20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

27. mál, bændaskóli

Magnús Guðmundsson:

Út af orðum hæstv. forsrh. vil jeg geta þess, að jeg hygg engan ágreining um það á þingi, að nauðsynlegt sje að auka verklega námið við bændaskólana. Verði frv. samþ., vil jeg minna á það, að verklega námið yrði að fara fram á sumrin, og til þess að piltar geti notið þess, þarf að veita þeim þann styrk að gjalda þeim kaup yfir sumarið. Það er mjög oft svo, að margir hinna ungu manna, er stunda nám við þessa skóla, eru bláfátækir og hafa alls ekki efni á því að missa sumarkaup sitt. samþ. þessa frv. hlyti því að hafa talsverðan kostnað í för með sjer.

Annars vil jeg þakka hæstv. forsrh. þau ummæli hans, að hann vildi ekki gera þá breytingu á búrekstrinum, að hann yrði rekinn af opinberu fje, fyr en endanlegt skipulag hefir fengist á skólunum. Jeg vona, að jeg hafi skilið orð hæstv. ráðh. rjett. (Forsrh. TrÞ: Jeg sagðist geta athugað þetta til 3. umr.). Jeg verð að álíta það sjálfsagt að breyta þessu ekki, þegar von er um að fá endanlegar till. og samþyktir á næsta þingi um bændaskólana.

Að síðustu vil jeg benda á, að það er ekki vel ljóst, hvort standa á b-liður, ef það verður samþ. að fella a-lið. (Forsrh. TrÞ: Nei, alls ekki). Hv. nefnd hefir gert það að till. sinni, að fella aftan af 4. lið orðin: „til þess að reka skólann með þessu skipulagi“. Vil jeg því spyrja hv. nefnd, hvort hún geti fallist á 4. liðinn, því að það væri óneitanlega óviðkunnanlegt að gera breytingu á kennaraliði skólans, ef engin breyting verður gerð á skólanum sjálfum.