20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

27. mál, bændaskóli

Magnús Guðmundsson:

Því hefir verið haldið hjer fram í hv. deild, að vegna þess, hve bændaskólinn á Hólum hefir verið illa sóttur síðustu árin, þá væri rjett að taka til athugunar, hvort ekki væri rjett að breyta kenslufyrirkomulaginu þar. Það er nú að vísu satt, að skólinn hefir verið lítið sóttur síðustu árin, en það hefir sínar sjerstöku ástæður. Eins og allir vita, þá brann skólahúsið á Hólum í fyrrahaust, svo engin von er til þess, að margir skólasveinar væru í fyrravetur og nú. En þá mætti kannske segja, að þetta hafi ekki gilt fyrir tímann þar á undan. En það er þó svo í raun og veru, því að gamla húsið var orðið svo slæmt, að naumast var verandi í því. Þetta var orðið kunnugt um flest hjeruð landsins og dró úr umsóknum að skólanum. Það má því segja, að happ væri að því, að það brann. Jeg hefi fulla von um, að nú, þegar búið er að byggja þar gott hús, þá muni aðsókn þangað aukast aftur og verða lík því, sem gerist um aðra skóla hjer á landi.

Þetta atriði hygg jeg, að hafi ekki verið athugað nógu vel í hv. nefnd, og að hæstv. stjórn hafi heldur ekki tekið nægjanlegt tillit til þessa, þegar hún bar fram till. sínar, að bæta unglingadeild við skólann. En jeg er viss um, að til þess að hafa slíka deild við skólann yrði húsrúm þar alt of lítið. Mjer þótti því vænt um, að nefndin leggur til að fella niður þennan lið frv.

Viðvíkjandi rekstri skólans vil jeg taka það fram, að jeg lít svo á, að skilja beri brtt. nefndarinnar um, að reka megi skólabúið á opinberan kostnað, ef hentugra þyki, þannig, að fyrst beri að gera tilraun með að reka búið á kostnað einstaklinga. Mjer skildist helst, að það væri vegna verklega námsins, sem þetta gæti talist nauðsynlegt. En í sambandi við það vil jeg geta þess, að það atriði er mikið undir því komið, hvernig samið verður um verklega námið. Ef ábúandi fær vinnuna, þá ætti það að ýta undir hann að láta vinna að jarðabótum. En jeg vil heldur, að styrkurinn verði hækkaður til verklega námsins, heldur en að tekinn verði upp ríkisrekstur á skólabúunum.

Jeg held ekki, að undanfarandi reynsla gefi ástæðu til gagngerðra breytinga, og vil því taka undir með hv. þm. Borgf., að þar sem þetta mál verður væntanlega útkljáð á næsta þingi, þá sje ekki ástæða til að breyta nú. Það virðist mega fara þá leið að setja skólastjóra á Hólum til bráðabirgða og láta fullnaðarsamninga vera komna undir þeim ákvörðunum, sem teknar verða síðar um fyrirkomulag bændaskólanna. Þannig ætti að vera hægt að komast yfir þetta millibilsástand með sjerstökum samningi.