27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

11. mál, fræðslumálanefndir

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Aðeins nokkur orð. Það er rjett, að starfssvið nefndarinnar er takmarkað og ekki um margvísleg störf að ræða. Aðalstarfið verður að semja námsskrár og velja kenslubækur. Þetta hvorttveggja er kennurunum sjálfum svo náið, að það er rjett að veita þeim tillögurjett um það, þar sem hjer er um hið daglega starf kennaranna að ræða. Nefndin er því nokkurskonar uppsprettuauga tillagna um heppilega starfshætti í skólum. En hjer er ekki um neina „administration“ að ræða, og á ekki að vera. Á Englandi er það tíðkað að hafa slíkar aðstoðarnefndir, sem gera tillögur um kenslufyrirkomulag hinna ýmsu skóla, hver á sínu sviði. Jeg legg því til, að frv. þetta verði samþykt óbreytt. Jeg tel ekki, að nein hætta geti af því stafað, þar sem hjer er ekki um nein hagsmunamál kennarastjettarinnar að ræða, heldur aðeins um heppilega niðurröðun daglegra starfa. Loks, í tilefni af því, sem hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Borgf. sögðu, að börnin væru ofhlaðin störfum og ákveða þurfi hámarkskenslu, þá vil jeg taka það fram sem mína skoðun, að jeg tel aðalatriðið að tiltaka lágmarkskensluna, því þær syndir, sem drýgðar eru á þann hátt, að of mikið nám sje heimtað af börnunum, eru fáar, en hinar, sem stafa af of litlum kröfum, eru óteljandi. Aðaláhersluna ber því að leggja á það að ákveða lágmarkskensluna.