27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (4101)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Haraldur Guðmundsson:

Þó að mjer þyki það leiðinlegt, verð jeg að hjálpa skilningi háttv. 2. þm. G.-K. á kærunni út af kosningunni á Ísafirði 1923. Sjálf kosningakæran var bygð á kosningagöllum, sem orðið höfðu hjá undir- og yfirkjörstjórn. Á þeim misfellum reistu kærendurnir kröfu sína um, að Haraldur Guðmundsson yrði úrskurðaður rjett kjörinn þingmaður. En auk þess taka þeir fram, að saknæmt framferði muni hafa átt sjer stað. En á þeim sakargiftum bygðu þeir alls ekki kröfu sína um ógilding á úrskurði kjörstjórnar. Hinsvegar óskuðu þeir skörulegrar rannsóknar á því framferði. Háttv. þm. gerir sig beinlínis sekan um skjalafölsun, þar sem hann hefir haft kæruna fyrir framan sig og leyfir sjer þó að halda slíku fram. Er hart, að það skuli koma fyrir mann hjer á hv. Alþingi.

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) ljet sjer nokkuð stór orð um munn fara. Hann sagði, að Íhaldsflokkurinn mundi ekki deyja. (MG: Það sagði jeg ekki). Vera má, að háttv. þm. hafi ekki notað nákvæmlega sömu orð og jeg nú, en ekki urðu ummælin þó skilin á aðra leið en þessa. Jeg held, að þessi ummæli hans muni ósannast. Jeg hefi enga trú á því, að Íhaldsflokkurinn sje ódauðlegur. Og dauðamörkin sjást þegar í þeirri viðleitni, sem á sjer stað innan flokksins til að losna við nafn sitt. Líklegast kemst nafnbreytingin fram, og þá verður Íhaldsflokkurinn sem slíkur að teljast dauður, en hitt er auðvitað alveg víst, að andinn lifir og verður hinn sami, hvert sem nafnið verður, meðan forráðamennirnir eru hinir sömu. En þess er jeg fullviss, og jeg vil leggja áherslu á það, að ein aðalástæðan til nafnbreytingarinnar mun einmitt verða Hnífsdalsmálið og sá stóri, svarti blettur, sem blöð flokksins og afskifti hans öll af því ljóta máli hafa sett á nafn hans.

Það er nú bert, að Íhaldsmenn eru nú farnir áð sjá, hve illa aðstöðu þeir hafa í málinu. Undanhaldið frá þeirra hálfu hjer í þinginu er merki þess. Þeir linast stöðugt í vörninni. (Forsrh. TrÞ: Þeir hafa lensað).

Nú vil jeg víkja máli mínu að háttv. 3. landsk. (JÞ). Hann dirfðist að hafa þau ummæli, að framkoma flokkanna á Ísafirði mundi hafa verið svipuð í kosningum. Þetta er svívirðilegur áburður á Alþýðuflokkinn. Enginn hefir hingað til þorað að bendla hann við samskonar kosningabrögð og Íhaldsmenn hafa gert sig seka í. Jeg þykist vita, að hv. þm. muni heldur ekki meina þetta í alvöru; þá hefði hann auðvitað stutt ummæli sín með einhverjum rökum. Ummæli hans eru komin fram út úr vandræðum og eru ætluð til þess eins að sverta andstæðinga og leiða hugann frá sök samherja.

Hv. 3. landsk. talaði um „danska gullið“. Mjer kom það ekki á óvart. Hann hefir þar lært af þjónum flokksins, ritstj. Morgunblaðsins. Þegar þeir höfðu orðið sjer til skammar með af skiftum sínum af hneykslismálum, þessu, sem hjer um ræðir, og fleirum, gripu þeir til þess óyndisúrræðis að reyna að gera hávaða út af „danska gullinu“, meðan þeirra eigin ávirðingar væru að falla í gleymsku.

Á sama hátt er þessu varið með hv. þm., hann er rökþrota, sjer, hve aðstaða íhaldsins og forkólfa þess er ill og óhæg. Út úr þessum vandræðum reynir hann svo að feta í fótspor Morgunblaðsritstjóranna og blanda alveg óskyldu máli inn í umræðurnar, máli, sem á engan hátt er hægt að leggja Alþýðuflokknum út til ámælis, eins og viðurkent er af skástu mönnum íhaldsins. (Forseti: 5 mínútur eru liðnar). Jeg hefi aðeins talað tvisvar áður. (Forseti: Háttv. þm. hefir ekki framsögu og má því ekki halda nema 2 ræður). Þá er að taka því.