22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

27. mál, bændaskóli

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mjer þykir það nokkur ósanngirni, þegar háttv. þm. Borgf. bregður mjer um það að hafa ekki gefið ákveðin svör. Í frv. stendur, að ráðherra afráði málið í samráði við aðra aðilja, og því er ósanngirni að ætlast til, að hann gefi ákveðin svör án þess að hafa talað við þessa aðilja. Auk þessa á að kjósa í stjórn Búnaðarfjelagsins á þessu þingi, svo að ekki er gott að segja, hverjir muni skipa hana. Jeg álít, að samvinnan sje alls ekki nein „húmbugs“-ráðstöfun. Búnaðarfjelagið er til til þess að sjá um þrifnað landbúnaðarins og bændaskólanna, og því er rjett, að það ráði nokkru í þessu efni. sjálfur hefi jeg enga sjerstaka tilhneigingu til ríkisrekstrar, en mun ekki standa á móti, ef fram kemur sterk áskorun og það verður skoðun Búnaðarfjelagsins, að rekstur skólanna og verklega kenslan sje „húmbug“ nema af opinberu fje. Jeg er ekki að segja, að svo fari. Það er ekki síst komið undir væntanlegum fulltrúa Íhaldsflokksins, svo að hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Borgf. geta treyst því, geri jeg ráð fyrir, að ekki verður hrasað að neinu.

Í sambandi við till. hv. þm. Borgf. vil jeg geta þess, að fyrir svo sem klukkutíma voru samþ. lög um breytingu á lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, og með því að núverandi skólastjóri á Hólum setti sem skilyrði fyrir því, að hann starfaði í þágu Búnaðarfjelagsins, að slík breyting gengi í gegn, má vita nú með vissu, að skólastjórastaðan á Hólum losnar í vor. Og því vil jeg, að afgreidd sjeu hjer lög um þetta, svo að hægt sje að velja mann með tilliti til þess, hvort hann á að standa fyrir verklegum eða bóklegum skóla. Og þess vegna legg jeg til, að frv. komi fyrir báðar deildir.