14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

6. mál, laun embættismanna

Jón Auðunn Jónsson:

Út af ræðu hv. þm. Mýr. (BÁ) vil jeg benda á, að jeg átti ekki eingöngu við presta, þegar jeg talaði um dýrtíðarbætur í fleiri liðum. Jeg átti þar við alla embættismenn ríkisins. En þar sem hann. sagði og hafði að nokkru leyti eftir mjer, að prestarnir stæðu ver að vígi vegna búskaparins, þá er það ekki rjett. Margir þeirra standa einmitt betur að vígi fyrir þessa sök, eða allir þeir, sem byrjuðu búskap áður en dýrtíðin hófst, en svo mun ástatt um flesta þeirra. En í bæjunum þurfa allir embættismenn að borga mjög ríflegan hluta af tekjum sínum í húsaleigu, nema þeir örfáu, sem eignuðust hús fyrir 1915. Prestar eru ekki heldur knúðir til að hafa búskap frekar en þeim sjálfum sýnist. Og jeg held, að margir þeirra leigi jarðirnar. Jeg hefi fullar sannanir fyrir því, að sumir prestar leigja jarðirnar jafnvel fyrir helmingi hærra afgjald en þeim er reiknað afgjaldið upp í embættislaun, auk þess sem þeir fá ódýra íbúð. Þessa eru áreiðanlega dæmi, þó það sje ekki í mínu kjördæmi, því að þar sitja prestarnir sjálfir prestssetrin. Hinsvegar eiga vitanlega margir prestar erfitt vegna þess, að þeir hafa keypt bústofn sinn mjög dýrt. En með dýrtíðaruppbót verður ekki við því gert. Ákvæðin um dýrtíðaruppbætur verða að vera sniðin að mestu með framtíðina fyrir augum, sem betur fer eru margir prestar svo settir, að þeir eiga betri lífsafkomu en flestir aðrir embættismenn þessa lands. En jeg fæ ekki skilið, hvernig á að vera hægt að gera upp á milli þeirra og hins hluta prestastjettarinnar, sem nú hefir bágari afkomu, nema þá helst með því að leigja prestssetrin með áhöfn.