31.01.1928
Sameinað þing: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (4118)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hafði satt að segja ekki búist við að taka til máls í þessu máli. Það hafa orðið meiri umræður um það en jeg gat búist við, og sennilega hefðu þær alveg að skaðlausu mátt vera minni. En að jeg hefi samt sem áður tekið til máls, stafar máske einna mest af því, hvernig síðustu umræðurnar urðu.

Áður en jeg vík nánar að því, vildi jeg lítillega minnast á kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu. Jeg býst við að geta farið þar fljótt yfir sögu; það er búið að ræða málið það mikið.

Jeg ætla samt að drepa stuttlega á kosninguna í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1912 til að byrja með. Það hefir áður verið minst á hana í þessu sambandi. Get jeg fyrir mitt leyti tekið undir þau ummæli, sem áður hafa komið fram, að nokkurt samband kunni að vera milli þeirra atvika, sem hafa gerst við kosninguna nú í sumar í Norður-Ísafjarðarsýslu, og þess, er þingið gerði 1912 í tilefni af kosningu í Vestur-Ísafjarðarsýslu þá. Mjer hefir fundist það ekki koma nógu glögglega í ljós við þær umræður, hvernig ástatt var um þessa kosningu. Samkv. umræðum frá því þingi var 21 vafaseðill. Það voru þeir seðlar, sem voru tvíbrotnir eða meir. Af þessum 21 seðli átti sjera Kristinn Daníelsson 14, en Matthías Ólafsson 7 seðla. Með því að gera þessa seðla ónýta, hafði Matthías meiri hluta. Nú hafði það tíðkast við kosningar undanfarið og það ár einnig, sem upplýst var í þinginu, að fleirbrotnir seðlar, ef ekki gallaðir að öðru leyti, voru teknir gildir. En kjörstjórnin, eða meiri hluti hennar, leit svo á, að þessa seðla bæri ekki að taka gilda. Annar maðurinn var Matthías Ólafsson sjálfur, sem átti sæti í kjörstjórn, þó að hann væri sjálfur í kjöri, og hinn var Kristinn Guðlaugsson að Núpi, að jeg ætla. Sýslumaður, oddviti kjörstjórnar, taldi, að þessa tvíbrotnu seðla bæri að taka til greina, og var það því gegn hans atkvæði, að Matthías Ólafsson fjekk kjörbrjefið. Mjer dettur nú ekki í hug að væna Matthías um það að hafa beinlínis sýnt hlutdrægni, en hitt virðist í mesta máta óviðeigandi, að maður hafi þannig úrskurðarvald um sjálfan sig. Þegar til þings kom, leit það þannig á þessa málavexti, að kosningu Matthíasar Ólafssonar bæri að taka gilda. Þessi úrskurður virtist brot á þeirri venju, sem áður hafði tíðkast. Og mikil óánægja varð í hjeraðinu út af því, að kosning Matthíasar var tekin gild. 172 kjósendur kærðu kosninguna, og var það meiri hluti kjósenda, að því er virðist.

Jeg drep á þetta atriði vegna þess, að ef til vill hefir þetta verið fyrirboði þess, sem síðar varð, — að menn hafi verið óvandari við kosningar síðan. Jeg drep ennfremur á þetta svona ítarlega út af því, að einn þm. hjer í deildinni, háttv. þm. Dal. (SE), var með að fella þennan úrskurð, Jeg gat ekki skilið ummæli hans á annan veg en að þeir, sem ekki vildu samþykkja kosningu Jóns Auðuns Jónssonar, væru að fremja lögbrot. Hann gerðist ákaflega stór í þessum sal og beindi allþungum ásökunum til þeirra, sem kynnu að líta öðrum augum á þetta mál en hann. Rjettlætið þóttist hann hafa alt sín megin. Ætla jeg ekki að fara að deila mikið við hann um þetta, allra síst þar sem hann er genginn til hinstu hvílu í þessu máli. En hitt kann jeg illa við og verð að láta það í ljós, að hv. þm. Dal., sem hefir felt þarna að margra manna dómi mjög ranglátan úrskurð, að hann skuli rjetta þeim mönnum ásakanir, sem kunna að líta öðruvísi á þetta kosningamál en hann. Jeg hygg það hefði verið skaðlaust, þótt hann hefði væglegar til orða tekið og minna gert úr rjettlætinu og þeim lagaverði og rjettlætisverndara, sem hann lætst vera hjer í hinu háa Alþingi.

