26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4861 í B-deild Alþingistíðinda. (4167)

Starfstími fjárhagsnefndar nd

Halldór Stefánsson:

Jeg vildi aðeins leyfa mjer að vekja athygli háttv. deildar á því, að fjhn. er ekki ætlaður nema 1 klukkutími til fundahalda, annanhvern dag. Þó er það vitanlegt, að hún er önnur sú nefnd, sem hefir flest mál til meðferðar allra fastanefnda deildarinnar. Nú undanfarið um hríð hafa verið hafðir umræðufundir í deildinni á fundartíma nefndarinnar. Hefir það hamlað mjög störfum hennar, og þar sem hún á mörg mál óafgreidd, þá er óvíst, hvort þessi vinnubrögð verða til að flýta störfum þingsins, ef ætlast er til, að þau mál, sem fyrir fjhn. liggja, fái fullnaðarafgreiðslu. sem form. nefndarinnar get jeg ekki látið þetta hlutlaust lengur.

Verð jeg að bera fram þá ósk til hæstv. forseta, að hann hagi svo umræðum eftirleiðis, að eigi fari þær í bága við starfstíma nefndarinnar. Hlýt jeg að öðrum kosti að afsala henni allri ábyrgð á því, þó að dragist afgreiðsla þeirra mála, sem hún nú hefir til meðferðar.

Þó að jeg ætli mjer ekki að hlutast til um starfshætti þingsins að öðru leyti, þá vil jeg þó leyfa mjer að benda á í þessu sambandi, að e. t. v. mætti setja deildarfundi kl. 11 árd. — það er ekki starfstími nefnda frá 11–12 — og ætla þeim því minni tíma síðari hluta daga.