27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

11. mál, fræðslumálanefndir

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg var því miður ekki inni, þegar umr. hófust um þetta mál, og misti því af upphafi þeirra. En þetta mál er svo einfalt, að jeg hygg, að ekki þurfi meiru að svara en því, sem fram mun koma í þeim fáu orðum, er jeg ætla að fara um frv.

Eins og nú er háttað, hefir í raun og veru enginn rjett til að ráðstafa þeim málum, sem frv. gerir ráð fyrir, að nefndin fjalli um. Reyndar mætti veita fræðslumálastjóra og Stjórnarráðinu rjett til að gera þessar ráðstafanir, en það væri tæplega eins gott. Hjer er því eingöngu verið að hugsa um það gagn, sem af þessu gæti leitt, en hvorki um það, að ljetta eða þyngja störf fræðslumálastjóra. Jeg vissi, að þetta ákvæði vantaði í fræðslulögin, og vildi því tryggja, að verkið yrði vel gert í framtíðinni.

Út af till. hv. 1. þm. Reykv. (MJ) vil jeg taka það fram, að jeg tel ekki alveg sama, hvernig vali nefndarinnar er hagað. Álít, að betur sje frá því gengið í frv. Jeg skal til dæmis benda á það, að ekki er ávalt víst, að í forstöðumannsembættið við kennaraskólann veljist maður, sem sjálfur hefir fengist við barnakenslu. Þannig störfuðu við skólann á fyrstu árum hans tveir ágætir vísindamenn, sem hvor um sig hefði verið fær um að taka að sjer skólastjórn, en hafði þó hvorugur beinlínis fengist við barnakenslu, og höfðu þeir því ekki eins mikla reynsluþekkingu á henni og gera má ráð fyrir, að æfðir kennarar hafi. Þessir tveir menn, sem jeg á við, voru þeir doktorarnir Ólafur Daníelsson og Björn Bjarnason. Sama getur og verið um fræðslumálastjóra. Þetta tel jeg helst mæla á móti brtt. hv. 1. þm. Reykv., því með frv. er það betur trygt, að æfðir kennarar fjalli um þessi mál.

Ein af ástæðunum fyrir þessu frv. er sú, að víða mun vera heimtað of mikið nám og of þungt af ungum börnum. T. d. er heimtað brotareikningsnám af 10 ára gömlum börnum. Það er mikil spurning, hvort brotunum eða börnunum er gert gagn með því. Jeg hygg, að fæst börn sjeu fær um það. Sama er að segja um kverkensluna. Á henni er byrjað áður en skilningur barna er svo þroskaður, að hann leyfi það. Býst jeg við, að hv. 1. þm. Reykv. viðurkenni það, að í kverinu sje svo þung guðfræði, að hún sje skilningi 11–12 ára gamalla barna ofvaxin, og jafnvel ekki alt í því hæft þroska 14 ára gamalla barna. Vona jeg, að það komi í ljós við samanburð á skólunum, hvað börnin þola á hverjum aldri. Jeg hefi, þegar með þessu svarað hv. þm. Borgf. (PO). Tilgangurinn er að fá samræmi í barnaskólanámið um land alt, þannig að barn geti flutst úr einu kauptúni í annað án þess í nokkru raskist nám þess. En eins og nú er, er algengt, að barn, sem flytst búferlum, hefir lært ólíkar kenslubækur og stendur á öðru námsstigi en börn á þeim stað, þar sem það á að halda áfram námi sínu. Í farskólum gilda og aðrar reglur. Alt þetta myndi slík nefnd best geta samræmt. Um kostnaðinn er það að segja, að hann getur aldrei orðið mikill, tæplega annar en brjefa- og símakostnaður, sem myndi jafnt verða að greiðast, þótt framkvæmdarstjórnin á þessu væri í höndum annara.