27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (4087)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg hafði búist við því, að hv. 1. þm. Skagf. (MG) mundi gera alvöru úr því að svara þeim spurningum, sem jeg beindi til hans, og hafði jeg ætlað mjer að sitja þar til hann hefði talað. En þar sem hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) fór hjer af stað og mælti nokkur orð í sínum venjulega tón, langar mig til að víkja að honum nokkrum orðum. Jeg skrifaði eftir honum fáeinar setningar, og var sú fyrst, að hann hafði það eftir mjer, að íhaldsmenn væru ein samfeld heild svikara og falsara. Hvenær hefi jeg sagt þetta? Hann hefir máske þá hugmynd sjálfur um sinn eiginn flokk, og skal jeg ekkert gera til að þvo hann hreinan. En jeg lýsi háttv. þm. ósannindamann að því, að jeg hafi viðhaft þessi ummæli.

Þá kom kafli í ræðu hv. þm., sem var merkilegur fyrir þá djúpu mannvonsku, sem þar kom fram. Hv. þm. setti upp dæmi um það, hvernig fara mætti að því að falsa atkvæði og framkvæma kosningasvik, ef löggjöfin yrði skerpt. Háttv. þm. býst auðsýnilega við því, að þetta svikamál leiði til skarpari lagasetningar um þetta efni. Honum er ekki nóg, að Jóni A. Jónssyni sje miskunnað að þessu sinni. Nei, hann vill gera alt, sem í hans valdi stendur, til að draga úr áhrifum löggjafarinnar gagnvart svikum. Honum er ekki nóg að verja svikin, ofbeldið og ofsann, honum þykir ekki nógar lygarnar í blöðum íhaldsins, er tvö þeirra eða fleiri skýra frá, að Eggert Halldórsson hafi verið fluttur nakinn á vörubifreið frá Hnífsdal í tugthúsið á Ísafirði. Honum er ekki nóg, að íhaldsmenn noti Frjettastofuna til að útbreiða sögur, sem ekki hanga saman á öðru en lyginni og ósannindunum, og láta þessar sögur bergmála um land alt. Nei. Hv. þm. er ekki einu sinni nóg að fá að þessu sinni að skera upp af því góða sæði, sem sáð var í Hnífsdal. Hann óttast það, þessi hv. þm., að af þessu spretti hreyfing, sem verði til þess, að reistar verði rammar skorður með löggjöf gegn samskonar svikum í framtíðinni. Það er þetta, sem er hámarkið á ósvífninni. Það er þessi uggur íhaldsmannsins, sem stendur í lyftingu í svikaskútunni og siglir ljóslaust, með breitt yfir nafn og númer, gegnum landhelgi rjettvísinnar inn í svikahöfnina. Því að það eru fleiri en botnvörpuskip þessa háttv. þm., sem breiða yfir nafn og númer og sigla ljóslaust til veiða í landhelginni. En fyrir því er dómur hæstarjettar, að háttv. þm. hefir haft fje upp úr því, að skip hans hafa rænt landhelgina fyrir hinum fátækustu af kjósendum hans. Út af þessu hefir háttv. þm. verið svo ósvífinn að dylgja um, að hæstirjettur dæmdi ranga dóma, — þessi hv. þm., sem flutt hefir sorann úr sálarlífi reykvíkskra götudrengja inn á Alþingi Íslendinga, sem hefir flutt götuorðbragðið inn í þingsalinn. (ÓTh: Hefi jeg kent hæstv. dómsmrh.?). Þessi hv. þm. er líka sá eini, sem alinn er upp á götunni í Reykjavík. (ÓTh: En hæstv. forsrh.?). Háttv. 2. þm. G.-K. ætti að gera sig ennþá minni með því að bera sig saman við jafnmerkan og góðan mann sem hæstv. forsrh. — En jeg býst við og vona, að hið fávíslega dæmi hans verði ekki grýla gegn því, að reynt verði að ógilda kosningar, sem fram fara með svikum og mútum. Úr því að Bretar geta ónýtt slíkar kosningar, hví skyldum við þá ekki geta það líka? Það eru ekki þeir dómstólar hjer á landi, þótt þeir dæmdu hart um Kveldúlf á árunum, að þeir taki slík svik, sem hv. þm. talaði um, fyrir góða og gilda vöru.

