27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (4082)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Jón Þorláksson:

Ástæðan til þess, að jeg kvaddi mjer hljóðs, var nú aðallega sú, að enginn hafði beðið um orðið, en þar sem margir hv. þm. eru fjarstaddir, þá vildi jeg ekki, að atkvgr. færi fram meðan svo stæði.

Annars hafa umr. snúist á þann veg, að það mætti ætla, að formanni Íhaldsflokksins væri eigi algerlega óskylt mál að standa upp til varnar gegn þeim aðdróttunum á hendur þeim flokki, sem komið hafa fram í þessum umræðum, enda er það auðvelt verk.

Hæstv. dómsmrh. (JJ) byrjaði ræðu sína með því að sveipa yfir sig skikkju siðgæðis, vandlætingar og rjettlætis. En sú skikkja fór honum ekki vel. — Hann vísaði á góð fordæmi frá Englandi fyrir því, hvernig bæri að haga sjer í opinberu lífi, og tók rjettilega fram, að Englendingar gættu þess stranglega, að enginn hefði rangt við í leik. Þetta er nú ekki nema rjett, og það er í sjálfu sjer lofsvert að benda á þetta fordæmi. En þegar slíkar bendingar koma frá þessum hæstv. ráðh., þá víkur nokkuð kynlega við, því að allir vita, hve illa honum hefir sjálfum gengið að lifa eftir þessari fögru reglu. Ein afleiðing þessarar reglu Englendinga er sú, að hlutdræg frásögn pólitískra blaða er alls ekki þoluð. Þeir heimta rjetta frásögn blaðanna um pólitíska viðburði, hver sem í hlut á. Á þetta hefir talsvert brostið hjer, og er hæstv. dómsmrh. (JJ) manna best kunnugt um, að svo er, því að það er álit flestra, að enginn hafi gengið lengra en hann í gagnstæða átt. Það tekur sig því óneitanlega illa út, þegar hann af siðferðislegum eða uppeldislegum ástæðum vill ónýta kosningu Jóns A. Jónssonar. Í síðari hluta ræðu sinnar kastaði hann líka af sjer þessari siðferðisskikkju og kom þá fram sem hinn gamli, óhlífni ádeilumaður, sem hann venjulega er.

Hæstv. dómsmrh. sagði meðal annars, að Íhaldsflokkurinn hefði gert það að flokksmáli að standa á móti rannsókn á kosningasvikamálinu í Hnífsdal. Þetta getur hann ekki staðið við. Hjer getur nú verið um tvent að ræða. Annaðhvort á hann við þingflokkinn, eða hann á við þann kjósendahóp á öllu landinu, sem fylgir stefnu flokksins. Sje svo, að hann eigi við það síðara, þá er það nú hálf íslenska þjóðin, sem hefir átt að bindast samtökum til að hindra þessa rannsókn. En eigi hæstv. ráðh. aðeins við þingflokkinn, þá er honum auðvelt að fá vitneskju um, að hann hefir hvorki blandað sjer í þetta mál nje heldur getað það. Flokkurinn hefir alls ekki náð saman síðan kosningasvikin gerðust. Og þó hann hefði getað náð saman, þá er jeg viss um, að ekki einn einasti maður úr flokknum hefði á minsta hátt viljað hindra það, að lögmæt rannsókn færi fram í þessu máli. En sje átt við alla íhaldsmenn, eða með öðrum orðum helming þjóðarinnar, sjá allir, að sá áburður er slík fjarstæða, að honum þarf ekki að svara.

Það er nú að vísu svo, að því er ekki hægt að neita, að nokkuð kalt andaði móti rannsóknardómaranum, Halldóri Júlíussyni, þegar hann kom vestur til að taka við rannsókn þessa máls. Jeg hefi ekki kynt mjer neitt sjerstaklega, hvernig á því muni hafa staðið. Má vera, að það hafi stafað af þeirri almennu tilfinningu, að menn eiga yfirleitt bágt með að trúa því, að meðbróðir þeirra, sem þeir í langa tíð hafa ekki þekt að öðru en heiðarlegu og góðu, gerist alt í einu glæpamaður. Þetta getur verið afsökun þess, að þeir hafi gengið feti framar en rjett var og hafi talið rannsókn óþarfa.

Ef nú litið er á það, hversu vel hæstv. dómsmrh. og flokksmönnum hans hafi tekist að fylgja þeirri reglu Englendinga að hafa rjett við í leik, þá verð jeg að segja, að þeim hefir mistekist það hraparlega í þessu máli. Þeir hafa flutt hjer margar og langar frásagnir um kosningar í þessari sýslu bæði nú og áður, en hafa með atkv.magni varnað þeim eina þingmanni úr andstæðingaflokknum, sem kunnugur er þessum málum og gefið gat upplýsingar í þeim, frá að sitja á þessum fundi. Hví komu þeir ekki með þessar frásagnir á þeim eina fundi, sem Jón A. Jónsson átti sæti hjer? Þá hefði hann getað svarað og leiðrjett hinar einhliða frásagnir, sem sagðar hafa verið af kosningunum að vestan. — Hvort sem það hefir nú verið að yfirlögðu ráði gert eða ekki að bíða með þessar frásagnir, þar til Jón A. Jónsson væri vikinn af þingi, þá hefir þetta nú tekist svona til. Og mjer finst, að það siti illa á þeim að vera að tala um að hafa rjett við í leik og halla hvergi á.

