31.01.1928
Sameinað þing: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (4121)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Jón Baldvinsson:

Jeg ætla að nota þessar fimm mínútur, sem mjer eru úthlutaðar, til þess að skýra frá litlu atviki, sem gerðist í sambandi við kosningarnar í sumar; að vísu var það ekki í Norður-Ísafjarðarsýslu, en það er skylt skeggið hökunni, því að það var á Ísafirði í sumar.

Jóhannes er maður nefndur og á heima á Ísafirði. Hann kaus í Nauteyrarhreppi. En atkvæðaseðill hans kom til kjörstjórnar á Ísafirði frá skrifstofu bæjarfógeta þar. Fylgibrjef, sem fylgir venjulega atkvæðum, sem greidd eru utan kjörstaðar, var ekki vottað af embættismanni eða umboðsmanni hreppstjóra. Fyrir þær sakir gerði kjörstjórnin þetta atkvæði ógilt. En sagan er ekki þar með búin. — Kjörstjórnin þurfti vitanlega að rífa upp ytra umslagið, til þess að sjá, hvernig plöggin væru innan í. En þá valt óvart út úr því 12 eða 15 króna reikningur — jeg man ekki, hvort heldur var, — til íhaldsskrifstofunnar á Ísafirði fyrir að sjá um, að Jóhannes póstur greiddi skriflega atkvæði í Nauteyrarhreppi.

En hvernig þessi reikningur hefir getað slæðst inn í umslagið, það er enn óráðin gáta. Óneitanlega bendir þetta á, að ekki hafi alt verið með feldu um kosningarnar vestra og ekki muni öll kurl hafa komið til grafar. Það er því í meira lagi varhugavert að taka kosningu gilda, þótt meiri hluti hafi náðst, þar sem slíkir ágallar eru á.

Jeg má til að minnast á hv. 1. þm. Reykv. (MJ) og eyða svo sem 2–3 mínútum af mínum dýrmæta tíma til þess. (JÞ: Er þessi saga nýsmíðuð, úr því að hún hefir ekki komið fram fyr?). Hv. 3. landsk. (JÞ) kemur sagan sú arna augsýnilega illa, en hann getur fengið sannanir fyrir áreiðanleik hennar hvenær sem vill. Jæja, jeg sný mjer þá að háttv. 1. þm. Reykv. Hann þóttist aldrei hafa mælt bót kosningasvikunum í Hnífsdal. Fyrsti maðurinn, sem jeg heyrði tala um þetta Hnífsdalshneyksli, gerði það á opinberum fundi í Reykjavík, og það var hv. 1. þm. Reykv. Og á hvern hátt talaði hann um það? Er fregnin fyrsta barst hingað suður, að hreppstjórinn í Hnífsdal væri tekinn fastur fyrir grun um fölsun atkvæða, þá kom hún fram á almennum kjósendafundi í Reykjavík. Og það var alveg rjett athugað hjá honum í síðustu ræðu, að flestum þótti sem þar spryngi bomba, svo stórkostleg tíðindi voru þetta. En hv. 1. þm. Reykv. var ekki uppnæmur fyrir slíku. Hann setti aðeins upp þetta dæmalausa sunnudagsandlit og mælti af prestslegri andagift: Hvað er að marka þetta þarna fyrir vestan? Það getur alveg eins verið, að kærendurnir, sem komu með atkvæðin til sýslumanns, hafi falsað atkvæðin.

Þessari ræðu var sem öðrum á þeim fundi útvarpað. Þegar íhaldsmenn á Ísafirði heyrðu þetta, þóttust þeir hafa himin höndum tekið. Þetta snjallræði hafði þeim ekki komið til hugar. Þarna kom úrlausnin upp í hendurnar á þeim: Enginn annar vandinn en að skella skuldinni fyrir atkvæðafalsanirnar á þá, sem fyrir fölsununum urðu og kærðu þær. Og þeir íhaldsmenn vestra munu trúlega hafa fylgt þessu ráði hv. 1. þm. Reykv.

Þannig hefir þá hv. 1. þm. Reykv. gefið tóninn í þessu kosningasvikamáli.

Jeg hefi orðið þess var, að háttv. þm. finst tónninn í ræðum hv. 1. þm. Reykv. ekki sem þokkalegastur og tæpast þinglegur. En jeg vil segja: Komið á kosningafundi í Reykjavík, þar sem háttv. 1. þm. Reykv. talar í flokki íhaldsmanna. Þessi háttv. þm. var þar eitt sinn að lýsa dugnaði íhaldsmanna hjer í bæ og notaði líkingu, sem flestum mundi þykja heldur óprestsleg. Fór háttv. 1. þm. Reykv. þar meðal annars með vísu, þar sem hann nefndi óþverra tvisvar í hverri vísuhending. Hallfreður vandræðaskáld fjekk verðlaun fyrir það á sínum tíma að nefna sverð í hverju vísuorði. Hv. 1. þm. Reykv. fjekk klapp hjá flokksmönnum sínum fyrir það að nefna óþverra tvisvar í hverju vísuorði. Óneitanlega vel af sjer vikið af guðfræðikennara.