16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

11. mál, fræðslumálanefndir

Frsm. (Páll Hermannsson):

Það þarf ekki langa framsögu. Þótt að vísu hafi verið gerðar nokkrar breytingar við frv., þá virðast mjer þær frekar vera á búningi þess og orðalagi en aðalefni. Eins og sjest á greinargerðinni og heyrðist í framsögu við 1. umr., gengur frv. í þá átt, að leiðtogar og trúnaðarmenn barnakennara taki saman höndum um að skipulagsbinda vinnubrögð við kenslu barna og unglinga. Það liggur í augum uppi, að slíkum mönnum er best til þess trúandi. Nefndin hefir orðið sammála um að gera við frv. nokkrar breytingar, er frekar lúta að formi þess en efni, eins og jeg gat um áðan.

1. brtt. er tekin orðrjett upp úr 3. gr. og skeytt við 1. gr., af því að með hliðsjón af þeim breytingum, sem nefndin vill gera, þykir henni það fara betur svo. 2. brtt. er að vissu leyti sama efnis og 2. gr. frv. Greinin er orðuð upp, en þó má segja, að sú efnisbreyting komi fram, að eftir brtt ber meira á áhrifum stjórnarráðsins en í frv., vegna þess að eftir brtt. eru tillögur fræðslumálanefnda gerðar til Stjórnarráðsins, en í frv. sjálfu ber minna á stjórnarráðinu. Um 3. brtt. er það að segja, að hún er sama sem óbreytt niðurlag 3. gr. Nokkuð af greininni er felt burtu, en niðurlaginu haldið, og vegna samræmisins er ætlast til, að 3. gr. færist aftur fyrir 4. gr., af því að hún á við báðar greinarnar, sem á undan eru komnar. Með hliðsjón af því færist 4. gr. fram og verður 3. gr. 5. brtt. nefndarinnar er að mestu orðabreyting til samræmis við 2. gr. eins og nefndin ætlast til, að hún verði.

Þá er 6. brtt. nefndarinnar um, að 6. gr. falli burt. Nefndin telur hana óþarfa eftir að samþ. hafa verið þær breytingar á frv., sem hún ber fram. Að svo mæltu vil jeg leggja til fyrir hönd nefndarinnar, að hv. deild samþ. frv. með þeim breytingum, sem hjer hefir verið um rætt og prentaðar eru á þskj. 171.