22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

27. mál, bændaskóli

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um brtt. á þskj. 267, því að hv. meðflm. minn hefir þegar gert það, en jeg vil aðeins svara þeim andmælum, sem síðar hafa komið fram gegn brtt.

Það er þá fyrst hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), sem benti á það, að það lægi fyrir að endurskoða rækilega löggjöfina um alt þetta mál og leggja tillögur milliþinganefndarinnar í landbúnaðarmálum um það fyrir næsta þing; þess vegna lægi ekki á að fara nú að hraða þessu máli. Jeg lít svo á, að það liggi svo mikið á þessu máli, að það megi alls ekki draga lengur að framkvæma þessar ákaflega mikilsverðu breytingar á bændaskólunum, þar sem nú gefst tækifæri til þess.

Þá hafði hv. þm. (JÓ1) heyrt því fleygt, að bændur mættu ekki missa syni sína frá vinnu þennan tíma vor og haust. Það má vel vera, að einhverjir líti svo á, en jeg verð að halda, að ef þeir hafa efni á að missa þá frá vinnu til annars hluta námsins, þá muni þeir eins geta það til þessa. Jeg vil í þessu sambandi leyfa mjer að benda á tillögu, sem fram hefir komið frá skólastjóranum á Hvanneyri, um það að ljetta mönnum þetta verklega nám með því að veita nemendum styrk til þess að stunda það. Og ef sú tillaga nær fram að ganga, þá get jeg ekki sjeð, að mönnum ætti að verða tilfinnanlegt að stunda námið.

Hæstv. fors.- og atvmrh. sagði, að það væri dálítið hart, ef ekki væru nægilega margir nemendur í skólanum, að vísa mönnum frá eldri deild vegna skilyrðanna um verklega námið, og láta skólann standa hálftóman fyrir bragðið. Jeg álít, að uppfylling þessa skilyrðis sje ekki svo mikil kvöð, að það eigi þeirra hluta vegna að geta komið til greina, að menn hætti við að setjast í eldri deild. Jeg álít, að þeir menn, sem ekki vilja leggja það á sig að læra handtök við jarðyrkju, þeir eigi ekkert erindi upp í þá deild. svona var það með mig. Það er alveg rjett, að þetta var einmitt ástæðan. Jeg var þá svo mikið barn, að jeg hafði ekki vit á að gera það, og jeg gerði það ekki vegna þess að það var ekki skylda. En síðar í lífinu hefi jeg sjeð, hve illa farið það var, og þess vegna vil jeg stuðla til þess, að aðrir lendi ekki í sömu fordæmingunni og jeg. Jeg vil því mæla mjög eindregið með brtt. okkar hv. 2. þm. Skagf., en leyfi mjer að leggja til, að hin skriflega brtt. hæstv. atvmrh., sem eyðileggur það, að brtt. okkar komi að notum, verði feld.