Þá skal jeg stuttlega víkja að kosningunni í Norður-Ísafjarðarsýslu. Það hefir nú allrækilega verið rætt um þá galla, sem komu í ljós við þá kosningu, ekki einungis þá atkvæðafölsun, sem átti sjer stað, heldur og ýmsa aðra galla.

Sannast að segja hefir það komið okkur þannig fyrir sjónir, þetta kosningamál, að eftir að farið var að ræða allítarlega, hvernig kosningin gekk fyrir sig, þá getur maður ekki greinilega um það sagt, að hve miklu leyti formgallar á kosningunni kunna að hafa haft áhrif á úrslit kosningarinnar. Meðal annars var upplýst, að í tveimur hreppum, sem var skift í kjördeildir, hafi — að minsta kosti í öðrum — verið byrjað á kjördegi að semja kjörskrá og látið kjósa eftir slíkri kjörskrá. Þetta er skýlaust brot á kosningalögunum. Nú vil jeg ekki segja, að allir þessir formgallar hafi ráðið úrslitum; jeg vil ekkert staðhæfa um það. En maður getur ekkert ábyrgst um það, hvorki af eða til.

Þá skal jeg víkja að öðru atriði í sambandi við þessa kosningu, og það er framkoma þingmannsefnisins Jóns Auðuns Jónssonar, þegar honum var stefnt fyrir rjett. Jeg skal ekki gera það atriði að miklu umtalsefni, en mjer þótti ákaflega leiðinlegt að sjá þau ummæli, sem hann ljet bóka í rjettarbókina. Mjer virðist, að þar hafi hann viðhaft svo mikil stóryrði, óviðeigandi gífuryrði í rjettinum, að slíkt sje ekki samboðið jafnreyndum manni, og því síður hefði hann átt að hafa þesskonar orð, að áður hefir í sambandi við kosningu þessa sama manns verið falið ólöglega að, — sem er algerlega sannað, — einmitt honum til framdráttar. Maður hefði mátt ætla, að einmitt þau atvik hefðu fremur átt að verða þess valdandi, að hann hefði komið kurteislega fram í rjettinum. Hitt dettur mjer ekki í hug að segja eða ætla, að Jón Auðunn Jónsson hafi á nokkurn hátt verið þátttakandi í þessum kosningasvikum. En mjer hefði þótt mjög vænt um það, að hann hefði einmitt gætt sín betur í þetta sinn en raun ber vitni um.

Alt þetta er nú þess valdandi, að jeg tel kosningu þessa svo illa, af hendi leysta, að lítt viðunandi sje. Jeg get að vísu sagt fyrir mitt leyti, að mjer þykja mestar líkur benda til, að kosning Jóns Auðuns sje að löglegum atkvæðafjölda ótvíræð. Og ef ekki hefði gerst neitt annað í þessu máli en verið hefir fyllilega upplýst, þá hefði jeg ekki sjeð mjer fært að ganga í gegn kosningu hans. En þar sem málið er hvergi nærri nægilega upplýst, en sýnist í mesta máta óviðfeldið, hvernig þessi kosningaathöfn hefir farið fram, þá treysti jeg mjer heldur ekki til að greiða henni atkvæði. Jeg mun því taka þann kostinn að sitja hjá og greiða ekki atkvæði. Jeg býst við, að þannig kunni fleiri að líta á, og eftir þeim ástæðum, sem fyrir liggja, get jeg ekki sjeð, að menn geti farið öðruvísi að.

