01.03.1928
Efri deild: 36. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

20. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Frsm. (Jón Þorláksson):

Allshn. flytur hjer tvær örlitlar brtt. á þskj. 340. Hin fyrri er um fyrirsögn 1. kafla frv.; það er aðeins orðabreyting, sprottin af því, að nefndin kann illa við þá fyrirsögn, sem nú er, „Svið laganna“, en telur kaflann rjettnefndan svo sem í brtt. greinir.

Þá er önnur brtt. um að fella burtu orðin úr 15. gr. „og notkun heitvatnstækja“.

Greinin fjallar um kröfur til þeirra manna, sem megi gæta eftirlitsskyldra eimkatla, og kröfurnar eru þær, að þeir hafi nægilega þekkingu á þeim verkum. Og svo stendur „og notkun heitvatnstækja“, en þetta er eitthvert innskot, sem af vangá hefir komist þarna inn. Nefndin athugaði það og þótti rjettast að láta falla niður þessi orð, því að þau ættu þar ekki heima. Leit nefndin svo á, að kröfurnar, sem greinin gerir um kunnáttu gæslumanna, væru nægilegar, þó að þetta innskot stæði þar ekki.