27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (4103)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg verð að þakka óvenjulegt traust, sem jeg hefi hlotið frá hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh). Honum finst það nú mjög mikilsvert atriði í Hnífsdalsmálinu, að jeg eigi að vera forsrh. Þykist hann endilega þurfa að lýsa yfir því, að hann hafi meira álit á mjer en hæstv. forsrh. (ÓTh: Nei). En jeg hefi, satt að segja, aldrei haft neina löngun til að steypa hæstv. forsrh. (ÓTh: Hæstv. dómsmrh. getur það ekki). Ef jeg ætti að geta það, þyrfti jeg fyrst að vilja það. Annars eru nú þegar auðsæ áhrif þeirrar hirtingar, sem jeg hefi gefið hv. 2. þm. G.-K., því að nú er hann farinn að lofa mig.

Rök hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. Dal. eru mjög svipuð. Báðir telja þeir það rangt gegn Jóni A. Jónssyni að ógilda kosninguna. En jeg vil leyfa mjer að benda hv. þm. Dal. og háttv. Íhaldsmönnum á úrskurðinn um kosninguna í Vestur-Ísafjarðarsýslu á þinginu 1912. Þar sátu 3 hv. þm., sem nú eru meðal þm. Íhaldsflokksins, og hv. þm. Dal. Munurinn á Kristni Daníelssyni og Matthíasi Ólafssyni var 21 atkv. Þó var kosning K. D. dæmd ógild, en M. Ó. tekinn inn í þingið. Hver var ástæðan? Þá var ekkert athugavert annað en það, að 21 seðill var krossbrotinn, í stað þess að vera brotinn einu sinni. Ef við berum þann smágalla saman við alt, sem hjer hefir verið útmálað í dag, öll svikin og þá miklu samúð, sem svikurunum hefir verið sýnd af háttsettum íhaldsmönnum, og gekk í þá átt að kæfa hina „juridisku“ rannsókn, þá hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu, að það, sem heimastjórnin gerði 1912 og hv. þm. Dal. studdi, er óafsakanlegt rjettarmorð gagnvart Kristni Daníelssyni, svo framarlega sem kosning Jóns Auðuns Jónssonar verður tekin gild. Nú hugsa jeg, að hv. þm. Dal. segi, að hann hafi sent Kristin Daníelsson heim samkvæmt bestu samvisku. Jeg efast ekki heldur um, að það sje satt. Hans samviska hefir sjálfsagt verið góð og glöð þá, eins og hún er nú í kvöld, þegar hann ætlar að greiða atkvæði með kosningasvikunum. Þó hefir hann ekki fyrirvara hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Hv. 1. þm. S.-M. lýsti yfir því, að hann áliti þau svik, sem höfð hafa verið í frammi, hina mestu andstygð, og að nauðsynlegt sje að breyta kosningalöggjöfinni, til þess að girða fyrir, að slíkt komi fyrir aftur. En ekki er þessu að heilsa um hv. þm. Dal. (SE: Jeg heimtaði einmitt, að þeim seku yrði hegnt). Já, ef næðist í þá núna. En hv. þm. sjer ekki eða vill ekki sjá nauðsynina á að endurbæta kosningalöggjöfina, og þess vegna er regindjúp á milli hans og hv. 1. þm. S.-M. Annar syngur vögguljóð yfir spillingunni, en hinn vill bæla hana niður.

Hv. þm. Vestm. (JJós) sagði, að „Tíminn“ hefði flutt hlutdrægar og æsingafullar greinar um þetta mál. Jeg hygg, að ef skorið yrði úr því með dómi, hvort væri hlutdrægara, Tíminn eða blað íhaldsmanna. Morgunblaðið, þá mundi Morgunblaðið tapa, jafnvel fyrir hvað ranglátum dómstóli sem væri. Tíminn hefir verið algerlega hlutlaus um þetta mál, en hann hefir vítt framkomu þingmannsefnisins, Jóns Auðuns Jónssonar, fyrir rjettinum.

Háttv. þm. sagði, að jeg hefði lýst yfir því, að jeg væri viss um sakleysi Jóns Auðuns Jónssonar. Það er misskilningur. Jeg er ekki viss um sakleysi Jóns Auðuns Jónssonar, en hinsvegar hefi jeg aldrei haldið því gagnstæða fram. Bókun þm. hjá rannsóknardómaranum sýnir þrjóskufulla samúð Jóns Auðuns Jónssonar með illum málstað, og jeg verð að segja, að þegar alt logar í svikum þar vestra, er einkennilegt, að hann skuli ekkert vita. Annars kom fram sama skoðunin hjá þessum hv. þm. (JJós) og hv. þm. Dal. (SE). Þeir álíta nægilegt, að dómstólarnir hegni þeim, sem svikin sannast á. En Alþingi hefir enga skyldu að þeirra dómi. Þingið 1912 hafði þó skyldu til þess að senda heim Kristin Daníelsson. (JJós: Nú liggur engin kæra fyrir þinginu, eins og 1912). Nei, en hv. þm. veit, að ef þingið álítur svo, getur það ónýtt kosninguna.