Með þessum orðum hefi jeg þá í raun og veru gert grein fyrir mínu atkvæði. Og ef ekki hefði verið svo leiðinlega skilið við umræðurnar síðast, hefði jeg getað látið hjer staðar numið. En háttv. 1. þm. Reykv. (MJ) skildist svo við þetta mál, að ekki er unt að ganga svo fram hjá hans ummælum, að senda honum ekki kveðju. Hann söng hjer sinn óttusöng, og það fullum rómi; og það virtist að minsta kosti, að af gnægð hjartans mælti þar munnurinn. Þegar þessi hv. þm. var að tala, datt mjer í hug maðurinn, sem settist á mótorhjólið á Akureyri. Hann kom við takka, sem hann vissi ekki, hvernig verkaði á áhaldið; það þaut af stað, hann hafði aðeins þá stjórn á því að fara eftir flutningabrautinni, og hjólið nam fyrst staðar þegar aflgjafinn var algerlega þrotinn. Eitthvað svipað hefir átt sjer stað um háttv. 1. þm. Reykv. Jeg held hann hafi ekki ætlað sjer sjerlega mikið, þegar hann fór af stað. En hann gat ekki stöðvað sig. Innihald ræðu hans var nú að mestu svívirðingar um Framsóknarflokkinn og þá menn, sem hafa beitt sjer fyrir málum hans, en aðallega þó hæstv. dómsmrh. (JJ). Jeg hefði ekki farið að gera þessa ræðu að umtalsefni, ef ekki hefði staðið svo á, að þessi háttv. þm. er búinn að hafa áður svipuð ummæli um Framsóknarmenn. Jeg veit því, að hv. þm. ætlast til, að honum sjeu gerð einhver ofurlítil skil. Það var að vísu ekki hjer í Sþ., en á deildarfundi, sem háttv. þm. talaði á þá leið, að líf og heilsa stjórnarinnar væri undir því komin að hafa sem fæsta góða drengi í sínum flokki. En áður en jeg vík að þessu nánar, get jeg sagt það um slíkar ræður háttv. þm., að jeg hafði sárustu raun af að hlusta á þær, af því að jeg þekki þennan háttv. þm. af persónulegri viðkynningu. Jeg hefi kynst honum sem góðum dreng og af þeirri kynningu get jeg sagt, að það sje honum mjög óeðlilegt að flytja svona ræður. En jeg vík að því síðar, hvers vegna slík undur geta orðið með þennan hv. þm.

Út frá þessum ummælum., sem jeg hafði áðan eftir hv. þm., virðist hann annaðhvort hafa hugboð um það, að stjórnin sje völt í sessi, eða, ef svo er ekki, þá sjeu þeir flokksmenn, sem að henni standa, meiri eða minni skálkar. Jeg hygg hann hafi ekki ennþá orðið þess var, að stjórnin væri völt í sessi. En það á að byggjast á því, að stuðningsmenn hennar sjeu meiri eða minni ódrengir. Því að jeg held, að engin vitneskja sje fengin um það, að stjórnin sitji í óþökk þeirra, sem eiga að styðja hana.

Jeg dæmi ekki, að hve miklu leyti þessi ásökun er á rökum bygð; til þess er mjer of skylt málið. En jeg hygg þó, að þar, sem þessir þingmenn eru þektir, þar sje álit á þeim ekki öllu verra en gerist um menn alment, — jafnvel ekki miklu lakara en álit á hv. 1. þm. Reykv. (MJ) hjer í bænum, og er jeg ekkert að sveigja að honum um það, að hann hafi lítið álit. En því leiðinlegra er að heyra af vörum mentaðs manns, þetta þó til aldurs komins og einskis óvanings að taka þátt í umræðum, að hann skuli velja slík. gífuryrði.

Það kann að vera, að háttv. 1. þm. Reykv. vilji byggja þessa ásökun sína á því, hvernig þessi hæstv. stjórn hefir starfað þá stuttu stund, sem hún hefir setið að völdum. Hann hefir nú ekki enn sem komið er leitt rök að neinu því viðvíkjandi, hvað sem síðar á að verða. En jeg er að leita í huga mínum að því, hverskonar málefni það eru, sem hæstv. stjórn hefir aðallega látið til sín taka. Verður mjer þá fyrst að koma auga á þau málefni, sem jeg bjóst við, að þessum háttv. þm. mundi ekki með öllu ógeðfelt, að unnið væri rækilega að. Jeg vil benda á afskifti hæstv. dómsmrh. af bindindisstarfsemi hjer á landi. Jeg veit ekki betur en að hv. þm. hafi verið það hugðarmál til þessa. Jeg þykist meira að segja muna eftir ummælum frá honum í þá átt, og jeg veit, að hann muni vera góður styrktarmaður þess málefnis. En jeg hygg það sje á hvers manns vitorði, sem hefir fylgst með í þeim efnum, að þar hefir mikið færst til betri vegar. Skipin, sem fara með ströndum landsins — það er opinbert leyndarmál —, voru nærri því að segja fljótandi knæpur. Jeg hefi nú talað við farmenn og aðra, sem ferðast með þessum skipum, og þeir segja, að þetta hafi breytst stórkostlega til batnaðar. Þá hefir verið tekið í hnakkadrambið á smyglurum og leynivínsölum; alt þetta bjóst jeg við, að góðir menn mundu telja til þjóðþrifa.

