14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

6. mál, laun embættismanna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Nú hefir öll nefndin látið heyra til sín, og vænti jeg, að hæstv. forseti ætti að geta úrskurðað úr þessu, hvort málið skuli tekið af dagskrá. Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagðist líta á hina mismunandi dýrtíðaruppbót sem staðaruppbót, — raunar hefði líklega verið rjettara að tala um staðarfrádrátt. En hvers vegna nær þetta þá ekki til annara embættismanna, sem búsettir eru í sveit, til lækna, sýslumanna o. s. frv.? (MG: Þeir hafa ekki embættisbústaði). Já, en prestarnir gjalda leigur af bústöðum sínum, og ef afgjaldið er sumstaðar of lágt metið, þá á að sækja þá sök á hendur þeim, sem metið hafa, en ekki prestunum.

Hv. 2. þm. G.-K. hefir nú talað þrisvar til að bera af sjer sakir, en hefir aldrei getað stilt sig um að bera að minsta kosti jafnframt sakir á aðra. Jeg er ekki fjármálaráðherra og mun ekki taka fram fyrir hendur á honum um að bera fram frv., sem heyrir undir hann. En við hv. 2. þm. G.-K. vinnum báðir í gengisnefnd, og þar vona jeg, að við getum undirbúið þetta mál í sameiningu. (MJ: Vinnur nefndin nokkuð?).