20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

27. mál, bændaskóli

Frsm. (Jón Ólafsson):

Jeg þarf litlu að svara. Allir hv. þm., sem tekið hafa til máls, hafa fallist á, að rjett væri að samþ. þessar bráðabirgðatillögur, sem nefndin leggur til, að samþyktar verði að þessu sinni, að undanteknum hv. þm. Borgf.

Út af orðum hæstv. fors.- og atvmrh. vil jeg geta þess, að það vöktu líkar ástæður fyrir nefndinni og þær, er hv. 1. þm. Skagf. tók fram, að húsrúm myndi reynast of lítið, ef aðsókn yrði sæmileg, til þess að setja þar á fót unglingadeild. Húsakynni hafa verið svo ljeleg og vansæmandi skólasetri, að ekki er full reynsla um það, hvernig aðsókn verður, þegar bætt hefir verið úr þeirri þörf. En fari svo, að skólinn verði illa sóttur áfram, þá má ávalt færa þetta í betra horf.

Hv. þm. Borgf. taldi, að nefndin hefði hoppað inná nýja braut í þessu máli. Það má nú vera, að þetta frv. geri lögin nokkru rýmri en þau voru áður. En jeg hygg, að nokkur ástæða væri til að rýmka lögin frá 1905, sem eru svo þröng, að gert er ráð fyrir, að skólarnir sjeu reknir fyrir einkareikning, meðan einhver fæst til að reka þá. Það væri því ekki, meðal annars, vanþörf á að ganga svo frá, að skólunum væru trygðir sem bestir kraftar. Jeg verð líka að segja það, að með þessu ekki litla tillagi, sem skólarnir hafa fengið og fá úr ríkissjóði, þá eru þeir ekki að fullu reknir sem fyrirtæki einstakra manna. Það er tæplega hægt að kalla þá með öllu óþjóðnýtta.

Hv. sami þm. vildi heimta mikla verklega kenslu af skólunum, en taldi, að semja mætti um það við bústjórann, sem ætti að hafa fyrirmyndarbúskap. En slíkt verður nú altaf mikið undir mannvali komið. Og þótt gerðir sjeu samningar um verklega kenslu, þá er nú jafnan svo, að það má á ýmsan hátt fara í gegnum þá, slíkt er erfitt að tryggja, svo vel sje. En jeg held, að hjer sje ekki um stóra stefnubreytingu að ræða. Þetta frv. er bráðabirgðabreyting á þessum lögum, eins og búið er að margtaka fram. Er því ekki víst, hversu lengi hún varir. En brtt. nefndarinnar eru gerðar með samþykki meiri hl. milliþinganefndarinnar í landbúnaðarmálum, þar sem 2 af 3 eiga sæti í landbn. þessarar deildar. Er því tæplega hægt að búast við, að þeir taki aðra stefnu í þessu máli, nema ef þeir kynnu að finna önnur betri úrræði við nánari rannsókn. Það er því engin ástæða fyrir hv. þm. Borgf. eða aðra að óttast það, að rekstur skólabúanna sje nær ríkisrekstri, því ef þeir hv. þm. landbn., sem eiga sæti í milliþinganefndinni, verða á það sáttir að leggja það til, að ríkið reki skólabúin, þá hafa þeir meiri hluta til að koma því fram og gera það að till. þeirrar nefndar. En í raun og veru er þetta látið vera óútkljáð frá hálfu landbn.

Hv. þm. Mýr. (BÁ) þótti það miður, að landbn. gat ekki fallist á að taka upp till. þær, sem fólust í frv. hans á þskj. 114. Við í nefndinni skoðuðum það frv. sem bendingu fyrir milliþinganefndina, sem gott gæti verið að kæmi fram. En í þessar bráðabirgða tillögur okkar gátum við ekki tekið meira en orðin „ef hentara þykir“.

Jeg held, að það hafi verið óþarfi af hv. þm. Borgf. að fara að koma fram með þessa dagskrá sína, því hún getur ekki í raun og veru bundið stjórnina að neinu leyti og gefur engar ákveðnar tillögur eða ákveðna stefnu. Enda hefir og hæstv. forsrh. lýst því yfir, að hann muni ekki nota heimildina um ríkisrekstur á skólabúinu á Hólum, nema í fylstu nauðsyn. Jeg held því, að það sje ástæðulaust fyrir hv. þm. Borgf. að vera á móti þessum bráðabirgðabreytingum.