14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

6. mál, laun embættismanna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallason):

Hv. form. fjhn. (HStef) hefir tekið undir með mjer um það, sem við hv. 2. þm. G.-K. deildum um, hvort till. mín væri svo flókin, að þyrfti að taka málið út af dagskrá hennar vegna. Þetta mál hefir legið hjer svo oft fyrir áður, að það er öllum hv. þm. kunnugt, nema þá ef til vill hinum nýju þm. Hv. þm. Dal. og hv. 1. þm. N.-M. bentu á, að hjer væri komið inn á atriði, sem leiddi það af sjer, að taka þyrfti fleira til athugunar. Jeg álít, að ef einhverjum sjerstökum aðilja er gert rangt til, þá beri að sjálfsögðu að reyna að leiðrjetta það svo fljótt sem auðið er. Og það stendur svo sjerstaklega á um sveitaprestana, að þeir einir, og einmitt þeir, hafa orðið fyrir miklum misrjetti, því að þeir eru ekki aðeins lægst launaðir allra embættismanna, heldur hafa þeir líka minsta dýrtíðaruppbót. Jeg vil því láta greiða atkv. um það í deildinni, hvort þetta eigi að eiga sjer stað í framtíðinni.

Út af ummælum hv. 2. þm. G.-K. hve lengi eigi að framlengja þessi lög, og út af ummælum hans um gengismálið í því sambandi vil jeg segja það, að þar mættum við margt upp rifja. En það hefir ef til vill fallið af hv. þm. sá fjötur, er legið hefir um hendur hans og fætur undanfarin ár í þessu máli. Þegar mál þetta verður á dagskrá, er jeg reiðubúinn að ræða það við hann, en um leið vil jeg nota tækifærið til þess að brýna það fyrir hv. þm., að hann komi þá djarflegar fram í málinu en á fyrri þingum.