27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (4088)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

* Jeg sje ekki ástæðu til þess fyrir mig að taka nokkurn verulegan þátt í þessum umræðum. En viðvíkjandi atkvgr. minni um kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu vildi jeg aðeins taka það fram, að þó að það virðist liggja í augum uppi, að JAJ hafi fengið meiri hl. löglega greiddra atkvæða í Norður-Ísafjarðarsýslu, þá virðist mjer sem svo margt óhreint sje við þessa kosningu, að jeg treysti mjer ekki til að verja það fyrir samvisku minni að greiða henni atkvæði.

En það var einkum annarar ástæðu vegna, sem jeg stóð upp. Jeg hefi þá aðstöðu sem þm. Strandamanna, að vera nábúi þeirra manna við Ísafjarðardjúp, sem augljóst virðist, að hafa falsað kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu, og einhverra hluta vegna þótti þeim harðvítugu flokksmönnum einnig ástæða til að láta ljós sitt skína í þessu efni í Strandasýslu. Þeir sýndu Strandakosningunni, að því er virðist fullsannað, þann vafasama heiður að falsa nokkra kosningaseðla þar — en að vísu var sú starfsemi ekki rekin í svo stórum stíl í því efni, að nægði til þess að íhaldsmaðurinn fengi nægilega mörg atkvæði á kjördegi, ásamt hinum fölsuðu, til þess að ná kosningu. En söm var gerðin þessara manna fyrir því.

Mjer þótti sjálfsagt, í sambandi við fölsunina í Norður-Ísafjarðarsýslu, er hún er til umræðu, að jeg þakkaði fyrir síðast, þann hluta glæpanna, sem var látinn berast til Strandasýslu.

Og í því sambandi verður að geta um meira. Það er upplýst, að frambjóðandi Íhaldsflokksins í Strandasýslu flutti sjálfur eitt eða fleiri af þessum fölsuðu atkvæðum frá Ísafjarðardjúpi til Strandasýslu. Og enn meira bar til tíðinda í þessu efni. Sjálfur þáverandi dómsmálaráðherra, vörður laga og rjettlætis, var fylgdarmaður þessa frambjóðanda Íhaldsflokksins, sem var með falsað eða fölsuð atkvæði með sjer. Og enn bar það við, á fyrsta fundinum, sem þessir tveir Íhaldsflokksfulltrúar hjeldu í Strandasýslu, í Árnesi í Trjekyllisvík, að því var opinberlega lýst yfir á fundinum, að kjósanda eða kjósendum í Strandasýslu hefðu verið boðnar mútur til þess að kjósa frambjóðanda Íhaldsflokksins.

Jeg býst við því, að í sögu þingræðisins í menningarlöndum muni slík tíðindi sem þessi næsta sjaldgæf, og þó einkum slíkt föruneyti fyrir yfirvörð rjettlætisins. Og vegna sóma landsins vil jeg skora á fyrverandi dómsmrh. (MG), sem hjer á sæti, að lýsa því yfir, að þó að svo sorglega og mjög óheppilega vildi til, að hann væri í slíku föruneyti, er hann fór um Strandasýslu fyrir síðustu kosningar, þá hafi hann að sjálfsögðu ekki um það vitað, að frambjóðandi Íhaldsflokksins, sem hann var að styðja, hafði slíkan farangur með sjer. Jeg veit með vissu, að hæstv. fyrv. dómsmrh. fúslega gefur slíka yfirlýsingu. Ennfremur vona jeg, að hann lýsi því yfir afdráttarlaust, að honum hafi verið ókunnugt um, að samferðamaður hans, eða samferðamenn, buðu fram mútur til þess að stuðla að kosningu Íhaldsmannsins, að því er opinberlega var borið fram á Árnessfundinum; og enn vona jeg, að hann geri grein fyrir því, hvers vegna hann og hinir nafntoguðu förunautar hans mótmæltu þessu ekki þegar á fundinum.

*Handrit þingskrifara að ræðu þessari hefir glatast og sömuleiðis minnispunktar um ræðuna, sem jeg hafði látið afhenda skrifaranum. Samkvæmt ósk skrifstofunnar er ræðan hjer rituð eftir minni, nokkrum mánuðum eftir að hún var haldin. — Tr. Þ.