Þá hefir og verið gerð sú gangskör — eftir því sem hægt er — að rannsaka á ný það mál, sem við nú ræðum um. Það hefir verið látið uppi í seinni tíð, að sú aðferð hafi verið sjálfsögð og rjett, og varla mun því fært að byggja ásakanir á því. Og það, að einum embættismanni var vikið frá starfi, hefi jeg ekki vitað einn einasta mann opinberlega átelja sem órjettláta ráðstöfun. Yfir höfuð held jeg, að það, sem gert hefir verið, sje frekar talið til bóta. Hitt veit jeg, að skoðanamunur getur verið um sum hin minni háttar mál, en að hafa um þau slík ummæli, sem hv. 1. þm. Reykv. hafði, getur ekki náð neinni átt.

Þá vil jeg drepa á fáein atriði úr ræðu hv. 1. þm. Reykv., en þar verð jeg að fara fljótt yfir sögu, því að það yrði alt of langt mál, ef rekja ætti allan þann langa vef.

Hann vítti allmjög, að því er mjer skildist, að Framsóknarflokkurinn hefði grætt á Hnífsdalsmálinu, og taldi alls ekki gott að segja, hve mikið hann hefði á því grætt, og taldi jafnframt víst, að jafnaðarmenn hefðu fengið svo mörg þingsæti einmitt fyrir það. Jeg veit nú satt að segja ekki, á hverju háttv. þm. byggir þessar getgátur sínar. Að minsta kosti var þetta kosningasvikamál ekki nefnt með einu orði á fundum í kjördæmi mínu fyrir kosningarnar. En hvað kann að hafa gert verið í kauptúnum, þar sem þetta frjettist fyrst, skal jeg ekkert um segja, og mjer þykir raun að því, ef saklausir Íhaldsmenn hafa goldið þess. En það hljóta allir að sjá, að úr því að málið varð uppvíst, þá hlaut það að hitta þá, sem það snerti mest. Eða lítur hv. 1. þm. Reykv. kannske svo á, að þeir saklausu í andstöðuflokknum, sem svikin voru framin á, hefðu átt að gjalda þessa? Jeg kann alls ekki við slíka rjettlætistilfinningu, ef um hana er að ræða. Jeg hygg þvert á móti, að þetta hafi verið eðlileg afleiðing af gerðum þessara manna, og þess vegna getur hvorki þessi háttv. þm. eða aðrir sakað saklausa menn, sem á engan hátt voru við þessi svik riðnir, þó að svona illa tækist til.

