27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (4093)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Þorleifur Jónsson:

Jeg hafði nú ekki ætlað mjer að taka til máls að þessu sinni. Og þó að jeg hafi nú kvatt mjer hljóðs, geri jeg það ekki í þeim tilgangi að lengja umr. til muna, sem jeg verð að segja um, að teygist óþarflega mikið úr hófi fram.

En það var út af einu atriði í ræðu hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), að jeg fann mig knúðan til þess að standa upp og leiðrjetta misskilning, sem þar kom fram.

Hann talaði langt mál um það, þessi hv. þm., hvernig Framsóknarflokkurinn hefði farið að á síðastliðnu sumri, er þm. hans komu saman hjer í Reykjavík til stjórnarmyndunar. Hann viðhafði þau orð, að þá hefðum við Framsóknarmenn felt dóm yfir núverandi hæstv. dómsmrh. (JJ), með því að nefna hann ekki til þess að vera formann stjórnarinnar.

Hann sagði svo frá stjórnarmynduninni, þessi hv. þm., að ókunnugir hefðu mátt halda, að hann hefði verið á fundum okkar Framsóknarmanna og með í ráðum um stjórnarvalið.

En eins og allir geta skilið, þá var hv. þm. þar ekki tilkvaddur, enda lýsi jeg því yfir nú, að það, sem hv. þm. sagði um stjórnarmyndunina, eru hrein og bein ósannindi og tilhæfulaust fleipur, og með öllu óskiljanlegt, hvað hann hygst að vinna með slíkum blekkingum.

Og jeg vil þá ennfremur upplýsa um það, að það var einmitt núverandi hæstv. dómsmálaráðherra, sem lagði kapp á það, að núverandi hæstv. forsætisráðh. yrði tilnefndur að mynda stjórnina, enda urðu allir flokksmenn Framsóknarflokksins samtaka um það. Það var ágætt samkomulag um það, eins og annað viðvíkjandi stjórnarmynduninni.

Jeg vildi aðeins leiðrjetta þann misskilning hv. þm. (ÓTh), að Framsóknarflokkurinn hefði verið að fella vondan eða þungan dóm yfir hæstv. dómsmrh. (JJ) með því að fara að ráðum hans um valið á stjórnarformanninum. Jeg held, að það sje augljóst, að forsrh. og Framsóknarflokkurinn hafi einmitt sýnt honum mikinn sóma og tiltrú með því að fela honum dómsmálaembættið. Hitt er annað mál, að verið getur, að hv. Íhaldsflokki hafi ekki þótt það neitt betra að fá hann fyrir dómsmálaráðherra, enda hefir þess orðið vart, að ýmsum andstæðingum stj. hefir þótt nóg um röggsemi hæstv. dómsmrh. og kvarta undan henni, eins og komið hefir í ljós í umr. um þetta mál, sem hjer er á dagskrá.

Með þessu læt jeg orðum mínum lokið. Jeg vildi aðeins með þessu benda þingheimi á, að það er ekki alt gullvægur sannleiki, sem hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) vildi halda fram í næstsíðustu ræðu sinni.