31.01.1928
Sameinað þing: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (4123)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Jóhann Jósefsson:

Þá er mál þetta var hjer til umræðu síðast, leitaðist jeg við að sýna fram á, að þau tvö stjórnarblöð, sem mest hafa um þetta kosningasvikamál skrifað, hafa altaf gengið út frá því sem vísu, að Íhaldsmenn einir væru við það riðnir. En þessu hefir verið mótmælt af hæstv. dómsmrh. (JJ). Vil jeg því máli mínu til sönnunar vitna í 31. tölublað Tímans f. á. Þar stendur:

„Eins og alkunnugt er, hefir legið sterkur grunur á því, og af mörgum talin full vissa, að Íhaldsmenn hafi við fyrri kosningar komið við svikum, líkum og þeim, sem nú er kært yfir.“

Og í sama blaði, dags. 12. nóv., stendur ennfremur:

„Stjórnmálaflokkurinn, sem þykist öðrum fremur vilja vernda núverandi þjóðskipulag, fóstrar þær meinsemdir í hugarfari sínu og lífsstefnu manna, sem horfa til stjórnleysis og niðurbrots á þjóðskipulaginu.“

Jeg ætla ekki nauðsynlegt að hafa þessar tilvitnanir fleiri, til þess að sýna, hvaða andi hefir svifið yfir vötnunum hjá þessu blaði, þegar það hefir verið að skrifa um kosningasvikin vestra. Þær sýna fullkomlega, að þau ummæli mín voru rjett, að því væri beint að vissum stjórnmálaflokki í landinu, að hann stæði að þessum oftnefndu kosningasvikum vestra.

Þá vil jeg með fáeinum orðum víkja að ræðu háttv. 1. þm. Árn. (JörB). Hann var eins og fleiri, sem talað hafa um þetta mál, að segja sögur, sem gengju um það fyrir vestan. Þeir geta skákað í því hróksvaldi, þessir herrar, að þeir hafa bolað burtu frá þessum umræðum þeim manninum, sem einn, sakir kunnugleika síns, væri fær um að gefa upplýsingar um ýmislegt það, sem hjer kynni að vera rangt með farið.

Hann talaði með miklum fjálgleik um þessa kosningu og sömuleiðis um kosninguna í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1912, og vildi gera samanburð á þessum kosningum. Án þess að jeg vilji leggja nokkurn sjerstakan dóm á kosninguna í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1912, þá finst mjer samt hjer vera alt öðru máli að gegna. Yfir þessari kosningu hefir enginn kært til Alþingis, en hin var kærð af 172 kjósendum, og þar valt alt á því, hvað gert væri við hina vafasömu seðla. En eins og margbúið er að sýna fram á, þá er kosning Jóns Auðuns Jónssonar svo viss, að þó að andstæðing hans sjeu talin öll heimagreiddu atkvæðin, þá hefir hann samt 137 atkvæða meiri hluta af kjörstaðagreiddum atkvæðum. Hjer veltur því ekkert á því, hvað gert er við þá seðla, sem kosningasvikin snúast um. Það hefir því frá upphafi verið alveg augljóst, að kosning JAJ væri eins gild eins og nokkur kosning getur verið, og var því í byrjun alveg ástæðulaust að amast við því, að hann tæki sæti í þinginu.

Þá kom hv. 1. þm. Árn. með upplýsingar um það, hvernig kosningin hefði verið framkvæmd í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem að hans dómi voru mjög merkilegar. Hann sagði, að í einum hreppi sýslunnar hefði verið kosið eftir kjörskrá, sem samin hefði verið samdægurs og kosningin fór fram. Jeg þykist vita, að hv. þm. hafi þetta rjett eftir þeim, sem sagði honum, en svo heppilega vill til, að jeg get upplýst, að hjer er ekki farið með rjett mál. Í þessum hreppi, sem mun vera Sljettuhreppur, hafði oddvitinn samið kjörskrá fyrir allan hreppinn á rjettum tíma, og afrit af henni var lagt fram á rjettum tíma í öllum kjördeildunum, því eins og tekið hefir verið fram, hafði hreppnum verið skift í þrjár kjördeildir: Hafna-, Látra- og Hesteyrarkjördeild. En þegar afritið kom í Hafnakjördeild, sá kjörstjórnin, að marga vantaði á kjörskrána, og bjó því til aðra kjörskrá, aðeins til þess að benda á, hve marga vantaði. á kjörskrána. En eftir því uppkasti fjekk enginn að kjósa, heldur eftir gömlu kjörskránni, sem vitanlega var sú eina, sem hægt var að fara eftir.

