27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (4113)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Í fyrra vildi jeg og fleiri þm. í Ed. fá þáverandi hæstv. forseta til að hætta að brjóta lög, en það tókst ekki. Hann ljet kjósa suma sína menn í þrjár nefndir, þó að t. d. núverandi hæstv. fjmrh. (MK) væri ekki nema í einni. Þetta var alveg brot á anda og efni þingskapanna. En það mátti náttúrlega segja þeim til afsökunar, að nauðsyn brjóti lög. Meiri hluti í deildinni voru Íhaldsmenn og vildu njóta þess, — ekki þola lög, þegar þau komu þeim illa.

En svo skal jeg segja hv. þm. Snæf. (HSteins) það, að við ákváðum að nota hans eigin reglu aftur í vetur, til þess að sýna andstæðingum okkar, hvernig það væri að láta meiri hlutann taka dálítið kröftuglega á minni hlutanum. Við töldum rjett að lofa þeim að lifa um stund undir óþægindum af formi þingskapanna, sem þeir höfðu áður gert sjer til hagsmuna. Það er eins og danskurinn segir: „Der skal skarp Lud til skurvede Hoveder.“

Það, sem jeg vítti í Ed., er þetta, að meiri hl., sem var í fyrra, skyldi ekki finna ástæðu til að breyta þingsköpunum, ef þeim virtist þau óhæf í framkvæmd. Þeir kærðu sig ekki um það.

Við vildum sýna andstæðingum okkar hvað þeir hefðu gert, en ákváðum um leið að bera fram þá breytingu, að ekki yrði framar freisting fyrir flokka að brjóta þingsköpin eins og íhaldið vildi og gerði í fyrra.

Vítaverðast hjá hv. þm. Snæf. er því þetta, að hann reyndi að breiða yfir, að hann gerði fullkomið lögbrot rólegur og glaður, og hvorki hann nje hans flokksmenn lyftu fingri til þess að bæta úr misfellunni.