14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

6. mál, laun embættismanna

Frsm. (Hannes Jónsson):

Jeg vil leiðrjetta það hjá hæstv. forseta, að jeg sje frsm. meiri hl., því að mjer er ekki kunnugt um neina aðra frsm. í nefndinni.

Hv. 2. þm. G.-K. er nú búinn að viðurkenna, að hann hafi farið villur vegar og skýrt rangt frá í deildinni. (ÓTh: Alveg rangt!). Hann hefir nú játað, að hv. formaður fjhn. hafi aðeins sagt, að það skyldi óátalið af honum, þótt hv. þm. gerði þennan fyrirvara. Auðvitað kemur það ekki nefndinni við, hvað form. segir, að einstakir nefndarmenn megi gera fyrir sjer. En áður hefir hv. þm. sagt, að þeir háttv. þm. Dal. hafi haft leyfi nefndarinnar til að gera fyrirvara. (ÓTh: Við höfðum leyfi nefndarinnar!). Þetta er alrangt, og hv. þm. getur ekki breytt staðreyndum með fullyrðingum út í loftið. Áður en þessi hv. þm. fer að reyna að kenna öðrum, ætti hann að læra eitthvað sjálfur, það er að segja, ef hann getur nokkuð lært af því, sem hverjum manni er nauðsynlegt að vita til þess að geta hagað sjer sæmilega.