Þá gat háttv. l. þm. Reykv. um leik, sem hann fyrir nokkrum árum þóttist hafa horft á hjá götudrengjum, og vildi færa þá samlíkingu sína yfir á hæstv. dómsmrh. Háttv. þm. þóttist hafa sjeð hóp unglinga, sem börðust í ákafa með allskonar prikum, en þá hugkvæmdist einum þeirra það heillaráð að taka óhreinan og blautan poka, sem lá á götunni, og verja sig með honum. Jós hann svo aurnum bæði á sjálfan sig og aðra. Komst svo háttv. þm. að þeirri niðurstöðu, að hefði drengur þessi haft sama innræti og hæstv. dómsmrh., þá hefði hann kent hinum drengjunum um sletturnar. Rökstuddi hann svo þessa ályktun sína ekki frekar. Var hún því, eins og alt annað í ræðu hans, rakalaus vaðall. Þegar háttv. þm. var að gusa þessu úr sjer, datt mjer í hug annar atburður, sem jeg var sjónarvottur að. Það var á stóru heimili uppi í sveit; meðal heimamanna var drengur einn, sem mjög var ýrður í skapsmunum. Var það svo eitt kvöld, þegar heimamenn komu frá vinnu sinni, að þeir viku sjer að stráksa og sögðust ætla að „tollera“ hann. Þetta þoldi hann illa, og tók því stökk undir sig og hljóp beint út í fjóshaug, greip fjósarekuna og varði sig með henni, svo gusurnar gengu fjöllunum hærra, bæði yfir hann og þá, sem nálægt stóðu. Þessi atburður datt mjer í hug, þegar þessi háttv. þm. var að þylja ræðu sína og koma með hinar mjög svo óviturlegu samlíkingar. Mjer finst töluvert svipað með honum og skapbráða drengnum, að undanteknu því, að bæði drengurinn og þeir, sem fyrir slettunum urðu, voru jafngóðir eftir, aðeins þegar þeir höfðu fengið vatn og þvegið af sjer sletturnar. En jeg er hræddur um, að hv. 1. þm. Reykv. fái sig seint þveginn hreinan af þeim munnsöfnuði, sem hann hafði hjer, þá er mál þetta var síðast til umræðu, að minsta kosti hjá þeim, sem ekki þektu hann áður.

Þá gat hann um atburð, sem gerðist hjer á Alþingi 1926. Atburð, sem eitt flokksblað hans gat um á alveg viðeigandi hátt, þar sem það sagði, að slíkt plagg hefði ekki getað komið fram á neinu löggjafarþingi nema hjer. Þetta býst jeg við, að sje alveg rjett. En jeg læt háttv. þm. alveg um að gera það upp með sjálfum sjer, hvort hann telur slíkt plagg til hróss fyrir sig og sinn flokk eða ekki.

Þá var háttv. þm. mjög undrandi yfir því, að hæstv. dómsmálaráðherra skyldi hafa orðið það á að segja frá því, hvað vinnukonu hafði dreymt. Og hann margendurtók þetta, hvað „vinnukonu hefði dreymt.“ Það var svo sem nokkuð annað, ef ráðherra hefði sagt frá því, hvað guðfræðidósent við háskóla hefði dreymt. Þetta minnir mig á smásögu úr þjóðsögunum. Það hafði einhver sagt Sæmundi fróða, að hann ætti að fá fyrir sálufjelaga fjósamann norðan frá Hólum. Fór Sæmundur því norður til þess að reyna mannkosti þessa manns. Segir sagan svo, að Sæmundur hafi leyst allar beljurnar í fjósinu og bundið þær saman á hölunum, til þess að vita, hvernig fjósamanni yrði við. Þegar svo fjósamaður kom í fjósið, sagði hann ekki eitt einasta orð, en leysti kýrnar og lagaði til í fjósinu. Gerði Sæmundur þetta svo í annað sinn, en það fór á sömu leið; fjósamaður leysti kýrnar án þess að segja eitt einasta orð. Er svo mælt, að Sæmundur hafi sagst una vel sínum hlut, að vera með þessum manni hinu megin grafar. Jeg verð nú að efast um, að hv. 1. þm. Reykv. hefði haft þann manndóm, að segja ekki eitt einasta ljótt orð við slíkum mótgerðum sem þessum. Jeg býst frekar við, að hjá honum hefði hrokkið eitt blótsyrði að minsta kosti, og jafnvel fleiri, því að það er annað að hafa göfugan manndóm en göfugan titil í mannfjelaginu. Hinir lítilsigldustu eru oft meiri að manngildi en þeir, sem hærra eru settir.

