23.01.1928
Efri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

11. mál, fræðslumálanefndir

Dómsmrh. (Jónas Jónason):

Þetta frv. ætti að geta orðið til allmikils gagns, án þess kostnað leiði af því. Í 2. gr. frv. er tilgangurinn tekinn fram, sem er sá, að koma á samræmi í kenslu barna um land alt. Enn er slíkt samræmi ekki fengið. Börnunum er á ýmsan hátt sjeð fyrir mentun, svo sem með heimavistarskólum, heimangönguskólum og farkenslu, auk hinna föstu skóla í kaupstöðunum. Tilgangurinn er að fá fast kerfi innan hvers fyrirkomulags, þannig að börn lesi sömu bækur og sje sett sama námsefni á hverju stigi kenslunnar. Ætti þá ekki að þurfa að koma fyrir, að barn, sem flytst úr hjeraði, yrði látið læra alt annað eða beitt yrði við það ólíkum kensluaðferðum og áður. Ætlun mín er sú, að alstaðar þar, sem sama skólafyrirkomulag ríkir, sje jafnlangt gengið á hverju aldursstigi. Ekki hugsa jeg mjer þó, að hjer sje myndað dautt og óhreyfanlegt kerfi, heldur sjeu höfuðlínurnar dregnar af þessari nefnd.

Nefndin ætti að geta gert allmikið gagn, án þess að starfið væri mjög mikið eða margir fundir haldnir. Hún á aðeins að leggja grundvöllinn að því að samræma kensluna. Kröfurnar, sem henni ber að gera, verða að miðast við meðalhæfileika. Best gefnu börnin yrðu þá að fá viðbótarfræðslu.

Gert er ráð fyrir annari nefnd, sem hafi sama starf á hendi fyrir unglingaskólana, þegar þeim fjölgar, og þessi á að hafa fyrir barnaskólana. Óska jeg svo, að frv. þetta gangi til mentmn. að umr. lokinni.