22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

27. mál, bændaskóli

Pjetur Ottesen:

Jeg bar fram rökstudda dagskrá við 2. umr. þessa máls, sem gekk út á það að breyta ekki lögunum um bændaskólana á þessu þingi, þar sem milliþinganefndin í landbúnaðarmálum hefir málið til meðferðar og mun gera till. um framtíðarskipulag skólanna fyrir næsta þing. Einn nefndarmannanna hefir lýst yfir þessu, og því sje jeg enga ástæðu til breytinga og finst sjálfsagt að bíða. Og mjer er þyrnir í augum, ef á að fara að gera þá höfuðbreytingu á skólunum að stofna til ríkisrekstrar á skólabúunum. Hæstv. atvmrh. lofaði við 2. umr. að gefa svar við því nú við þessa umr., hvort hann mundi stofna til ríkisrekstrar á skólabúinu á Hólum nú þegar, eða láta sitja við það, sem er, þar til útsjeð er um, hvernig fer um væntanlegar tillögur milliþinganefndarinnar í landbúnaðarmálum um breytingar á bændaskólunum, og því geymdi jeg dagskrártill. mína þar til nú. Hæstv. ráðh. hefir brugðist þeim vonum, fer nú undan í flæmingi og skírskotar til þess, að stj. eigi að ákveða þetta í samráði við Búnaðarfjelag Íslands. Hjer á þingi er ekki hægt að vita neitt um, hverjar verða till. stj. Búnaðarfjelags Íslands í þessu máli. Það, sem jeg fer fram á hjer, er að fá skýr og ótvíræð svör við því frá hæstv. atvmrh., hvort hann ætlar að láta reka skólabúið á Hólum fyrir ríkisreikning, ef frv. verður samþykt, eða ekki. Jeg ætla að bíða eftir ákveðnu svari um þetta, en á því veltur, hvort mjer þykir ástæða til að láta dagskrá mína koma undir atkvæði eða ekki.

Mjer virðist, að brtt., sem útbýtt hefir verið á fundinum, geti alls ekki — hvað sem framtíðarskipulagi skólanna líður — komið til framkvæmda nú, þar sem hjer er aðeins um eins árs frest að ræða, og finst þær því algerlega óþarfar. Hjer er gert ráð fyrir, að þeir einir fái að sitja í efri deild skólans, sem lokið hafi jarðyrkjunámi, en hinsvegar eru nú útskrifaðir menn úr neðri deild án þess að hafa átt nokkurn kost á slíku námi. Það nær þess vegna ekki nokkurri átt að ætla að útiloka þá frá efri deild skólans fyrir þessar sakir.

Frekar ætla jeg ekki að ræða um þetta að sinni, en vænti þess að fá ákveðin svör frá hæstv. ráðh.