20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

27. mál, bændaskóli

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Aðeins örfá orð til hv. þm. Borgf. Hv. þm. sagði, að það skifti ekki svo miklu máli, hvort till. hans eða nefndarinnar í þessu máli væru samþyktar. Jeg vil segja það, að ef engin breyting hefði verið í vændum með Hólaskóla, þá hefði þetta frv. ekki verið borið fram. Þá hefði að fullu verið beðið eftir till. milliþinganefndarinnar um málið. En nú stendur einmitt svo á, að það þarf að ráðstafa Hólaskóla í vor. Ef dagskrá hv. þm. verður samþykt, þá fæst engin bending um það, hvernig haga skuli skólanum í framtíðinni. Verði þar á móti till. nefndarinnar samþ., þá kemur fram sú stefnubreyting, að kenslan, sem var áður nær eingöngu bókleg, verður nú að miklum mun meira verkleg, þar sem frv. gerir ráð fyrir auknum kröfum á því sviði.

Verði frv. samþ., er því um leið slegið föstu að breyta aðeins Hólaskóla. Undanfarin 20 ár hefir aðalsvipurinn verið bókleg kensla, en verði frv. samþ., verður aðallega um verklega kenslu að ræða. Þetta er það, sem skilur, hvort samþ. verður frv. eða hin rökstudda dagskrá.