Þá taldi þessi hv. þm. ummæli þau, sem Jón A. Jónsson hafði látið bóka fyrir rjettinum, stórt atriði á móti kosningu hans. En jeg vil nú spyrja hv. þm., hvort hann í raun og veru telji þau skifta miklu máli fyrir kosninguna. Eða veit hann ekki, að til eru sektarákvæði fyrir því, ef menn haga orðum sínum öðruvísi en vera ber fyrir rjetti? Og undir þau ákvæði heyra ummælin, hafi þau verið ósæmileg, en koma ekkert því máli við, hvort taka eigi kosningu hans til Alþingis gilda eða ekki.

Að eltast við alt, sem hæstv. dómsmrh. (JJ) sagði, er engin leið; hann fór svo víða, eins og venja er til, þegar honum tekst upp. Meðal annars var hann að dylgja með, að eitthvað nýtt hefði sannast í þessu svokallaða Hnífsdalsmáli. Jeg sje ekkert undarlegt við það, þar sem rannsókn málsins er ekki lokið enn. En því verð jeg að mótmæla fyrir Íhaldsflokkinn, að hann hafi altaf verið að afsaka þessi kosningasvik, því að það er mjög röng og ómakleg ásökun í garð flokksins hjá hæstv. ráðherra.

Þá var hæstv. dómsmrh. að minnast á atburð, sem gerðist í efri deild Alþingis 1926, þegar deildin sá sig tilneydda að vanda um við hann á viðeigandi hátt fyrir óverjandi frekju, þar sem hann vildi láta deildina fyrirskipa öðrum mönnum lögsókn á hendur Sigurði Þórðarsyni, vitandi sjálfan sig svo þungum sökum borinn af sama manni, án þess að hann hefði reynt að hreinsa nafn sitt, sem kunnugt er. Það er ofur eðlilegt, að hæstv. ráðherra muni eftir þeirri útreið, sem hann fjekk þá, og sjeu þeir menn minnisstæðir, sem stóðu að því að samþykkja þessa dagskrá, því að þeir menn hafa orðið honum óþarfastir á þingi.

En hitt tel jeg örðugt fyrir hann að snúa þessu við, svo að sökin lendi á deildinni, en ekki á honum sjálfum. Jeg get vel trúað því, að honum hafi þótt þessi umvöndun hörð, en þar má hann sjálfum sjer um kenna, því að hún var sjálfsögð og rjettmæt eftir framkomu hans þá.

Það mun nú fara að líða að því, að gengið verði til atkvæða um, hvort taka skuli gilda kosningu JAJ eða ekki. Og það hafa komið fram raddir úr öllum flokkum þingsins um að taka hana gilda, nema frá jafnaðarmönnum, og hvað greinilegast rökstudd frá hæstv. fjmrh. (MK). Þeir, sem mest hafa barist á móti kosningunni, eru sósíalistar; þeir hafa verið harðastir á stalli. Þessi stuðningsflokkur. núverandi stjórnar, flokkurinn, sem hefir líf hennar í hendi sjer, vill gera sig eins digran og hægt er og hefir sennilega í þessu sem öðru sett kröfur sínar til stjórnarinnar. Það sjest á ýmsum ráðstöfunum hennar, sem síðar mun verða að vikið, hverjir það eru, sem stýra þeim bak við tjöldin. Reynslan mun sýna, hvernig leikar fara, hvort stjórnin lætur ekki undan sósíalistum í þessu máli sem öðrum.

Mjer þykir líklegt, að atkvgr. sú, sem nú fer í hönd, muni sýna, hverjir það eru af Framsóknarflokksmönnum, sem næstir standa jafnaðarmönnum og fúsastir reynast til að ganga þeirra erinda, því að það er vitanlegt, að í Framsóknarflokknum eru menn á ýmsum skoðunum í þessu máli, og mig uggir, að sá fylkingararmurinn, sem lengst er til vinstri og næst stendur sósíalistum, muni í kvöld styðja þessa heitustu ósk jafnaðarmanna, að ónýta kosningu Jóns Auðuns Jónssonar.