24.01.1928
Neðri deild: 5. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

1. mál, fjárlög 1929

Ólafur Thors:

Jeg vil aðeins benda hæstv. forsrh. (TrÞ) á það, að hann fer mjög villur vegarins, þegar hann talar um, að íhaldsmenn vilji lengja þingið og vitnar í því sambandi til tillögu þeirrar, er jeg bar fram hjer í hv. deild, um að frestað væri að kjósa fjvn. þar til ákveðið hefði verið, hvort kosning Jóns A. Jónssonar yrði tekin gild. Í tilefni af þessum hallmælum hæstv. ráðh. til íhaldsmanna er mjer ánægja að minna hann á, að með þessari tillögu minni greiddu atkv. 9 íhaldsmenn, 1 frjálslyndur og 10 flokksbræður hæstv. ráðh. (SvÓ: Atkvgr. var aðeins um það, hvort leyfa skyldi afbrigði frá þingsköpum). Atkv. Framsóknarmanna í þessu máli sýndu það nokkuð, hvern hug þeir bera til þess, hvort rjettlætið eigi að ráða á hinu háa Alþingi, eða hnefarjetturinn einn.

En úr því að farið er að tala um þetta á annað borð, þá vil jeg, að hæstv. forsrh. fræði mig um það, hve lengi þessi skrípaleikur á að halda áfram. Jeg spurði í gær um það, hvers beðið væri, hvaða plögg það væru, sem kjörbrjefanefnd vantaði. Jeg heimtaði, að ekki væri farið með málið með neinni leynd. Jeg fjekk þau ein svör hjá formanni nefndarinnar (SvÓ), að hann skyldi svara mjer utan fundar. Og hverju svaraði hann svo utan fundar? Jú, að von væri á „Suðurlandi“ á hverri stundu. Nú er „Suðurland“ komið. Eftir hverju er nú beðið? Hefir nefndin fengið nóg „plögg“ til að átta sig?

Jeg leyfi mjer að mælast til þess við hæstv. forseta, að hann hjálpi mjer til að koma fram þeirri rjettlætiskröfu, að skjótlega verði úr þessu máli skorið. En jeg mun daglega minnast á það í hv. deild, uns jeg sje, að einhver skriður er á það kominn.