20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

27. mál, bændaskóli

Jón Sigurðsson:

Jeg stend illa að vígi að ræða þetta mál, þar eð jeg hefi ekki heyrt nema lítið brot af umr. skal jeg því vera stuttorður, til þess að endurtaka ekki það, er áður hefir verið sagt.

Mjer skilst, að með þessu frv. eigi að gera tilraun til þess að auka verklega námið við bærdaskólana. Um það er að sjálfsögðu aðeins gott eitt að segja, en jeg vil benda á, að þó slík tilraun verði gerð, er hætt við, að hún sýni ekki nema helming þess, er henni er ætlað. Það má búast við því, að aukin verkleg kensla dragi úr aðsókn að skólanum, vegna þess að margir piltar eru þannig settir, að þeir geta ekki fórnað tveim vetrum og einu sumri til þessa náms. Jeg álít, að miklu nær væri að gera þá tilraun, er jeg og hv. þm. Mýr. bentum á. Á þann hátt fengist meiri reynsla og það yrði öruggara, að aðsókn að skólanum yrði eins og verið hefir, eða ef til vill betri. Úr því hjer er um tilraun að ræða og skoða á næstu ár sem tilraunatímabil, virðist mjer liggja beinast við að stíga sporið fyllra, eins og jeg hefi bent á. Frá mínu sjónarmiði hefir hæstv. stj. og hv. nefnd ekki stigið nema hálft spor í þessa átt.