Háttv. 2. þm. G.-K. reynir að sanna, að jeg hafi sagt ósatt með því að minnast á það í Tímanum, að háttv. 3. landsk. hafi staðið að 9 milj. króna lántöku í fyrra vetur. Hvernig leyfir hann sjer annað eins? Hvað er það annað en sem allir vita, að háttv. 3. landsk., þáverandi forsætis- og fjármálaráðherra, ætlaði sjer svo lítið bæri á að koma því í lög, að Landsbankinn mætti taka á landsins ábyrgð ótakmarkað lán án leyfis Alþingis. Þessu varð breytt, og átti jeg nokkurn þátt í því að afstýra þessum voða. Þótti þetta tiltæki þáverandi hæstv. fors.- og fjmrh. (JÞ) að vonum svo mikil ósvinna, er ljóst varð, hvert stefnt var, að jafnvel Íhaldsmenn fjellu frá því, er þessi tilraun tókst ekki. Þá laumaði þessi sami hæstv. ráðh. (JÞ) frv. inn í Nd. á þá leið, að Landsbankinn skyldi fá leyfi til þess að taka stórt ótiltekið lán, sem landið gengi í ábyrgð fyrir. Það er eftirtektarvert, að það er hvergi tekið fram í þskj., hversu há upphæð lánsins skuli vera. Því var leynt, af því að stjórnin þorði ekki að segja það. Eftir langa mæðu tókst þó að kúga íhaldsmenn til þess, að bókað yrði, að minsta kosti í skjölum fjhn., þar sem jeg átti sæti, að lánið mætti ekki fara fram úr 9 milj. kr. Það verður svo ofan á, þrátt fyrir megna mótspyrnu, að samþykt er, að þing og stjórn veiti heimild til þess, að landið gangi í ábyrgð fyrir 9 milj. króna láni, sem Landsbankinn að nafni til er látinn taka.

Voru það þá ekki 9 milj.? Hvernig leyfir háttv. 2. þm. G.-K. sjer þá dirfsku að halda öðru fram? Eða er fáviska hans svo mikil, að hann getur ekki greint staðreyndir frá sjálfs sín hugsmíðum? Eða hygst hann nokkuð munu græða á þessu fleipri sínu? Hann græðir ekki annað en það, að sanna, að stjórnin vildi fá heimild til lántöku ótakmarkað og reyndi að leyna upphæð lánsins, er hitt tókst ekki. — Svo er lánið tekið, að upphæð 2 milj. dollara, og landið gengur í ábyrgð fyrir því. En háttv. þm. (ÓTh) veit ekki, hver hefir orðið niðurstaða þessarar lántöku. Það er afsökun hans, þótt lítil sje.

Niðurstaðan varð sú, að nú í vetur kemur fram ósk til bankaráðsins, þar sem jeg á sæti sem stendur, þess efnis, að kostnaðurinn við þetta 9 milj. króna lán verði tekinn úr gengisjöfnunarsjóði landsins. Þetta er samþykt í bankaráðinu. Hvað þýðir svo þetta? Það þýðir það, að því er lýst yfir af bankastjórum Landsbankans, að þeir hafi ekkert með þetta lán að gera. 1 milj. hefir verið ráðstafað í Íslandsbanka, og háttv. 2. þm. G.-K. þóttist glaður yfir því, að það væri að fullu borgað. Borgað af hverjum? Jú, af Landsbankanum. Þetta fje hefir ef til vill farið til útgerðarfjelags þess, er háttv. þm. (ÓTh) á þátt í að stjórna (ÓTh: Já, sjálfsagt eitthvað af því), en situr áfram sem skuld hjá Landsbankanum.

Það er sannað af kröfum Landsbankastjórnarinnar um að fá kostnaðinn við þessa lántöku greiddan úr landssjóði, að hún hermdi munnlegt loforð upp á fyrv. hæstv. fjmrh. (JÞ) í þessu efni. Það er sannað með þessu, að það er maðurinn, sem olli gengishækkuninni og setti atvinnuvegina í vandræði, sem hefir allar þessar vífilengjur. Og nú verður að taka gengisjöfnunarsjóðinn til þess að standa straum af þessu láni, sem sannanlegt er, að Landsbankinn hafði enga þörf fyrir nje ástæðu til þess að eyða, en tekið var vegna fráfarandi stjórnar og skjólstæðinga hennar.

Hugsum okkur nú aðra eins fávisku, að bera þetta fram, vitandi það, að því meir, sem þetta lán er rætt, því verri verður aðstaða þess manns, er tók það.

Jeg hefi gert mjer far um að birta almenningi, hvernig alt var að sökkva í botnlaust skulda- og lánafen í höndum þessa sama manns.

Það er ekki að þakka háttv. 2. þm. G.-K., þótt ekki færi á sömu leið um þetta lán sem enska lánið hjer á árunum. Framar öllu ber að þakka það úrslitum kosninganna 9. júlí í sumar og þeim meiri hluta, sem þá myndaðist.