27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (4099)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Jón Baldvinsson:

Hv. þm. Dal. var svo bljúgur í þessari ræðu sinni, eins og hann þættist vilja reyna að lægja þær öldur, sem risið hafa hjer í umræðunum um þetta mál. (SE: Jeg gleymdi dönsku peningunum !). Hv. þm. hefði átt að tala um þá. Það hefði verið fróðlegt að heyra athugasemdir hans um það mál. Og þeim skyldi verða svarað. (SE: Þær koma!). Já, komi þær bara!

Jeg þarf þá að víkja dálítið að hv. 3. landsk., og skal reyna að haga svo orðum mínum, að hann þurfi ekki að svara, en vona, að hæstv. forseti gefi honum leyfi til þess, ef hann skyldi finna ástæðu til þess.

Jeg skil vel, að það liggi illa á hv. 3. landsk. í kvöld. (JÞ: Þvert á móti!). Það er sama sorgin, sem sollið hefir í brjóstum annara íhaldsmanna síðan eftir kosningar í sumar. Það hafði verið reynt að koma þeirri trú inn hjá landsmönnum, að það gætu ekki aðrir en íhaldsmenn farið með völdin á Íslandi, og það kvað svo ramt að þessu, að íhaldsstjórnin var farin að trúa þessu sjálf, og einmitt þess vegna munu kosningarnar í sumar hafa verið sjerstakt sorgarefni fyrir háttv. 3. landsk., því að þær sýndu greinilega, að sú trú var ekki rótgróin með þjóðinni.

Það vita allir, hve ákaft og lengi hann hafði langað til þess að komast í stjórn og hve ákafar og margar tilraunir hann gerði til þess að verða forsrh. á þinginu 1924. Og það er búið að lýsa því, hvernig hann komst loksins í þann sess.

En það lítur út fyrir, að ólánið hafi stöðugt elt þennan háttv. þm., því að þegar hann varð loksins ráðherra í stjórn Jóns Magnússonar, lenti það t. d. á honum að verða 13. ráðherrann á Íslandi. Hv. 3. landsk. huggar sig ef til vill við það, að hans verði þó altaf getið í sögunni, jafnvel þótt hann hafi verið sá 13.

Jeg skal nú ekki spá neinu um það, hvern vitnisburð sagan muni gefa honum, en jeg býst ekki við, að hann verði eins glæsilegur og hann heldur sjálfur, og getur verið, að háttv. 3. landsk. sje ef til vill farinn að sjá það sjálfur. Mjer kæmi það ekkert á óvart, þótt það kynni einhvern tíma að komast upp, að hann hefði aldrei átt skilið að verða ráðherra, vegna þess að það atkvæði, sem hann tylti sjer á upp í ráðherrastólinn, hefði ekki verið vel fengið. Í vanmáttugri reiði sinni yfir því, hvernig dómur þjóðarinnar gekk á móti honum og hvernig þjóðin hefir nú lagt hann til hliðar og sýnt honum vanþóknun sína, reynir hann nú af veikum mætti að hefna sín á andstæðingum sínum. Í vanmáttugri reiði sinni, segi jeg, því að fæstum, sem kunnugir eru íslenskum stjórnmálum, mun detta í hug, að háttv. 3. landsk. muni nokkurntíma komast í stjórn á Íslandi framar.

Allir þekkja brölt þessa hv. þm. til þess að komast á þing, hvernig hann fjell í hverju kjördæminu á fætur öðru, þangað til hann loksins var settur í örugt sæti í Reykjavík. En svo raunaleg, sem byrjunin var, er þó áframhaldið nú orðið enn raunalegra, og væri æskilegt, að slíkt ætti ekki eftir að koma fyrir neinn íslenskan stjórnmálamann.

Hv. 3. landsk. var að lepja það upp úr hinu danska Morgunblaði, að Alþýðuflokkurinn sje keyptur fyrir erlent fje. Nú vissi hv. 3. landsk. vel, að einn íhaldsritstjóri, og einmitt sá, sem talinn er einna merkilegastur þeirra, hefir skrifað um þetta mál í annað höfuðmálgagn Íhaldsflokksins, og þann veg, að honum fanst það ekki nema eðlilegt, að jafnaðarmenn, sem eru í alþjóðlegum fjelagsskap, styrktu hverjir aðra. Og þessum ritstjóra var ekki meiri launung á þessari skoðun sinni en það, að hann skrifaði um þetta í blaðið Vörð, og lýsti meira að segja yfir því, að sjer fyndist það einna fallegast í fari jafnaðarmanna, hve vel þeir styddu og styrktu hver annan í baráttu sinni.

Annars finst mjer það ekkert úr vegi í þessu sambandi að spyrja háttv. 3. landsk. sjálfan, hvort hann hafi slegið hendinni á móti öllum þeim dönsku krónum, sem að honum hafa verið rjettar um æfina. Þeim, sem þekkja hv. þm. vel, þykir það ekkert sjerlega líklegt. Það er ekki lengra síðan en í sumar, að honum var falið trúnaðarstarf fyrir Dani hjer á Íslandi. Stórdanir fundu þá engan mann á öllu Ís landi, sem væri líklegri til þess og vildi fremur en hv. 3. landsk. gæta hagsmuna þeirra hjer.

Fyrst hv. 3. landsk. var að rifja upp slúðursögur úr málgagni danskra kaupmanna í Reykjavík, þá gat jeg ekki verið að hlífa honum við því að rifja þetta upp líka. Annars er hv. 3. landsk. í svo raunalegu skapi, að það er ekki gustuk að vera að hrella hann, enda hefi jeg farið varlega í þessar sakir, vegna þess hve oft hann hefir þegar talað, og getur því ef til vill ekki svarað fyrir sig.