Eins og jeg drap á áðan, undraðist jeg stórlega að heyra þessi ummæli hv. 1. þm. Reykv. Jeg gat hreint og beint ekki, eftir þeirri þekkingu, sem jeg hefi áður haft af manninum, áttað mig á því, hvernig hann fór að hafa slíkt orðbragð. Jeg hefi ekki getað fundið nema eina ástæðu fyrir því, og hún er sú, að þegar honum verður slíkt á, þá hljóti aðrir verri menn, síðri að mentun, ógreindari og verri að mannkostum, að hafa áhrif á hann, og jeg get ekki neitað því, að mjer fanst hann höggva nokkuð nærri sjálfum sjer, þegar hann var að tala um hundapískinn, því jeg fæ ekki betur sjeð en að einhverjir óvandaðir menn utan þings hafi einmitt þennan hundapísk á lofti reiddan yfir höfði hans og fái hann með því móti til þess að tala það, sem honum sjálfum er ekki eiginlegt. Það hefir átt sjer stað áður, að mönnum hafi leiðst þessi ljóti munnsöfnuður háttv. þm., og get jeg í því efni vísað til þess, sem hv. 3. landsk. (JÞ) sagði eitt sinn um ræðumensku hans. Sömuleiðis til þess, sem Jón sál. Magnússon sagði um hana á þinginu 1921. Maður skyldi nú ætla, að honum hefði farið fram að ræðusnild síðan þetta var, en því miður virðist það ekki, heldur þvert á móti, því eftir síðustu ræðu hans að dæma, er ekki annað sjáanlegt en ennþá sje mjög langt í land, þangað til hann geti talað eins og siðaður maður.

Þá var hv. 1. þm. Reykv. að tala um, að svo mikið vantaði á, að hæstv. dómsmrh. væri drengskaparmaður, að drengskapur myndi ekki finnast í hans ætt, fyr en þá t. d. eftir 10 ættliði. Þetta segir guðfræðikennari við háskólann, maður, sem á að móta prestsefni landsins. Jeg verð því að vona, að hann gæti betur ummæla sinna þegar hann talar við þá en þegar hann er í úfnu skapi hjer á Alþingi. Maður hefði nú getað vænst þess, að þessi hv. þm. hefði getað látið sjer nægja að bera brigslum og svívirðingum menn í lifanda lífi, þó að hann færi ekki að deila á óbornar kynslóðir, og það alt fram í 10. lið. Slík stigamenska er ekki samboðin neinum manni, og þá síst manni, sem notið hefir mentunar og er í ábyrgðarmikilli stöðu í þjóðfjelaginu.

Hann sagði ennfremur, að tvær leiðir væru til að vinna sig áfram í þjóðfjelaginu. Önnur væri sú, að vinna sig áfram með dugnaði, atorku og heiðarlegleik, hin leiðin væri að níða samferðamenn sína og gera eins lítið úr þeim og hægt væri. Jeg ætla nú alls ekki að leiða nein rök að því, hvor þessara leiða sje þessum háttv. þm. tamari, en aðeins geta þess, að síðasta ræða hans virtist benda ótvírætt í þá átt, að síðari aðferðin væri honum engu síður töm en sú fyrri.

Jeg hefði nú fremur kosið, að hv. 1. þm. Reykv. hefði ekki haldið þessa ræðu sína í þessum stíl, fyrst og fremst vegna hans sjálfs og þess starfa, sem hann hefir með höndum, án þess þó, að jeg sje að halda því fram, að störf manna eigi að vera höft á frelsi þeirra. En mjer virðist þó altaf, að taka þurfi tillit til þess, hve ábyrgðarmiklum störfum menn gegna, því að altaf verður að gera meiri kröfur til þeirra, sem meiru er trúað fyrir.

Í öðru lagi hefði jeg óskað, að ræða hans hefði ekki verið í þessum götustrákastíl, vegna Alþingis sjálfs og þjóðarinnar í heild sinni.

Íslenska kirkjan hefir oft verið óheppin með starfsmenn. Meðal annars hafði hún einu sinni biskup einn, er Jón Gerreksson hjet. Hann var svo illa ræmdur fyrir ýmiskonar óþokkaskap, að nokkrir af þeim, er hann hafði sárt leikið, tóku hann höndum, ljetu hann í poka og drektu honum í Brúará. Þeir neyddust til að gera þetta, til þess að losna við áframhald af óþokkaverkum hans. Jeg er alls ekki að setja þetta í samband við hv. 1. þm. Reykv. En þess vildi jeg þó óska, að hann drekti ekki manndómi sínum og góðum orðstír í ósæmilegum ummælum um menn og málefni.