Þetta sama, sem hjer hefi jeg sagt, get jeg nú að mestu líka látið nægja sem svar til hv. þm. Ísaf. (HG). Það er enginn í okkar hópi, sem hefir nægan kunnugleika til að mótmæla sögum hans að þessu sinni. Þetta vil jeg að komi fram í þingtíðindunum, svo þeir, sem síðar kynnu að vitna í það, að frásögn hans um þetta mál standi óhrakin, sjái, af hvaða ástæðu það er, og taki skýrslu hans ekki gilda þess vegna að órannsökuðu máli. Jeg hefi tekið þá stefnu í þessu máli, að bíða rólegur þess dóms, sem í því verður feldur, og hefi því ekki hirt um að kynna mjer það neitt sjerstaklega. Jeg skal því heldur ekki fara mörgum orðum um það. Aðeins minnast á tvö atriði, sem dregin hafa verið inn í þetta mál, annað af hæstv. dómsmrh. og hitt af hv. þm. Ísaf.

Það kom fram við þessa rannsókn, að tveir borgarar þar vestra, karl og kona, sem leidd voru sem vitni í málinu, þorðu í fyrstu ekki að segja satt og rjett frá. Það var mjög óheppilegt, að þetta skyldi koma fyrir. En það bendir þó á það, hversu varlega þurfi að fara í yfirheyrslum við svona fáfrótt en heiðvirt fólk, sem ekki vill spilla fyrir þeim með framburði sínum, er það veit saklausan, ef sannleikurinri á að koma í ljós. Rjett er að geta þess, rannsóknardómaranum til lofs, að hann fjekk þennan framburð leiðrjettan, svo sannleikurinn kom í ljós. Vonandi er, að svo hafi einnig tekist við önnur vitni í málinu, að framburður þeirra af þessari eða öðrum ástæðum hafi eigi orðið rangur.

Þetta sýnir, hversu, mikla varúð og lagni þarf að viðhafa í rannsókn, þegar heiðvirt en lítilsiglt og kjarklítið fólk á í hlut, svo rjett niðurstaða fáist.

Hitt atriðið var það, sem mjer heyrðist hv. þm. Ísaf. (HG) segja, þótt jeg eigi nú reyndar bágt með að trúa því, að hann hafi sagt það, eða að það sje satt. En mjer heyrðist hann nú segja það. En það var, að þegar Jón A. Jónsson svaraði rannsóknardómaranum sem vitni upp á spurningu rannsóknardómarans, hvar hann hefði verið staddur á kjördegi, að hann hefði verið staddur í Hnífsdal og að þar hefði alt farið rjett fram. Þá hefði rannsóknardómarinn átt að segja, að þetta væri það ósvífnasta svar, sem hann hefði fengið fyrir rjetti. Þetta er ótrúlegt, og jeg get varla trúað því, að það sje rjett. En jeg hefi engin rök, sem hrekja, að það sje rjett. En sje þetta svo, þá finst mjer rjettvísinni ekki hafa tekist svo vel að halda uppi virðingu sinni þarna sem vera ber. Gæti þetta gefið tilefni til að skilja betur mótstöðuna þar vestra. En það er í sjálfu sjer nærri óhugsandi, að svona skætingssvar komi frá dómara, sem situr þar sem fyrirsvari sjálfrar rjettvísinnar í landinu.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta svo kallaða Hnífsdalsmál, en aðeins víkja lítillega að því máli, sem hjer liggur fyrir, kosningunni í Norður-Ísafjarðarsýslu. — Jeg get látið ánægju mína í ljós yfir niðurstöðu meiri hluta háttv. kjörbrjefanefndar, þeirri niðurstöðu, sem jeg hafði komist að þegar í upphafi þings, að það ætti að ráða úrslitum þessa máls, að Jón A. Jónsson hefir fengið alveg ótvíræðan, löglega greiddan meiri hluta atkvæða í kjördæminu við kosninguna. Og þótt greinilegt þyki, að glæpur hafi verið framinn í sambandi við kosninguna, þá er þm. sjálfur alveg hreinn af því máli. Mjer kom því ekkert óvart, þótt Framsóknarmennirnir í nefndinni kæmust af þessari niðurstöðu, því hún er í samræmi við lög landsins og þá venju, að sá sje talinn löglega kosinn, sem fengið. hefir ótvíræðum meiri hluta löglega greiddra atkvæða. Þessi regla er ein af máttarstoðum þjóðskipulagsins. Og ef Alþingi færi að byggja á öðru, þá væri ráðist á einn hornstein þess þjóðskipulags, sem vjer nú búum við. Hitt get jeg ætlað, að engum komi á óvart, þótt þeir menn, sem hafa það á stefnuskrá sinni að rífa það þjóðfjelagsskipulag niður, sem nú er, vilji gjarnan brjóta þessa stoð sem aðrar.