14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

6. mál, laun embættismanna

Hákon Kristófersson:

* Jeg verð að segja, að mjer þykir leiðinlegt, að hæstv. forsrh. (TrÞ), sem nú er, eins og menn vita, sameinaður hv. þingmanni Strandamanna, fer að sneiða til þeirra manna, sem höfðu þetta mál til meðferðar á sínum tíma. Af því að jeg er einn úr þeirri nefnd, verð jeg að segja, að mjer kemur það mjög á óvart, að það komi frá þessum heiðursmanni, sem jeg vil óska að sje sem allra varfærnastur í orðum, og þá ekki síst í getsökum í annara garð. Jeg og fleiri álitum á sínum tíma, að við styddumst við rjettlæti; og jeg hefi ekki, þrátt fyrir hinar ítarlegu ræður þeirra hæstv. forsrh. og hv. þm. Str. (TrÞ), að þessu sinni getað sannfærst um neitt, sem hnekt gæti þeirri skoðun minni.

Það er verið að kveina og kvarta yfir bágbornum ástæðum þessara heiðursmanna, presta til sveita. Jeg spyr: Eru ekki fleiri á þeim sviðum, sem skórinn kynni að kreppa að? Það er ómögulegt að neita því með nokkrum rjetti, að aðstaða sveitamanna og þeirra, sem í kaupstöðum búa, er ólík. Lifnaðarhættirnir gera það að verkum, að það verður að ýmsu leyti dýrara fyrir kaupstaðabúa að lifa. Auk þess, eins og háttv. þm. Borgf. (PO) benti á, er því svo háttað um sveitapresta, ef það eru ekki búskussar, þá geta þeir búið búi sínu eins og hverjir aðrir bændur í vel flestum prestaköllum landsins án þess að sleppa neinu að öðru leyti. Og það verður ómögulegt að telja ekki sæmilegan styrk til búskapar í þeim embættistekjum, sem þeir hafa.

Auk þess má benda á það, að fyrir utan sín embættisstörf hafa sumir hverjir allmiklar tekjur af kenslu á heimilum sínum, og gætu haft það fleiri, ef þeir nentu að leggja það á sig.

Jeg vil þess vegna algerlega mótmæla því, að jeg eða aðrir, sem með þetta mál fjölluðu hjer um árið, höfum orðið til þess að leiða þennan asna inn í herbúðirnar, sem nú um sinn hefir verið teymdur fram og aftur hjer í hv. deild.

Jeg lýsi yfir því, að jeg greiði atkv. móti þessari tillögu af þeirri ástæðu, að jeg lít svo á, að hún sje allmikil hróflun á þeim grundvelli, sem hjer er til yfirvegunar, og það hlýtur að leiða af sjer mjög almennar og háværar óskir um breytingu á fleiri atriðum, ef þessu er smeygt að nú.

Hæstv. forsrh. (TrÞ) benti á það, að sveitaprestar neituðu sjer um margt, sem hinir gætu veitt sjer. Jeg býst við, að hann álíti, að tekjur sveitaprestanna leyfi þetta ekki, en aðeins tekjur kaupstaðaprestanna væru nægar til þess að afla sjer þæginda. En eins og bent hefir verið á, þá eru það staðhættirnir, sem gera það að verkum, að lifnaðarhættir geta ekki orðið svipaðir í kaupstöðum og sveitum.

Um lækna og sýslumenn hefir einnig verið talað í þessu sambandi. Er vert að geta þess — eins og hv. þm. Borgf. gerði —, að þeir menn verða jafnaðarlegast að sjá sjer og sínum fyrir bústað. En eftirgjald eftir prestssetur er mjög lágt, svo að húsnæði sveitapresta er nær ókeypis.

Jeg skal að lokum geta þess, að jeg skildi yfirlýsingu þess merka manns, hv. form. fjhn., á sama hátt og hv. 2. þm. G.-K. tók hana við fyrri umr. málsins. En mjer finst yfirlýsing hans nú vera gagnstæð þeirri, sem þá kom fram. Annars ætla jeg ekki að blanda því frekar inn í umr.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.