14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

6. mál, laun embættismanna

Ólafur Thors:

Jeg held, að það hafi sjaldan komið fyrir, að nokkur þm. hafi orðið sjer eins rækilega til skammar í jómfrúræðu sinni sem hv. þm. V.-Húnv. (HJ). Það þarf ekki að minna á það, enda er stutt síðan. Hv. þm. rjeðist með illkvitni á mig og hv. þm. Dal. fyrir að hafa borið fram fyrirvara, sem ekki væri samkvæmur gerðabók fjhn. Sannleikurinn er sá, að okkur var leyft að flytja fyrirvarann með samþykki form. nefndarinnar. Þessi hv. þm. rýkur upp til að svala illkvitnislund sinni og flokksbróðir hans, form. fjhn., verður að fella yfir honum óvægasta dóm. Svo líða nokkrir dagar, þm. fær tíma til að jafna sig. En viti menn, honum er enn ekki runnin reiðin. Hann svíður ennþá undan meðferðinni, sem hann fjekk hjá okkur þm. Dal., en þó einkum hjá form. fjhn. Það hefir þá aðeins verið af getuleysi, að hann þagnaði síðast — við sem vorum að vona, að hann hefði sjeð að sjer og iðrast. Hann hefir aðeins þurft umhugsunarfrest til að sækja í sig veðrið, einungis tíma til að ávaxta sitt pund, því nú í dag rís hann upp á ný, hálfu verri en áður. Það er almennur dómur um þennan hv. þm., að vond væri hans fyrsta ganga. Og víst er, að verri var hin önnur ganga hans.

Hv. þm. dróttaði því að mjer, að jeg vildi fá málið í nefnd til þess að geta rokið með það út í bæ. Hann telur það ósamboðið þm. að leita sjer upplýsinga og spyrja um álit annara! En því aðeins verður þm. að liði, að hann kappkosti að rannsaka málin og leiti sjer upplýsinga um þau hjá öðrum, en hafi þó lundfestu til að halda dómgreind sinni eftir sem áður.

Nei, slíkum rökum sem þessum er best fyrir hv. þm. að beita fyrir kjósendur sína, því að hann getur verið þess fullviss, að deildin gleypir ekki við þeim.