fyrir atkvæði eins kjósanda.

Jeg get — eins og jeg áður sagði — tekið fram, að þessar margháttuðu brellur, stórar og smáar, við kosningu í Norður-Ísafjarðarsýslu komu mjer á engan hátt á óvart. Jeg bjóst við þeim, áleit fulla ástæðu að búast við þeim, eftir því hvernig tekið hefir verið í þessi mál á undanförnum þingum. Hinu get jeg ekki neitað, að mjer kemur nokkuð á óvart sú niðurstaða, sem allur meiri hluti kjörbrjefanefndar virðist fá í þessu máli, og þó einkum tillögur hennar. Eftir því sem jeg best fæ skilið af því, sem nefndarmenn hafa sagt, hefir alt það, sem þeir hafa rannsakað og fengið upplýsingar um, hnigið í þá átt að sýna, að alvarlegar misfellur og stórkostlegar sakir eru í sambandi við þessa kosningu. Hinu geri jeg ekki ráð fyrir, að kjörbrjefanefnd hafi dottið í hug í upphafi, að nokkuð yrði sannað um það, að frambjóðandi Jón Auðunn Jónsson væri sannanlega riðinn við kosningaglæpina.

Það, sem upplýst hefir verið um það, hver siður er hjá öðrum Norðurlandaþjóðum, virðist mjer ekki hafa mikla þýðingu. En jeg ætla jeg tæki rjett eftir, þegar skeytið var lesið upp, að einmitt í Svíþjóð væri gerður mikill munur á, hvort kosningaglæpur er framinn af einstökum mönnum eða hvort hann er framinn af kjörstjórn sjálfri, sem er talið miklu meira brot.

Nú er þetta mál svo vaxið, að það er einmitt trúnaðarmaður þjóðarinnar, hreppstjórinn, sem grunaður er um fölsun á atkvæðagreiðslu. En störf hreppstjóra eru við atkvæðagreiðslu utan kjörstaða alveg nákvæmlega sama eðlis og kjörstjórna á kjördegi. Því hlýtur það að segja sig sjálft, að þegar grunur liggur á honum um glæp, ber að taka miklu harðar á því en ef um einhvern annan væri að ræða.

Auk þess er upplýst af hæstv. dómsmrh., að í því landi þar sem þingræðið er elst og í föstustum skorðum, er miklum mun harðar á þessu tekið, eins og rjett er og sjálfsagt, að mínum dómi.

Mjer hefir heyrst á mönnum, sem andmæla því að ógilda kosninguna, að þeir beri aðallega tvent fyrir sig. Annað, að ekki sje rjett að hegna þingmannsefninu Jóni Auðuni, og hitt, að með því væru kjósendur í NorðurÍsafjarðarsýslu sviftir rjetti sínum og hegningin látin einnig lenda á þeim saklausum.

Að mínu viti er þetta hvorttveggja hin mesta fjarstæða. Hjer er alls ekki um það að ræða að hegna einum eða öðrum. Slíkt er ekki Alþingis. Jeg álít, að af þremur ástæðum eigi að ógilda þessa kosningu. Í fyrsta lagi vegna sóma Alþingis og vegna þess fordæmis, sem það skapar með úrskurði sínum. Með því að ákveða, að kosningaglæpir skuli ekki hafa áhrif á lögmæti kosningar, er gefið undir fótinn hverskonar óreiðu og glæpum við kosningar framvegis. Því að það er vitað til fulls, að aldrei er hægt að sanna nema örlítið brot af því, sem kann að vera framið við slíkar kosningar. Það er tilviljun yfirleitt, að rannsókn fáist í þessum málum, og þó að hún fáist, er aldrei hægt alt að sanna.

Í öðru lagi er þetta siðferðisskylda gagnvart kjósendum í Norður-Ísafjarðarsýslu. Þeir eiga heimting á því, að úr sje skorið á þann hátt, að kosningin geti talist lögleg og óbrjáluð, hvern þingmann þeir skuli hafa.

Í þriðja lagi er það vegna þingmannsefnisins, og myndi jeg leggja mest upp úr því, ef jeg væri frambjóðandi. Hann þarf að fá uppreisn áður hann sest á þingbekk. Og þá uppreisn getur enginn veitt honum nema kjósendur Norður-Ísafjarðarsýslu.

Það er því allra hluta vegna rjettast að lýsa þessa kosningu ógilda og láta kjósa á ný, og það hið bráðasta.