21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (4173)

6. mál, laun embættismanna

Magnús Jónsson:

Jeg hefi ekki fylgst með í störfum stjórnar Sambands starfsmanna ríkisins, en mjer kemur þetta ákaflega einkennilega fyrir, að hún skuli hafa skrifað stj. á þessa leið, að hún hafi verið ánægð með kjörin eins og þau eru. Mjer skildist á hæstv. ráðh., að fyrir lægi brjef á þá leið, að þeir legðu til, að málið færi í nefnd, en kærðu sig ekki um, að frekar yrði í því gert að svo komnu.

Á síðasta þingi fór stjórn Sambandsins fram á nokkra hækkun á dýrtíðaruppbót. Sætti jeg töluvert þungum ávítunum, en litlum vinsældum meðal minna samstarfsmanna fyrir það, hve laust jeg hafði haldið á því máli í fyrra, enda verð jeg að segja, að jeg á dálítið erfiða aðstöðu; því það er leiðinlegt að berjast fyrir því máli, sem snertir mann sjálfan ákaflega mikið.

Þarna fann jeg þá greinilegan vott þess, að starfsmennirnir voru óánægðir með kjör sín. Þykir mjer merkilegt, ef þeir verða ekki fyrir vonbrigðum, er þeir sjá, hvernig stjórnin tekur í málið nú.

Hæstv. ráðh. vildi ekki gefa svar um, hvort stjórnin mundi leggja til fyrir sitt leyti, að milliþinganefnd yrði skipuð í málið. Það gerir raunar ekki mikið til; það má bera málið fram, þó að liðið sje á þingið. En mjer er hinsvegar ekki vel ljóst, hvað undirtektir fjhn. hafa að segja í þessu máli, nema fjhn. takist að leysa svo vel úr þessu, að ekkert þurfi þar um að bæta. En jeg er sammála því, sem hæstv. fjmrh. sagði í fyrstu ræðu sinni, að um það sjeu litlar eða hjer um bil engar vonir.

Ef þingið á að gera umbót á þessu máli, verður það að vera með einhverju einföldu ráði, svo sem dýrtíðaruppbót. Við getum lítið spáð um framtíðina, en ýmislegt sýnist benda í þá átt, að verðlag ætti að fara að verða nokkuð stöðugt í landinu. Jeg býst við, að hæstv. stjórn, eftir sinni stefnu, reyni að koma í veg fyrir, að gildi peninganna haggist hjer eftir, og mætti þá sennilega fá endanlega ákveðin laun embættismanna, og yrði þar með látinn hverfa af þeim þessi dýrtíðar-, bráðabirgða- og stríðsbragur, sem á þeim lögum hefir verið nú um hríð.