Háttv. þm. sagðist óska þess, að þeir rjettu seku fyndust. Það er gott. En þess virðist ekki hafa verið óskað í sumar,“ þegar rannsóknin sofnaði út af í höndum íhaldsstjórnarinnar. Af hverju var beðið þá? (JJós: Því hefir verið svarað). Já, en það var einmitt það versta og óviturlegasta, sem hægt var að gera, enda hafa bestu lögfræðingar bæjarins haldið því fram, að það hafi einmitt verið allra fyrstu dagarnir eftir að glæpurinn var framinn, sem mest reið á að nota. Þegar frá leið, höfðu glæpamennirnir tóm til þess að bera sig saman, og þá var öll rannsókn örðugri viðfangs. Nei, í þeirri óforsvaranlegu töf, sem varð á rannsókninni, kemur ekki fram löngun til þess að láta hina seku finnast, og ekki heldur í skeyti Sigurðar Kristjánssonar, þar sem hann lýsir því átakanlega, að Eggert hafi verið tekinn nakinn upp úr rúminu, fárveikur, og fluttur í vörubifreið inn til bæjarins. Þá má nefna mótstöðuna gegn því, að þeir Eggert og Hálfdán væru settir í gæsluvarðhald. Hvenær þorsti Íhaldsins eftir rjettlæti kemur fram, veit jeg ekki. Það er kannske fyrst í skeytinu frá Ögri. Morgunblaðið sýnir sitt göfuga hugarfar, þegar það leyfir sjer að senda rannsóknardómaranum dylgjur og hnútur fyrir starf hans. Þannig er haldið áfram, leynt og ljóst, að tortryggja rannsóknina og dómarinn er beinlínis ofsóttur. Og hvað hefir hann til saka unnið? Það, að af einum manni hefir aldrei verið gerð hjer jafnglæsileg, skarpskygnisleg og djúpsæ rannsókn, síðan Ísland varð sjálfstætt ríki. Jeg verð að segja, að það er undarlegt, hvernig rannsóknardómarinn hefir verið ofsóttur og hve frábærlega vel hann hefir unnið verk sitt.

Jeg vil gjarnan láta háttv. 1. þm. Skagf. (MG) njóta þess sannmælis, að hann hefir reynt að hafa sefandi áhrif á ofstækismennina fyrir vestan, en það hefir því miður lítinn árangur borið hingað til.

Hv. þm. Vestm. (JJóS) hafði eftir mjer, að jeg byggist við, að í framtíðinni væri ekki kosningasvika að vænta frá öðrum en Íhaldsmönnum. Jeg leyfi mjer að skjóta því til allra, sem hlustað hafa á mál mitt í kvöld, hvort þarna er rjett með farið. Hitt er annað mál, að reynslan sýnir, að aldrei hefir fallið grunur um slíkt á neinn annan stjórnmálaflokk í landinu. Það er álitið, að á Akureyri hafi verið brúkaðar mútur 1923 til framdráttar Birni Líndal. Ekki af honum sjálfum, heldur af útlendu Steinolíufjelagi, til þess að fella þann mann, sem hafði bjargað við smábátaútvegi landsins. Og það er athugavert, hvernig kosningin fór á Akureyri í sumar, þegar ekki er lengur barist um líf eða dauða útlendra hagsmuna.

Háttv. þm. sagði, að jeg væri mjög hreykinn af því, að flokkur minn skyldi hafa valið mig til þess að vera vörður siða og rjettlætis í landinu. Jeg hefi ekki hælt mjer fyrir neitt, en hv 2. þm. G.-K. hefir hælt mjer mikið, og það fullkomlega án beiðni frá mjer. Það hefir verið mitt hlutskifti undanfarnar vikur að reyna að bæta úr sljóleik og vanrækslu fyrirrennara minna í ýmsum mikilsverðum málum, svo sem áfengis- og sjóðþurðarmálum. En þó að samanburður á verkum mínum og fyrirrennara minna gæti orðið mjer í hag, þá er það ekki mikið hól, þegar litið er á verk þeirra undanfarin ár.