24.01.1928
Neðri deild: 5. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

1. mál, fjárlög 1929

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg skal leitast við að svara fyrirspurnum hv. 1. þm. Reykv. (MJ). — Hin fyrsta þeirra var út af frv. því til breytinga á stjórnarskránni, sem lagt hefir verið fyrir hið háa Alþingi, sem nú situr. Jeg skal fúslega játa, að jeg hefi engar ráðstafanir gert til að semja fjárlagafrv. fyrir 1930, þótt þetta stjórnarskrárfrv. gengi fram. (SE: Sjálfsagt að drepa stjórnarskrárbreytinguna). Það, að jeg hefi ekki undirbúið þetta frv., stafar af því, að ekki eru til nein lög, sem mæla svo fyrir, að það skuli gert. Og í því stjórnarskrárbreytingafrumvarpi, sem hjer liggur fyrir, fæ jeg ekki sjeð, að sjeu svo stórkostlegar umbætur, að það þurfi endilega að ganga fram, eða nauðsynlegt sje að leggja mikla vinnu í að undirbúa önnur lagafrv. á þeim grundvelli. (PO: Talar hæstv. ráðh. fyrir hönd allrar stjórnarinnar?). Jeg tala aðeins fyrir mína eigin hönd og mundi taka það fram sjerstaklega, ef jeg talaði fyrir hönd stjórnarinnar í heild. — Það er bæði þessi ástæða, sem þessu hefir valdið, og svo ekki síður hitt, að jeg álít alveg nógu erfitt að semja fjárlagafrv. 1½ ári fyrirfram, eins og nú er, hvað þá ef taka ætti upp þann sið að semja það 2½ ári áður en það gengur í gildi. Jeg vænti þess, að hv. 1. þm. Reykv. geti orðið mjer alveg sammála um það, að einn versti gallinn á þessu stjórnarskrárfrv. er það, að þing á aðeins að verða annaðhvert ár, og að það sje mjög fjarri því að vera í nokkru samræmi við kröfur tímans. Jeg vona, að sem flestir hv. þm. taki undir það með mjer, að frv. megi teljast öfugt spor, en ekki spor til framfara. Og jeg þykist vita, að því muni enginn lá mjer, þótt jeg hafi ekki hegðað mjer eftir þessu frv. í undirbúningi mínum á fjárlagafrv. En hins má geta, að ef svo illa skyldi til takast, mót von minni, að frv. þetta næði samþykki Alþingis, þá væri hægt að bera fram fjárlagafrv. fyrir 1930, en það hlyti að verða mjög lítils virði, svo að sú nefnd, sem fengi það til meðferðar, hlyti að gerbreyta því, ef nokkurt gagn ætti að verða að þeim fjárlögum. — Jeg veit ekki, hvort hv. 1. þm. Reykv. þykir þetta nægilegt svar við fyrstu spurningu hans. (MJ: Þetta er mjög skýrt svar).

Mjer fanst svo, að heyra á annari fyrirspurn hv. þm., um störf hv. fjvn., sem honum hefði fundist liggja í orðum mínum einhver aðdróttun til fjvn. á undanförnum þingum, um að þær hefðu ekki rækt starf sitt með fullkominni samviskusemi. En orð mín átti alls ekki að skilja á þá leið. Þvert á móti. En nefndinni hefir aldrei verið ætlaður nægur tími til að inna störf sín af hendi. Meðlimir hennar hafa jafnframt átt sæti í öðrum nefndum, en það má ekki eiga sjer stað. Þeir þurfa að geta gefið sig óskifta við fjárveitinganefndarstörfunum, og þá ættu þeir að geta haldið tvo fundi á dag, bæði að morgninum og síðari hluta dags, eftir deildarfundi. En því neitar enginn, að fjvn. verði að kynna sjer öll skjöl og skilríki, sem henni berast. Þar fyrir þarf það ekki að vera nauðsynlegt, að nefndin eyði dögum, vikum og jafnvel mánuðum til þess að hlýða á upplestur þessara skjala. Jeg hygg, að nefndarmenn gerðu rjettara í að skifta skjölunum með sjer, og gæti þá hver um sig skrifað hjá sjer aðalefni þeirra skjala, er hann fær til lestrar, og kynt öðrum nefndarmönnum það á eftir í fljótu bragði. Að þessu hlyti að verða mikill tímasparnaður. — Vitanlega eru sum mál þess eðlis, að fleiri þyrftu að rannsaka þau en einn, og yrði þá að sjálfsögðu brugðið frá þessari reglu.

Jeg þykist nú hafa bent á leiðir, sem gætu orðið til þess að flýta störfum hv. fjvn. allverulega, ef eftir þeim væri farið. Annars er það óþarft fyrir mig að fara langt inn á þetta, því að jeg treysti hv. nefnd sjálfri vel til að ráða fram úr þessu vandamáli, ef meðlimir hennar verða ekki ofhlaðnir öðrum störfum.

Þriðja atriðið, skattana á atvinnuvegunum, efast jeg um, að rjett sje fyrir okkur hv. 1. þm. Reykv. að orðlengja um þegar í stað. Eins og jeg vjek lítillega að í ræðu minni, álít jeg í raun og veru, að þing og stjórn hafi látið óþarflega fljótt undan kröfum atvinnuveganna, sem raunar voru allháværar, um að lækka gjöld og tolla á þeim. Þungavörutollinum og gengisviðaukanum hefir að allmiklu leyti verið ljett af þeim. En þegar svo stendur á, að nauðsynlegt er að reisa við fjárhaginn eftir 10 ára erfiðan tíma, sem engum þarf að koma á óvart, þótt hafi skapað fjárhagsörðugleika, þá liggur það í hlutarins eðli, að ekkert vit er í að afnema helstu tekjuaukalögin strax árið eftir að þau eru sett. — Ef einhver batavottur sjest á sjúklingi eftir langvarandi sjúkdóm, þá er ekki sjálfsagt að reka hann þegar í stað upp úr rúminu. Það getur komið fyrir, að hann fái afturkast. En einmitt þetta átti sjer stað hjer. Úr því að farið var inn á þá braut 1924, að bæta úr vandræðum ríkissjóðs með nýjum skattaálögum, þá mátti ekki fella mikinn hluta þeirra úr gildi þegar í stað, er nokkuð fór að rofa til. Þótt jeg hafi sjálfur mátt teljast einn í hópi atvinnurekenda, þá hygg jeg, að það hafi mátt teljast smámunaleg sýtingssemi af þeim að heimta afnám þessara laga þegar í stað. Því stóran rekstur munar það ekki svo miklu, hvort borgað er krónunni meira eða minna í salttoll eða kolatoll, en það getur munað ríkissjóð allmiklu, þegar alt kemur saman. — Um gengisviðaukann og sjerstaklega verðtollinn vil jeg því segja, að jeg álít, að ástæðulítið hafi verið að kippa þeim burt, því að jeg álít, að þeir hafi ekki komið svo þungt niður á atvinnuvegunum, að þeir hafi getað orðið til að sliga þá. Vitanlega er æskilegt að heimta sem mest af tollunum af óþarfavarningi, en þar fyrir sje jeg ekki ástæðu til að taka neitt aftur af ummælum mínum.