22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

27. mál, bændaskóli

Frsm. (Jón Ólafsson):

Það er eins og hv. flm. þessarar brtt. 267 hafi þótt hún svo ákaflega nauððynleg, að þeir yrðu að koma með hana nú, þótt nefndin sje búin að lýsa því yfir mörgum sinnum, og 2 hv. þm. úr milliþinganefndinni í landbúnaðarmálum hafi tekið undir það, að lagt mundi verða fyrir næsta Alþingi ítarlegt frv. um bændaskóla, samið af milliþinganefndinni. Og með það frv. í huga áleit landbn. rjett, þegar þetta frv. kom fyrst til umr., að gera sem minst í þessu máli, áður en milliþinganefndin hefði látið uppi álit sitt.

Jeg get ekki sjeð, að menn sjeu nokkru nær því að hafa þá bráðabirgðabreytingu, sem með þessu frv. er ætlast til, að gerð sje á skólanum, í góðu lagi, þótt þessi brtt. sje samþ. Jeg sje heldur ekki, að þessi bráðabirgðaframkvæmd, sem gert er ráð fyrir í brtt., verði betri en hin, sem ætlast er til að hæstv. atvmrh., sem á að ráða skipun skólans í samráði við skólastjórann á Hólum og stjórn Búnaðarfjelags Íslands, myndi ákveða.

Margir segja, að það sje að mörgu leyti erfitt að koma á jarðyrkjunámi og halda því uppi. Bændur megi ekki missa syni sína frá vinnu um þennan tíma nema af mjög skornum skamti. Það virðist því ekki ástæða til þess að ákveða með lögum, að þetta skuli vera svo, og því rjett, að mínu áliti, að halda sjer við þá skoðun, að slíka breytingu eigi ekki að framkvæma fyr en að vel athuguðu máli. Jeg verð því að líta svo á, að þessi brtt. sje alls ekki nauðsynleg.

Annars mun nefndin taka alt þetta til athugunar og gera þá tilhögun á skólunum, sem henni líst heppilegust fyrir þá báða. Það er óhætt fyrir mig að segja það fyrir hönd nefndarinnar, að hún mun ekki mæla með brtt. á þskj. 267.